Fyrri ritningarlestur: Sálmur 23
Fyrri ritningarlestur er að finna í Sálmunum, nánar tiltekið sálmi 23, sem margir kunna utanbókar. Þetta er augljóslega sálmur eftir Davíð konung, sem ber með sér minningar hans frá þeim tíma þegar hann var ungur maður, og gætti hjarða föður síns í nágreni við heimaþorp sitt, Betlehem. Það er fallegt að hugsa til þess að sálmur 23 lýsi að eihverju leyti þeim vötnum, grænu grundum og dölum þar sem Davíð ferðaðist, og þar sem aðrir hirðar ferðuðust nokkur hundruð árum síðar. Þá á ég við þá hirða sem engillinn heimsótti á jólanótt og sagði þeim frá fæðingu frelsarans.
Davíð segir síðar frá því að bæði hann og hjörðin ahns var oft í hættu á þessum slóðum, og hann þurfti meðal annars að berjast við alls konar óargardýr eins og birni og ljón (1 Sam 17:34). Samt sem áður hreyktist hann ekki af eigin mætti, heldur treysti hann á Drottinn til að bjarga sér (1 Sam 17:37). Það er þetta traust sem þessi sálmur lýsir svo vel.
1 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. 5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
Sálm 23
Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.
Löngu áður en hann var smurður eða krýndur til konungs, og þar með til hirðis fyrir heila þjóð, þá var Davíð hirðir fyrir sauði föður síns, sem nefndist Ísaí eða Jesse. Og rétt eins og Davíð var hirðir sauðanna, fylgdist með þeim og verndaði þá, eins var Drottinn hirðir Davíðs sem fylgdist með honum og verndaði hann.
Davíð var reiðubúinn til að berjast við birni og ljón fyrir sauði sína, en Drottinn barðist við sjálfan dauðann. Því hugtakið “Dimmur dalur” sem við heyrum um í þessum sálmi er í raun enn myrkara heldur en það hljómar. Hebreska hugtakið bege’ tsalmawet lýsir dal þar sem djúpt myrkur grúfir yfir. Gríska sjötíumannaþýðingin notar hugakið skene þanatú, eða skuggi dauðans. Enska King James þýðingin hittir sennilega beint í mark með hugtakinu: The valley of the shadow of death. Í þeim hættum sem lífið hefur upp á að bjóða, í okkar svartasta myrkri og jafnvel í sjálfum dauðanum, meigum við treysta á Drottin sem okkar hirði.
Það var það sem Davíð konungur gerði, og sem hann lýsir í þessum sálmi. Þannig er Davíð okkur mikil fyrirmynd.
Síðari ritningarlestur: 1 Pét 5:1–4
Síðari ritningarlestur er að finna í fyrra Pétursbréfi. Það er postulinn Pétur sem hér skrifar til hinna útvöldu, sem hafa endurfæðst í Kristi, en búa á við og dreif meðal heiðingjanna. Margir telja að bréfið hafi byrjað sem páskaprédikun í krikjunni, og þá beint máli sínu sérstaklega til þeirra sem tekið hafa skírn sama dag. Hér eru töluð mörg orð til huggunar og til hvatningar fyrir þá sem meiga þola gagrýni, eielti, ofbeldi og ofsóknir fyrir trú sína. Pétur hvetur heyrendur og lesendur til að binda vonir sínar við hinn æðsta hirði, sjálfan Krist.
Frammi fyrir honum eru allir á sama plani. Allir sem skírðir eru til Krists, og trúa og treysta honum, eiga hlutdeild í sonarrétti hans. Það þýðir þó ekki að það sé engin hlutverkaskipting í ríki Guðs.
Bréfið talar þess vegna líka beint til ákveðinna hópa í kirkjunni, t.d. (1 Pet 3) eiginmanna, eiginkvenna og til ungmenna. Ritningarlesturinn beinir máli sínu til öldunga safnaðarins, sem við myndum í dag kalla presta eða safnaðarleiðtoga. Gríska orðið presbyteros, sem hér er þýtt öldungur, er meira að segja fyrirmynd íslenska orðsins prestur, það er auðvelt að heyra hversu svipuð orðin eru: Presbyteros — Prestur. Það ætti þá ekki að koma á óvart að þessi orð hafa oft verið lesin í prestvígslum. Í handbók íslensku kirkjunnar eru þau lesin við vígslu biskups. Þetta er sérstök áminning til þeirra sem eiga að taka hinn góða hirði sér til fyrirmyndar, og vera hirðar kirkjunnar, annast hana, vernda hana gegn óvinum, og gefa henni orð Guðs að fæðu.
1 Öldungana yðar á meðal áminni ég, sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig mun fá hlutdeild í þeirri dýrð, sem opinberuð mun verða: 2 Verið hirðar þeirrar hjarðar, sem Guð hefur falið yður. Gætið hennar ekki af nauðung, heldur af fúsu geði, að Guðs vilja, ekki sakir vansæmilegs ávinnings, heldur af áhuga. 3 Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum, heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. 4 Þá munuð þér, þegar hinn æðsti hirðir birtist, öðlast þann dýrðarsveig, sem aldrei fölnar.
1 Pét 5:1–4
Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara?
Hér er verið að tala til öldunga safnaðarins, og minna þá á að þeir eiga að vera hirðar sfanaðrins. Ég ætla þess venga að nota orðið hirðir, en það eru auðvitað ýmis önnur orð sem líka má nota. Til dæmis er latneska orðið fyrir hirði, orðið pastor, sem margir nota, sérstaklega enskumælandi. Öldungur, prestur og pastor er allt sami hluturinn í nýja testamentinu. En ég ætla sem sagt að segja hirðir.
Og hirðirinn hefur það hlutverk að hafa yfirumsjón með söfnuðinum, reka burtu óargardýr, þ.e.a.s þá sem fara með ranga kenningu. Þess í stað á hiðirinn að kenna söfnuðinum sannleika ritningarinnar. Hirðirinn á að gefa hjörðinni fæðu, sem þýðir það að bera fyrirheitið um fyrirgefningu syndanna til safnaðarins. Hann á að prédika orð Guðs hreint og ómengað, og útdeila sakramentunum samkvæmt orðinu.
Er það ekki einmitt þetta postulinn Páll líka er að tala um í 10. kafla rómverjabréfsins?
14 En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? 15 Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: „Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.“ . . . 17 Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.
Róm 10:14-15, 17
Þetta er það vald sem kirjunni er gefið, og sem leiðtogar hennar fara með, það að prédika orð Krists. Kirkjan hefur ekki neitt annað vald, og leiðtogar hennar eru ekki drottnar yfir henni, heldur þjónar hennar. Aðeins hinn góði hirðir, Jesús Kristur, er Drottinn kirkjunnar. Við höfum ekkert frelsi til að ganga gegn orðum hans.
Hér vil ég þó bæta við að það er allaf réttara að hlýða Guði en mönnum. Söfnuðurinn hefur samkvæmt ritningunum rétt til þess að meta prédikun hirðanna, og bera hana saman við orð Guðs. Það er ágætis fordæmi um þetta í Postulasögunni, í 17. kafla (Act 17:10) þar sem sagt er frá því þegar postulinn Páll og samstarfsmaður hans Sílas komu til Beroju í Norður-Grikklandi. Hér stendur í versum 10 og 11:
10 En bræðurnir sendu þá Pál og Sílas þegar um nóttina til Beroju. Þegar þeir komu þangað, gengu þeir inn í samkunduhús Gyðinga. 11 Þeir voru veglyndari þar en í Þessaloníku. Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.
Post 17:10–11
Ef prédikunin er ekki samkvæmt orði Guðs, eða t.d. ef hirðirinn hefur náð stöðu sinni með rangindum, eða misnotar hana t.d. til að afla sér mikilla tekna, þá ber kirkjunni að hvorki hlýða honum né fylgja honum, heldur velja sér hirði sem fylgir orði Drottins og prédikar samkvæmt þvi.
Það að ritningarlesturinn kallar hirði safnarðarins til að vera fyrirmynd hans, fjallar ekki bara um grandvart líferni, heldur að vera fyrirmynd í trú og trausti til Guðs, sem og trúnað við orð Guðs.
Guðspjall: Jóh 21:15–19
Guðspjall þessa þriðja sunnudags páskatímans er framhald frá guðspjalli síðasta sunnudags, sem var úr 21. kafla Jóhannesarguðspjalls. Við lásum þá um sjö postulanna sem saman voru komnir við Galíleuvatn, eða Tíberíasvatn eins og það nefnist líka, og fóru út að veiða um nóttina. Um morguninn höfðu þeir enn engan fisk fengið. Þá birtist þeim hinn upprisni Jesús Kristur á ströndinni. Hann kallaði til þeirra að kasta netunum hinu megin við bátinn, og þá fylltust netin samstundis. Þetta var tákn sem Jesús hafði gert áður, og Jóhannes kannaðist strax við það, og sagði við Pétur: “Þetta er Drottinn.” Eftir að þeir komu að landi, bauð Jesús þeim upp á morgunverð: Brauð og grillaðan fisk. (Joh 21:15) Guðspjall næstkomandi sunnudags kemur svo í framhaldi af þessu, í versum 15–19 og hljóðar svo:
15 Þegar þeir höfðu matast, sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ 16 Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ 17 Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við, að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist, að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. 18 Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur, bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir, en þegar þú ert orðinn gamall, munt þú rétta út hendurnar, og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ 19 Þetta sagði Jesús til að kynna, með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt, sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“
Jóh 21:15–19
Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.
Þrisvar sinnum spyr Jesús Pétur hvort hann elski hann, og Pétur svarar þrisvar að hann geri það. “Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig.”
Það er auðvitað ekki hægt að líta framhjá því, að rétt eins og á föstudeginum langa situr Pétur við glóðirnar og svarar þrisvar fyrir tengsl sín við Jesú. Í fyrra skiptið afneitaði hann Jesú þrisvar, í þetta skipti játar hann þrisvar að hann elskar Jesú. Honum er gefið færi á að játa fyrir hvert skipti sem hann afneitaði, og í því virðist felast ákveiðin uppreisn æru.
En hvers konar svar er það eiginlega þegar Jesús segir: “Gæt þú lamba minna,” “Ver þú hirðir sauða minna,” og “gæt þú sauða minna?” Hvað á Jesús eiginlega við með því að segja þetta? Er hann að gera þennan sjómann að bónda eða réttara sagt að fjárhirði?
Í fimmta kafla Lúkasarguðspjalls segir Jesús við Pétur: “Óttast þú ekki, héðan í frá skalt þú menn veiða.” (Lúk 5:10)
Jesús hafði gera Pétur að mannaveiðara, og stuttu síðar voru Pétur og hinir postularnir sendir af stað, tveir og tveir til að prédika orð Krists. Síðar líka 70 aðrir með sama hætti. Pétur hélt þessu síðan áfram eftir himnaför Krists, og fyrri hluti Postulasögunnar geymir m.a. nokkrar af ræðum Péturs. Hann hætti aldrei að vera mannaveiðari.
En hlutverk hans afmarkaðist þó ekki af því að breiða út boðskapinn um upprisu Krists til þeirra sem ekki þekktu hann. Hann átti líka að annast þá sem trúðu boðskapnum, þ.e.a.s annast söfnuðinn, og hafa umsjón með honum. Hann átti að vera hirðir safnaðarins. Hann átti gæta lamba og sauða, þ.e. hjarðarinnar.
Þetta það sama hlutverkið og Pétur síðar áminnir öldunga safnaðarins um, í síðari ritningarlestrinum sem við lásum fyrr í þættinum.
Þáttarlok
Við erum alveg að koma að þáttarlokum, og ég vil þakka samfylgdina í dag. En síðan vil ég líka skora á þig sem ferð reglulega í kirkju eða annan söfnuð að undirbúa þig vel fyrir guðsþjónustuna eða samkomuna, og lesa textana vel á undan. Til þess eru þessir þættir, til að koma huganum af stað fyrirfram, og hvetja þig til að hugsa um innihald textanna fyrirfram. Það er furða hvað það er mikið auðveldara líka að hlusta, bæði á lestrana, sem og á prédikunina, ef maður hefur gert það. Svo getum við uppörvast saman fyrir hina sameinlegu trú okkar.
Við heyrumst aftur að viku liðinni. Verið þið sæl.