Skip to content

Hinn krossfesti lifir

Í frumkirkjunni var snemma farið að lesa ákveðna ritningarlestra á ákveðnum tímum. Fyrst var það páskar og hvítasunna og svo jólahátíðin. Það var talið mikilvægt að fara yfir og kenna þessi texta þessarra hátíða allavega einu sinni á ári. Svo bættist smám saman ýmislegt annað við. Eftir nýár voru lesnir textar um opinberun á dýrð Krists, og á undan jólum og páskum komu föstutímar með þar til heyrandi áherslum. Svo bættust við dagar eins og dagur Jóhannesar skírara, eða Jónsmessa og dagur Stefáns píslavottar annan jóladag. Þá voru lesnir viðeigandi textar þessa daga. Smám saman fylltist árið all af sunnudögum og hátíðum sem höfðu sérstaka merkingu, og hver hafði sína ritningarlestra, þar til komið var heilt kirkjuár. Á síðustu öld hafa svo textaraðirnar svokölluðu verið endurskoðaðar í mörgum kirkjudeildum, og þeim gjarnan verið fjölgað til að hafa t.d. þrjú mismunandi kirkjuár sem skiptast á.

Við þetta eru ýmsir kostir, þá sérstaklega að það tryggir að boðunin fari yfir marga mismunandi texta. Eins og margir aðrir, eiga prédikarar oft sín uppáhaldsvers og uppáhalds ræðuefni, sem oftar en ekki verða fyrir valinu þegar þeir hafa frjálsar hendur. Sérstaklega þegar tíminn er af skornum skammti. Þar að auki geta líka verið textar sem sumir prédikarar forðast helst, nema að þeir séu neyddir til.

Annar kostur er augljóslega það að kirkjuárið með hátíðum sínum og föstum, gefur ákveðinn feril til að upplifa ár hvert mikilvæga atburði í lífi Jesú, sem og allt það sem hann bauð lærisveinum sínum að kenna.

Sunnudaginn kemur er Páskadagur, upprisuhátíð Krists, og því ekki annað en eðlilegt að guðspjall sunnudagsins sé texti sem talar um upprisuna. Við ætlum að lesa ritningarlestrana og tala aðeins um það samhengi sem þeir standa í.

Fyrri ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur er að finna í Sálmunum, nánar tiltekið sálmi 118. Þessi sálmur er síðastur hinna svokölluðu Hallel-sálma, þ.e. 113-118. Sennilega var sálmurinn sunginn í musterinu á tíma Davíðs konungs við miklar hátíðir, og talar um mikilverk Drottinns. Á tíma Jesú voru þessir söngvar sungnir í tengslum við páskamáltíðina, og segir í Matteusarguðspjalli, 26. kafla, 30. versi að Jesú og lærisveinarnir héldu til Olíufjallsins og til Getsemane eftir að hafa sungið þessa sálma til enda. Hluti þessa sálms var einnig sunginn þegar Jesú kom inn til Jerúsalemborgar á Pálmasunnudegi, og var endir hans lesinn í messu síðasta sunnudag. Vers 25 og 26a hljóma þannig: “Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.” Við þekkjum þessi vers auðvitað líka úr guðsþjónustunni, þar sem þau eru sungin fyrir altarisgönguna. En þá notum við hebreska orðið Hósíanna, fremur en íslensku þýðinguna: Hjálpa þú.

Og það er einmitt það sem er megin þema þessa sálms: Drottinn sem hjálpar í þrengingum og mótlæti. Drottinn sem er miskunnsamur. Drottinn sem er hæli í nauðum. Drottinn sem er réttlæti okkar, hjálpari og frelsari. Og einmitt þannig er þetta líka sálmur sem fyrst og fremst uppfyllist með komu Krists, með pínu hans, dauða og upprisu.

Við lesum þennan fyrri ritningarlestur úr sálmi 118, versi 14-24 og hljómar hann svo:

14 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
og hann varð mér til hjálpræðis.

15 Fagnaðar- og siguróp
kveður við í tjöldum réttlátra:
Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,16 hægri hönd Drottins upphefur,
hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.17 Ég mun eigi deyja, heldur lifa
og kunngjöra verk Drottins.18 Drottinn hefir hirt mig harðlega,
en eigi ofurselt mig dauðanum.

19 Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins,
að ég megi fara inn um þau og lofa Drottin.20 Þetta er hlið Drottins,
réttlátir menn fara inn um það.

21 Ég lofa þig, af því að þú bænheyrðir mig
og ert orðinn mér hjálpræði.22 Steinninn sem smiðirnir höfnuðu
er orðinn að hyrningarsteini.23 Að tilhlutun Drottins er þetta orðið,
það er dásamlegt í augum vorum.

24 Þetta er dagurinn sem Drottinn hefir gjört,
fögnum, verum glaðir á honum.

Sálm 118:14-24

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Síðasta versið sem við lásum hefur verið útsett sem barnasöngurinn Daginn í dag, sem margir þekkja vel. Og hvaða dag er verið að tala um? Fyrst og fremst dag réttlætisins. Þann dag sem Kristur gekk inn í musteri himinsins og bauð sjálfan sig fram til fiðþægingar fyrir syndir okkar.

Það er dagurinn þegar steinninn sem smiðirnir höfnuðu var gerður að hyrningarsteini. Eins og við lesum í Jóhannesarguðspjalli, kafla 2, versum 19-21:

19 Jesús svaraði þeim: „Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum.“ 20 Þá sögðu Gyðingar: „Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum, og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!“ 21 En hann var að tala um musteri líkama síns. 22 Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans, að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu, sem Jesús hafði talað.

Jóh 2:19-22

Og eins er talað um þetta í Fyrra Pétursbréfi, kafla 2, frá versi 4.

4 Komið til hans, hins lifanda steins, sem hafnað var af mönnum, en er hjá Guði útvalinn og dýrmætur, 5 og látið sjálfir uppbyggjast sem lifandi steinar í andlegt hús, til heilags prestafélags, til að bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesú Krist. 6 Því svo stendur í Ritningunni:

Sjá, ég set hornstein í Síon,
valinn og dýrmætan.
Sá sem trúir á hann mun alls eigi verða til skammar.

7 Yður sem trúið er hann dýrmætur, en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,
orðinn að hyrningarsteini

8 og:

ásteytingarsteini og hrösunarhellu.

Þeir steyta sig á honum, af því að þeir óhlýðnast boðskapnum. Það var þeim ætlað.

9 En þér eruð „útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,“ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. 10 Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir „Guðs lýður“. Þér, sem „ekki nutuð miskunnar“, hafið nú „miskunn hlotið“.

1 Pét 2:4-10

Já, daginn í dag hefur Drottinn Guð gert. Miskunn hans og náð ná til þessa dags, og þess vegna er full ástæða til að gleðjast og fagna.

Síðari ritningarlestur

Síðari ritningarlestur er að finna í fyrra bréfi Páls postula til korintumanna, fimmta kafla, versum 7-8.

Söfnuðurinn í korintu, sem þetta bréf er ritað til, var sérstaklega erfiður. Sem söfnuður Guðs átti hann að einkennast af réttri boðun og samhugi í kenningunni, kærleika til Guðs og náungans, sem og reglulegu samfélagi. Ekkert af þessu var í lagi. Það voru erjur og flokkadrættir og jafnvel stéttaskipting milli fátækra og auðugra. Sumir voru grobbnir og kepptust við að fá sem mikilvægastan sess í guðsþjónustusamfélagi safnaðarins. Allir vildu sýna hvað þeir voru andlegir og höfðu góðar náðargjafir, og úr varð alger ringulreið. Siðferðislega var liðin allskonar spilling, og erjur um allskonar hluti voru svo miklar að það þurfti að leita til dómsstóla heiðingjanna.

Að lokum ýmiskonar kynferðisleg spilling liðin í söfnuðinum, og í 5. kafla tekur Páll upp sérstaklega ósiðlegt samband þar sem maður í söfnuðinum á í hlut. Svo virðist sem söfnuðurinn, í stað þess að ávíta manninn, hafi heldur hrósað sér af umburðarlyndi sínu og víðsýni.

Páll talar hinsvegar skýrum orðum. Hann krefst þess að þessi maður slíti sambandinu og iðrist synda sinna, annars geti hann ekki áfram verið hluti af söfnuðinum. Kristur vann sigur yfir hinu illa, og þar af leiðandi getur söfnuður hans ekki blessað það sem er af hinu illa. Þar að auki, ef alls konar synd er látin viðgangast, þá breiðist hún út í söfnuðinum, og að lokum er enginn sem sér neitt athugavert við hana. Páll líkir því við notkun súrdeigs í bakstur. Litlu súrdegi er blandað við stórt hveitideig, og smám saman breiðist súrdeigið það um allt deigið, og allt saman hefast. Þetta er mynd sem einnig Jesús sjálfur notar í guðspjöllunum um villukenningar farísea.

Páll postuli heldur síðan áfram og tengir þetta allt við páskamáltíðina. Við lesum nú síðari ritningarlestur úr fyrra Korintubréfi, kafla 5, versum 7-8.

7 Hreinsið burt gamla súrdeigið, til þess að þér séuð nýtt deig, enda eruð þér ósýrðir. Því að páskalambi voru er slátrað, sem er Kristur. 8 Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi né með súrdeigi illsku og vonsku, heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

1 Kor 5:7-8

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Fyrsta páskamáltíðin var haldin í Egyptalandi þegar Ísraelsmenn voru þar í ánauð. Þetta kvöld gekk engill dauðans gegn um Egyptaland og tók til sin alla fruburði manna og dýra. En ísralesmönnum var gefin útleið. Þeir gátu slátrað lambi eða kiðlingi sem staðgengli fyrir sína frumburði. Hver fjölskylda tók sér lýtalaust lamb eða kiðling, og slátraði honum um kvöldið. Blóði dýrsins var safnað saman og því smurt á dyrastafi hússins þar sem fjöskyldan kom saman. Um kvöldið átu þau svo lambið, steikt yfir eldi, ásamt bitrum jurtum og ósýrðum brauðum.

Hvert ár uppfrá þessu var haldið upp á þetta atvik með því að borða ósýrð brauð í sjö daga, og átti að hreinsa allt súrdeig út úr húsi áður en hátíðin hófst.

Páll tengir þetta allt saman, og súrdeigið verður þá táknmynd um syndina, sem Kristur frelsaði okkur frá. Páskalambið í Egyptalandi var táknmynd um Krist, sem er okkar sanna páskalamb. Það er einmitt þess vegna sem við syngjum við altarisgönguna: “Ó þú Guðs lamb Kristur, þú sem burt berð heimsins synd, miskunna þú oss og gef oss þinn frið.” Ef hann ber burt heimsins synd, og við viljum tilheyra honum, þá er okkur ekki frjálst að halda fast í syndir okkar.

Rétt eins og ísraelsþjóð átti bókstaflega að hreinsa allt súrdeig úr húsum sínum, á söfnður Guðs að hreinsa syndina úr húsum sínum. Að sjálfsögðu er það hlutur sem aldrei verður hægt að kára eða fullkomna, fyrr en þann dag þegar Kristur kemur að nýju, og menn hrasa aftur í gamlar syndir. En það þýðir ekki að söfnuðurinn geti þess í stað blessað syndina, heldur að þeim sem hrasar er hjálpað aftur á fætur, til að halda göngunni áfram.

Guðspjall

Komið þið sæl aftur. Þetta er þátturinn undirbúningur fyrir Sunnudag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson, og við erum að fara yfir ritningarlestra og guðspjall næstkomandi sunnudags.

Guðspjall páskadags er að finna í Markúsarguðspjalli, 16. kafla

1 Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. 2 Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. 3 Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?“ 4 En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. 5 Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. 6 En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. 7 En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ,Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður’.“

Mark 16:1-7

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Öll guðspjöllin fjögur segja frá morgni páskadags, og öll segja líka frá frá fleiri atburðum sem áttu sér stað þennan sama dag. Jóhannesarguðspjall segir frá því þegar Jesús birtist Maríu Magdalenu í garðinum, Lúkas og Jóhannes segja frá Pétri og öðrum lærisveini sem hlupu til grafarinnar, Matteusarguðspjall segir frá samsæri æðstu prestanna, Lúkas segir frá því þegar Jesús birtist tveimur mönnum á leið til bæjarins Emmaus og bæði Lúkas og Jóhannes segja frá því þegar Jesús birtist postulunum um kvöldið. Hvert guðspjallana leggur áherslu á mismunandi atriði og segir frá með mismunandi hætti.

Markúsarguðspjall er, þrátt fyrir nafnið, talið vera ræða Péturs postula, og þannig inngangur að vitnisburði sjónarvottarins. En bæði Pétur sjálfur, hinir postularnir, konurnar sem komu til grafarinnar og að minnsta kosti 500 aðrir sáu Krist upprisinn og gátu vitnað um það. Vitnisburður þeirra allra er hinn sami, en hann er þetta: Kristur, Drottinn, er sannarlega upp risinn frá dauðum.

Sú staðreynd er öxullinn sem öll ritningin snýst í kring um. Án upprisunnar fellur öll ritningin, eins og Páll postuli segir í 15. kafla fyrra korintubréfs: “En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar, og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir. Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.”

Einmitt þess vegna er vitnisburður sjónarvottanna og túrverðugleiki þeirra svo mikilvægur. Og fyrstir sjónarvottanna eru þessar konur sem komu árla morguns til grafarinnar til að smyrja líkama Krists með ilmsmyrslum. Hér eru þrjár nefndar, en það getur hugsast að þær hafi verið enn fleiri eins og Lúkasarguðspjall virðist benda til. Á leiðinni hafa þær velt því fyrir sér hvernig þær ættu að geta opnað gröfina, en henni var lokað með stórum steini eða steinhellu, og ekki lítið verk að opna. En rétt um það leyti þegar þær koma að gröfini er engill sem kemur og veltir steininum frá. Með honum hefur verið allavega einn annar engill, og tala þeir við konurnar þegar þær koma.

Hér ber að nefna að engillinn hefur ekki opnað gröfina til að helypa Jesú út. Hann var þegar farinn út úr gröfinnu og úr líkklæðunum sem lágu í gröfinnu nákvæmnlega þar sem hann hafði verið lagður.

Um allt þetta voru þessar konur sjónarvottar, og hér eru þær líka nafngreindar. Svo lengi sem þær voru á lífi var hægt að nálgast þær og heyra fregnirnar beint frá þeim, og eftir dauða þeirra gátu börn þeirra eflaust endurtekið vitnisburðinn fyrir þeim sem vildu heyra.

Guðspjall páskamorguns eru vers 1-7 í 16. kafla. 8. vers er ekki hluti af því, en sumir telja það vera síðasta vers bókarinnar. Vers 9-20 séu þá viðauki, sem ekki er ritaður af hendi Markúsar. Þessi vers vantar í elstu handritin af Markúsarguðspjalli. En 8. vers er ótvírætt hluti af því, og hljómar þannig:

8 Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar.

Mark 16:8

Það er svolítið furðulegt ef guðspjallið hefur raunverulega endað svona, og er eins og að það stoppi í miðri setningu. Kannski er skýringin að upprunalegur endi guðspjallsins haf rifnað af handritinu og glatast. Önnur skýring er að hér hafi beinn vitnisburður sjónarvottanna tekið við, og passar það við það sem kirkjufeðurnir hafa skrifað um að Markúsarguðspjall sé í raun frásögn Péturs postula, ritað niður af Jóhannesi Markúsi sem við þekkjum úr Postulasögunni.

Hver sem skýringin er er það allavega ljóst að konurnar þögðu ekki lengi, heldur gerðu eins og engillinn bauð þeim, og sögðu frá upprisunni. Þær standa því til þessa dags sem sjónarvottar um upprisu Krists, og sem fyrirmynd trúaðra til allra tíma. Þrátt fyrir hræðslu sína og ótta, gengu þær fram og skýrðu frá því sem þær höfðu séð og heyrt: Að Kristur Drottinn er sannarlega upp risinn frá dauðum.