Hvað er iðrun? Hægt er að tala um hana í mjóum skilningi, þ.e. sem ótta og sorg yfir því að hafa brotið gegn vilja Guðs, eða í breiðum skilningi, sem einnig inniheldur trú. Án trúar er iðrunin aldrei fullkomin.
Í þessu myndskeiði er sagt frá iðrun í breiðum skilningi, sem einnig nefnist yfirbót.
12. grein Ágsborgarjátningarinnar: Um yfirbótina
Um yfirbótina kenna þeir: Þeir sem falla eftir skírnina geta hvenær sem er öðlast fyrirgefningu syndanna, þegar þeir koma til iðrunar og ber kirkjunni að veita þeim aflausn sem snúast til yfirbótar. En yfirbótin felst í þessum tveim atriðum: Annað er iðrunin eða hrellingarnar, sem særa samviskuna, þegar hún kannast við syndina. Hitt er trúin, sem fagnaðarerindið eða aflausnin vekur, og trúir, að syndirnar séu fyrirgefnar vegna Krists og huggar samviskuna og frelsar hana frá ógnun. Þar næst eiga góðverk að fylgja, en þau eru ávöxtur yfirbótarinnar.
Þeir fordæma endurskírendur, sem neita því að þeir sem eitt sinn eru réttlættir orðnir geti misst heilagan anda; ennfremur þá sem halda því fram, að einhverjir geti náð slíkri fullkomnun í þessu lífi, að þeir geti ekki syndgað.
Enn fremur eru nóvatíanar fordæmdir, sem vildu ekki veita þeim aflausn sem féllu eftir skírn, enda þótt þeir snéru til yfirbótar.
Afneitað er og þeim sem kenna ekki, að fyrirgefning syndanna veitist fyrir trúna, heldur skipa, að vér eigum að ávinna oss náðina fyrir fullnægjugerð vora.