Skip to content

Helgun og þrengingar

Í kirkjum er oft rætt um helgunina, þ.e.a.s um það að fylgja Jesú og vera lærisveinn hans. Á hinn bóginn er sjaldan talað um þrengingar og þjáningu. En þetta fylgist að, því Biblían lýsir kristnu lífi oft sem þrengingum og þjáningu. Sjónvarpsprédikarar eiga það hinsvegar til að lýsa kristnu lífi sem lífi án þrengingar. Hvort á það þá að vera?

Prédikarar hins svokallaða „hagnaðarerindis“ eða velgenginsguðfræðinnar ganga mjög langt í þessa átt. Þeir líta á veikindi og fátækt, og jafnvel það að þurfa að bíða of oft á rauðu ljósi á leið til vinnu, sem vantandi blessun Guðs. Það er hræðileg villukenning.

Samt sem áður býr í okkur öllum vottur af þeirri hugsun að framför í helgun hljóti að hafa í för með sér minni þjáningu. Einhverskonar innri búddhisti sem heldur ar þjáningin merki að við séum langt frá Kristi, og að vandræði okkar beri vitni um að að Guð hafi yfirgefið okkur. Ég hugsa að það sé ástæðan fyrir því að þjáningar okkar fá okkur allaf til að spyrja hvað sé orðið af Guði. „Hvar er Guð í öllum mínum erfiðleikum?“ Við spyrjum að þessu vegna þess að við höldum (án þess að hugsa um það) að Guð hljóti að halda þeim fjarri sjálfum sér, og ef við þjáumst, þýðir það þar af þeiðandi að við erum fjarri Guði.

En það er alls ekki tilvikið.

Þjáningin er Guði vel kunn

Í fyrsta lagi er þjáning ekki Guði framandi. Krossinn sýnir okkur það skýrlega. Spámaðurinn Jesaja nefndi Jesú harmkvælamann, kunnugum þjáningum (Jes 53:3). Enginn hefur nokkurntíman liðið þjáningar eins og þær sem Jesús leið í grasagarðinum Getsemane og á krossinum. Þar voru á hann lagðar allar syndir mannkyns og hin mikla reiði Guðs sem þeim fylgja. Þegar við heyrum Jesú hrópa af krossinum „Guð minn, Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ ættum við, í það minnsta, að vita að Guð þekkir þjáningu vel af eigin reynslu.

Í öðru lagi, kennir Jesús okkur að þjáningin mun heldur ekki vera framandi fylgjendum Krists. Þegar Jesú kallaði lærisveina sína sagði hann ekki „takið hægindastól yðar og fylgið mér,“ heldur „taktu kross þinn,“ og bætir við að þetta skulir gert daglega (Sjá Lúk 9:23 og 14:27). Ok Jesú (Matt 11:28-30) er ekki ljúft vegna þess að það vanti þjáningu, heldur vegna þess að okið vantar ekki Jesú, og þar af leiðandi vantar þar ekki fyrirgefningu.

Að fyglja Jesú merkir að fylgja honum í þjáningu hans. Eini ritningarstaðurinn sem kennir okkur að taka Jesú til fyrirmyndar, gefur okkur fyrirmynd hins líðandi Krists.

Hvað myndi Jesús gera?

Því að hvaða verðleiki er það, að þér sýnið þolgæði, er þér verðið fyrir höggum vegna misgjörða? En ef þér sýnið þolgæði, er þér líðið illt, þótt þér hafið breytt vel, það aflar velþóknunar hjá Guði. Til þessa eruð þér kallaðir. Því að Kristur leið einnig fyrir yður og lét yður eftir fyrirmynd, til þess að þér skylduð feta í hans fótspor. "Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans." Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald, sem réttvíslega dæmir. Hann bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð, til þess að vér skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þér læknaðir.
1 Pét 2:19-24

Þetta er ekkert smáræði! WWJD? Hvað myndi Jesús gera? Hann myndi líða þjáninguna. Ef við viljum fylgja fordæmi Jesú, þá verðum við að taka við þjáningunni eins og hann gerði: Hljóðlátlega og með þolinmæði. Á skelfilegan hátt má segja að helgun okkar snúist um að geta borið þjáninguna betur.

Ef við skiljum þetta, þótt að það sé okkur erfit, lýkur það upp fyrir okkur öllum ritningarversunum um þjáningu og það að vera lærisveinn Krists. Þessi óþægilega tenging milli þjáningarinnar og lærisveinsins er engin tilviljun: „Þjáning heyrir hlutverki mínu til. Mér er ætlað að ganga gegnum þreningar, freistingar og veikleika. Ég fylgi Kristi!“

Líf okkar sem kristnir menn og kristnar konur felst ekki í því að Jesús muni taka frá okkur alla erfiðleika, heldur fremur að hann muni vera hjá okkur og með okkur, mitt í þrengingum og erfiðleikum okkar. Það er huggun okkar og hughreysting. Ekki að við séum laus við þjáningu, heldur er það loforð Jesú um að hann, sem þjáðist í okkar stað, muni hvorki sleppa okkur né yfirgefa okkur (Matt 28:19-20; Heb 13:5).

Tilgangur í þjáningu okkar

Í þriðja lagi sjáum við tilgang í þjáningu okkar. Marteinn Lúther prédikaði að það eru þrír hlutir sem gerir guðfræðing: Bæn, íhugun á orði Guðs, og tentatio, þ.e. freisting og þrenging. Lúther skrifaði um þetta í inngangi sínum að sálmi 119, sem er „hinn miklí Tórasálmur“. Í Sálminum segir Davíð konungur: „Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda,“ (119:50) „Áður en ég var beygður, villtist ég, en nú varðveiti ég orð þitt.,“ (119:67) og „Það varð mér til góðs, að ég var beygður, til þess að ég mætti læra lög þín.“ (119:71). Þrengingin, tentatio, er til góðs. Hún kennir okkur orð Guðs. Í þrengingum okkar mótumst við af Guði.

Taktu eftir því hvað Páll postuli ritar um þrengingar í öðru Korintubréfi:

En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.  Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki,  ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.  Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum.  Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru. (2 Kor 4:9-11)

Líf Jesú birtist í dauða okkar. Gæska hans kemur til sjónar í þrengingum okkar. Fyrir því…

Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður. Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft. (2 Kor 4:16-18)

Í Kristi er þrenging okkar undirbúingur, endurnýjun, kennsla og mikil gjöf: „Því að yður er veitt sú náð fyrir Krists sakir, ekki einungis að trúa á hann, heldur og að þola þjáningar hans vegna“ (Filipp 1:29)

Að fagna og gleðjast í þrengingum og þjáningu

Í fjórða lagi, þegar við vitum og skiljum að Jesús er hjá okkur í þjáningum okkar, og að þrengingar okkar eru gjöf hins upprisna Jesú Krists, til að opinbera á okkur miskunn sína og undirbúa okkur fyrir upprisuna, getum við fagnað og glaðst í miðjum þjáningunum.

Þeir fóru burt frá ráðinu, glaðir yfir því, að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú. (Post 5:41)

Að gleðjast yfir því að sæta húðstrýkingum er óskiljanlegt í augum heimsins. Það er hrein bilun. En þetta voru lærisveinar sem þekktu Krist.

Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Fyrir hann höfum vér aðgang að þeirri náð, sem vér lifum í, og vér fögnum í von um dýrð Guðs.
En ekki það eitt: Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði,  en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von.  En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn.
(Róm 5:1-5)

Við fögum yfir fagnaðarerindinu, og þess vegna fögum við í þjáningum okkar. Postulinn Páll endurtekur þennan boðskap aftur og aftur.

Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur. (2 Kor 12:10)
Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna. Það, sem enn vantar á þjáningar Krists, uppfylli ég með líkamlegum þjáningum mínum til heilla fyrir líkama hans, sem er kirkjan. (Kól 1:24)

Og það sama prédika hinir postularnir. Einnig þeir þekktu þjáningu Jesú, sem og þjáningu kristins manns, og fögnuðinum sem fylgir.

Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði, (Jak 1:2-3)

Postulinn Pétur álítur þrengingarnar vera heiðursmerki sem er meira virði en gull.

Það er til þess að trúarstaðfesta yðar, langtum dýrmætari en forgengilegt gull, sem þó stenst eldraunina, geti orðið yður til lofs og dýrðar og heiðurs við opinberun Jesú Krists (1 Pét 1:7)
Gleðjist heldur er þér takið þátt í píslum Krists, til þess að þér einnig megið gleðjast miklum fögnuði við opinberun dýrðar hans.  Sælir eruð þér, er þér eruð smánaðir vegna nafns Krists, því að andi dýrðarinnar, andi Guðs hvílir þá yfir yður.  Enginn yðar líði sem manndrápari, þjófur eða illvirki eða fyrir að hlutast til um það, er öðrum kemur við.  En ef hann líður sem kristinn maður, þá fyrirverði hann sig ekki, heldur gjöri Guð vegsamlegan með þessu nafni. (1 Pét 4:13-16)

Að lokum

Kristnir menn gera það ekki að leik sínum að leita uppi þrengingar og þjáningu, en þær láta samt sem áður ekki á sér standa. Heimurinn, hið synduga eðli okkar og óvinurinn illi hata okkur með sömu heift og þeir hata Krist. Þú ert í kíki þeirra, og þjáningin mun koma. Krossar munu koma. Freistingar, ótti og tap munu koma. En Jesús er þegar kominn, hann er þegar dáinn, þegar upp risinn frá dauðum og han er með þér í þjáningum þínum. Hann þjáðist fyrir þig og hann þjáist með þér. Han lofar því og hann lofar þér gleði og fögnuði.

Jesú sagði:

Sælir eru þeir, sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir, því að þeirra er himnaríki.
Sælir eruð þér, þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Verið glaðir og fagnið, því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina, sem voru á undan yður. (Matt 5:10-12)

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr ensku. Höfundur er Sr. Bryan Wolfmueller, prestur í t. Paul and Jesus Deaf Lutheran Churches, Austin, TX. Bryan hefur að auki preststarfanna skrifað bækur um lútherska trú og kristið líferni og rekur eigin rás á YouTube. Bækur hans, endurútgáfur af ritum lúthers og ýmist annað má finna á heimasíðu hans www.wolfmueller.co.