Skip to content

Afturhvarf til rótanna: Samlyndisbókin

Velkomin á heimasíðu verkefnis, sem við höfum kosið að kalla Játningarbundna lútherska kristni. Með því er átt við að við bindum okkur við sameiginlega játningu lútherskra kirkna um allan heim, sem einkennist af trúfesti við heilaga ritningu og þá útleggingu sem er að finna í Samlyndisbókinni frá 1580.

Eftir því sem þjóðkirkjan verður skref fyrir skref sífellt frjálslyndari höfum við séð þörfina fyrir að hverfa aftur til rótanna: Að lesa heilaga ritningu í þeirri trú að hún sé raunverulega orð Guðs til okkar. Tilgangur hennar er að við öðlumst hjálpræði og eilíft líf í frelsara okkar Jesú Kristi.

Þessa leið gengu íslenskir prestar áður fyrr, og mótaði hún starf m.a. Guðbrands Þorlákssonar, Hallgríms Péturssonar, Jóns Vídalín og Helga Hálfdánarsonar. Markmið okkar er að ganga sömu leið.

Játningarrit kirkjunnar

Samlyndisbókin er því miður ekki til á íslensku í heild sinni. Hana er hægt að nálgast á ensku í allnokkrum þýðingum, sem og á þýsku og á norðurlandamálunum norsku, dönsku og sænsku. Hluti hennar hefur reyndar reiknast sem játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar, og eru þau rit til á íslensku.

Fyrst í röð koma hinar þrjár játningar frumkirkjunnar: Postullega trúarjátningin, Níkeujátningin og Athanasíujátningin. Þessi rit eru stuttar trúarjátningar á hin þríeina Guð. Þær má allar nota í guðsþjónustu, þótt svo að Athanasíujátningin sé í lengsta lagi og nokkuð óþjál, og því sjaldan notuð. Sumar kirkjur nota hana á Þrenningarhátíð, þ.e. sunnudag eftir Hvítasunnu. Flestum kirkjudeildum semur um þessar játningar, og eru þær einnig nefndar hinar samkirkjulegu játningar.

Nær allar kirkjur sem kallast lútherskar kenna sig þvínæst við Ágsborgarjátninguna, sem var skrifuð af siðbótarmönnum árið 1530. Í fyrri hluta sínum tekur játningin saman meginatriði kristinnar trúar, og í seinni hlutanum lítur hún á ýmis ágreiningsmál við kaþólsku kirkjuna.

Fáeinum vikum eftir birtingu Ágsborgarjátningarinnar var svar kaþólikka lesið upp, og litið svo á að málið væri úr sögunni. Samstarfsmaður Lúthers, Philipp Melanchthon, hófst þá handa við að skrifa varnarrit fyrir játninguna. Kallast það rit Játningarvörnin.

Ný samantekt á trúaratriðum lútherskra kirkna var skrifuð af Marteini Lúther nokkrum árum síðar, í þeim tilgangi að leggja þær fram fyrir allmennt kirkjuþing. Það var aldrei gert, en greinarnar urðu seinna hluti af Samlyndisbókinni, ásamt viðauka um mátt páfans, sem var skrifaður af Melanchthon.

Lúther skrifaði tvær einfaldar kennslubækur sem bera nöfnin Fræðin meiri og Fræðin minni, eða katekismus. Fræðin minni voru snemma þýdd á íslensku, og eru til í fleiri þýðingum. Játningar frumkirkjunnar ásamt Ágsborgarjátningunni og Fræðunum minni er að finna í þýðingu Einars Sigurbjörnssonar, ásamt útskýringum hans í bókinni Kirkjan játar.

Fræðin meiri og Schmalkaldengreinarnar komu einnig út á íslensku í tilefni 500 ára afmælis Siðbótarinnar, sem hluti af ritasafni frá Marteini Lúther. Játningarvörnina vantar þó enn.

Að lokum inniheldur Samlyndisbókin einnig Samlyndisregluna. Eftir dauða Lúthers kom upp ágreiningur um ákveðin efni, sem tók nokkurn tíma að greiða úr. Upp úr 1570 var hafið starf til þess að skapa samlyndi og er Samlyndisreglan afrakstur þess starfs. Áratug síðar var Samlyndisbókin tekin saman, og varð hún smám saman að opinberri játningu lúthersku kirkjunnar.

Hið danska ríki var þó marktæk undantekning. Kristján konungur hélt því fram að sá ágreiningur sem hafði átt sér stað í Þýskalandi væri ekki til staðar í dönsku ríkjunum (þmt. í Noregi og á Íslandi). Hann neitaði því að skrifa undir bókina, og þar af leiðandi eru játningarrit kirkna sem eiga rætur sínar að rekja til Danmerkur færri.

Samlyndisbókin

Hinar samkirkjulegu játningar

Ágsborgarjátningin

Játningarvörnin

Schmalkaldengreinar ásamt viðauka

Fræðin minni

Fræðin meiri

Samlyndisreglan

Hin dönsku ríki

Hinar samkirkjulegu játningar

Ágsborgarjátningin

Fræðin minni