Skip to content

Hjónaband er meira heldur en…

Í kristilegum samfélögum er stundum talað um hjónabandið sem þá umgjörð eða þá ramma sem Guð hefur sett fyrir sambúð eins karls og einnar konu, sem og uppeldi barna þeirra. Stundum er talað um það sem sáttmála. Það er svo sem ágætt, svo langt sem það nær. En ef við tökum skref afturábak, og rýnum í stærri myndina, þá líta sennilega flestir á hjónabandið sem einhverskonar opinbera innsiglun á rómantísku sambandi tveggja einstaklinga, sem einkennist m.a. af ást, tryggð, sambúð og samvinnu. Sú staðreynd að kristilegt hjónaband takmarkast við einn karl og eina konu, og að það teljist ævilangt, þjónar í raun einungis sem þrenging á þessum skilningi.

Meira en rómantík

En hjónaband í biblíulegum skilningi er mun meira heldur en þetta. Þegar Jesús talar um hjónaband í 19. kafla Matteusarguðspjalls, vísar hann til fyrirkomulags í sköpuninni sjálfri. Það fyrirkomulag á uppruna sinn í því að Guð vill gera góðan hlut, bæði í sköpunarsögunni, og hjá okkur í dag. Hann vill að maðurinn sé ekki einsamall.

Guð skapaði mannfólkið sem „karl og konu.“ Þau passa saman og uppfylla hvert annað. Samband þeirra er þó mun meira en „samband.“ Hjónabandið er sameining. Hjónabandið er heimili og umhverfi, og það er Guð sem bæði sameinar og byggir það. Fyrst hjónabandið er varanleg sameining, gerð af Guði sjálfum, þá er það einnig mjög tiltekinn hlutur, jafnvel óháð þeim tilfinningum sem tjáðar eru innan þess.

Ef hjónaband, á hinn bóginn, væri skilgreint af rómantík, þá myndi það einfaldlega hverfa um leið og tilfinningar þroskuðust og breyttust. Þá væru setningar eins og „við erum frábærir herbergisfélagar, en okkur líður ekki lengur eins og að það sé hjónaband,“ fullkomlega eðlileg ástæða fyrir skilnaði. Maður getur uppgötvað rómantík á mörgum stöðum, til dæmis með einstaklingi utan hjónabandsins, einstaklingi af sama kyni og maður sjálfur, eða jafnvel með hópi einstaklinga. Hver getur þá sagt að ekki sé hægt að byggja hjónaband á þeim grunni?

Á hinn bóginn, ef við skiljum hjónabandið í ljósi orða Jesú Krists (þ.e. sem sameiningu), þá er náin og innileg vinátta „herbergisfélaganna“ dásamlegur árangur af hjónabandinu. Það er í raun besta leiðin til að elska hvert annað og byggja upp gott heimili til að búa í. Það er einmitt á slíku heimili sem Guð mun skapa og hlúa að nýju lífi. Þetta er köllun Guðs til hjónanna.

Meira en veraldlegt fyrirkomulag

Frá lútherskum guðfræðingum má stundum heyra að hjónaband sé vissulega fyrirkomulag sambúðar, en að það sé þó veraldlegt fyrirkomulag, og þar af leiðandi hlutur sem kirkjan ætti ekki að hafa nein afskipti af. Í innganginum að hinu svokallaða Giftingarkveri, skrifaði Marteinn Lúther: „Vegna þess að gifting og hjúskapur heyrir undir hið veraldlega þurfum við prestar og kirkjunnar þjónar ekki að skipuleggja þar neitt eða stjórna, heldur hefur þar hver borg og hvert land sína siði og sínar venjur.“

Af þessu hafa sumir skilið lúterska kenningu þannig, að fyrst hjónabandið heyrir undir opinbera stjórnsýsla, þá geti hún gert nákvæmlega það sem henni sýnist. Og það án þess að kirkjan þurfi nokkuð að mótmæla. Til dæmis, ef hún sér hag í því, getur veraldleg stjórnsýsla meira að segja breytt skilgreiningunni á hjónabandinu. En þetta getur hvorki talist réttur skilningur á Marteini Lúther né á lútherskri guðfræði almennt. Þvert á móti.

Hjónabandið í kristilegum skilningi, er heilagt fyrirkomulag, einfaldlega vegna þess að það er Guð sem stofnaði og bjó það til. Hinsvegar er það einnig svo, að í hvert sinn sem einhver gengur í hjónaband, þá snertir það og varðar samfélagið allt. Fjölskyldan er byggingareining í góðu samfélagi og virkar í raun sem lítið samfélag innan samfélagsins. Fjölskyldan getur verið miðstöð valda og hún er sannarlega sá staður þar sem börn alast upp. Kristið heimili hefur á öldum áður, þar að auki verið staðurinn til að sinna bæði sjúkum og öldruðum. Það var staðurinn þar sem framleiðsla og viðskipti tryggðu að menn lifðu hörku lífsins af. Opinber stjórnsýsla hjónabandsins var því algjörlega nauðsynleg. Svo þurftu auðvitað líka að vera reglur um það hvernig ætti að bregðast við brostnum hjónaböndum.

Biblían hefur áframhaldandi margt að segja um hjónabandið. Biblían gefur því skýra skilgreiningu og skýr markmið. Sú skilgreining og þau markmið eru óbreytt, þrátt fyrir að opinbert samfélag sé alltaf í breytingu. Munurinn á lagalegu hjónabandi annars vegar, og skilningi Biblíunnar hins vegar, virðist sífellt verða enn meiri. Mun meiri heldur en við kristnir menn viljum kannast við. Engu að síður verðum við að horfast í augu við nákvæmlega þá staðreynd. Og ef samfélagið hverfur frá Biblíunni, þá verðum við, sem fylgjum Jesú og trúum á hann, að leita leiðsagnar í Biblíunni eins og að ekkert hefði í skorist.

Heimildir

„Giftingarhverið“ í Marteinn Lúther Úrval rita 2: 1524–1545. Þýðandi: Dr. Gunnar Kristjánsson. Ritstjórn: Arnfríður Guðmundsdóttir, Gunnar J. Gunnarsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson. Reykjavík: Skálholtsútgáfan, 2018, 137–146.