Skip to content

Hvað er skírn?

Þegar kristnir menn ræða saman um skírn, snýst umræðan oft um hvort rétt sé að skíra börn, eða hvort einungis eigi að skíra einstaklinga sem náð hafa nægilegum trúarþroska til að tjá trú sína opinberlega. Önnur spurning sem oft leitar upp á yfirborðið er hvort að skírn krefjist niðurdýfingar í skírnarlaug, eða hvort nóg sé að vatn sé til staðar yfir höfuð, gjarnan ausið úr skírnarfonti.

Jafnvel þótt þessar spurningar séu mikilvægar, má þó segja að byrjað sé í röngum enda. Áður en hægt er að svara slíkum spurningum er nauðsynlegt að vita hvað skírn er og hvað hún gerir. Hvers konar athöfn er eiginlega um að ræða? Er skírnin hlýðnisathöfn þar sem kristinn einstaklingur játar trú sína og gefur líf sitt Kristi? Eða er skírn athöfn þar sem Guð er sjálfur að verki?

Hér að neðan mun ég gera stuttlega grein fyrir lúterskum skilningi á skírninni, og styðst þá við fræðin minni.

Í fyrsta lagi: Hvað er skírnin?
Svar:
Skírnin er ekki eingöngu venjulegt vatn, heldur er hún vatnið umvafið boði Guðs og samtengt orði Guðs.

Hvert er þá slíkt Guðs orð?
Svar:
Það er Kristur, Drottinn vor, segir hjá Matteusi í síðasta kapítula: „Farið út um allan heiminn, og kennið öllum heiðingjum og skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda.“ (Mt 28.19).

Fræðin minni, fjórði hluti: Sakramenti heilagrar skírnar

Hér er það skýrt, að skírnin stendur saman af tveimur hlutum: Í fyrsta lagi er það vatnið, hvort sem það er í fonti, laug eða jafnvel tjörn eða á. Í öðru lagi er það orð Guðs. Það er það sem skiptir öllu, því án orðsis er engin skírn, heldur bara venjulegt vatn og venjulegt bað. Í skírninni er orð Guðs sérstaklega tengt vatninu. Þetta má skýra nánar með sögu úr gamla testamentinu.

Í Annarri konungabók, fimmta kafla, er sagt frá sýrlenska hershöfðingjanum Naaman, sem var haldinn líkþrá. Í leit að lækningu ferðaðist hann til Ísrael og hitti spámannin Elísa. Spámaðurinn sagði honum að lauga sig sjö sinnum í ánni Jórdan, og mundi hann þá verða hreinsaður. Naaman brást illa við, því boðskapur Elísa var mjög frábrugðinn því sem hann hafði átt von á. Þar að auki, ef allmennt hreinlæti gat hreinsað hann af líkþránni, var betra að fara í stóru ánnar á Sýrlandi. En svo var alls ekki, það snérist alls ekki um venjulegt bað. Guð hafði heitið að lækna hann af líkþránni, og tengdi fyrirheit sitt um lækninguna við það að Naaman skyldi laugast sjö sinnum í ánni Jórdan. Þar með var ekki ómögulegt fyrir hann að efast um það hvað hefði valdið lækningunni. Ekki var hún verk Naamans, heldur var hún verk Guðs.

Hér er að finna fyrirmynd skírnarinnar. Guð tengdi fyrirheit um lækningu Naamans við það að laugast sjö sinnum í ánni Jórdan. Í dag tengir hann fyrirheit sín til okkar við það að laugast í vatni í nafni Guðs Föður, Sonar og Heilags anda.

En hvaða fyrirheit eru það sem Guð gefur í skírninni, og til hvers eru þau? Við höldum áfram í fræðnunum:

Í öðru lagi: Hvað gefur eða gagnar skímin?
Svar:
Hún veldur fyrirgefningu syndanna, frelsar frá dauðanum og djöflinum og gefur eilífa sáluhjálp öllum, sem trúa því, eins og orð Guðs og fyrirheit hljóða.

Hver eru slík orð Guðs og fyrirheit?
Svar. Þau er Kristur, Drottinn vor, segir hjá Markúsi í síðasta kapítula: „Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða.“ (Mk 16.16).

Fræðin minni, fjórði hluti: Sakramenti heilagrar skírnar

Sá eð sú sem lætur skírast, og trúir þeim fyrirheitum sem Guð hefur gefið í skírninn mun hólpinn verða. Fyrirheitin eru ekki önnur enn þau sem allment eru predíkuð í faganaðarerindinu, en engu að síður er skírnin meira til. Því skírnin er alltaf gefin einstaklingi, og gjarnand með nafni. Í handbók íslensku kirkjunnar kemur þetta fram með eftirfarandi orðum:

N, ég skíri þig í nafni föður, sonar og heilags anda.

Handbók íslensku kirkjunnar (Reykjavík: Kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju) 1981, 111.

Fyrr á tíðum var algengt að barninu var gefið nafn þegar það skírðist. Sumir sem skírðir voru fullorðinsskírn fengu einnig nýtt nafn við skírnina. Með þessu var lögð enn sterkari áhersla á í skírninni eru fyrirheit Guðs gefin einstaklingnum með nafni.

Í þriðja lagi: Hvernig fær vatn gert svo mikið?
Svar:
Vatn gerir það sannarlega ekki, heldur orð Guðs sem er með og hjá vatninu, og trúin sem treystir slíku orði Guðs í vatninu. Því að án orðs Guðs er vatnið venjulegt vatn og engin skírn, en með orði Guðs er það skírn, það er náðarríkt lífsins vatn og laug nýrrar fæðingar í heilögum anda, svo sem Páll postuli segir í bréfinu til Títusar í 3. Kapítula:

„Hann frelsaði oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja. Hann úthellti anda sínum yfir oss ríkulega fyrir Jesú Krist, frelsara vorn, til þess að vér, réttlættir fyrir náð hans, yrðum í voninni erfingjar eilífs lífs.“ (Tt 3.5-8) Það er vissulega satt.

Fræðin minni, fjórði hluti: Sakramenti heilagrar skírnar

Enn leggja Fræðin áherslu á orð Guðs og fyrirheit sem aðal atriði skírnarinnar. Við þessum fyrirheitum tekur einstaklingurinn með því að trúa þeim. Það er reyndar eðli allra fyrirheita og loforða, að rétt viðbrögð við þeim er að trúa þeim og treysta.

Fræðin benda ennfremur á það sem fram kemur í Tíusarbréfi, 3:5-8, að það er Heilagur andi sem er að verki í skírninni, og þar endurfæðir hann okkur, endurnýjar og helgar. Fleiri ritningarstaðir tengja skírn og endurfæðingu saman. Hér má nefna Jóh 3:3-8, Kól 2:11-14 og Róm 6:1-11.

Fræðin vitna í textann í Rómverjabréfinu í síðasta hlutanum þar sem spurt er að því hvað vatnsskírnin eigi að merkja.

Í fjórða lagi: Hvað merkir þá slík vatnsskírn?
Svar:
Hún merkir það, að hinn gamli Adam í oss á að drekkjast fyrir daglega iðrun og yfirbót og deyja með öllum syndum og vondum girndum og aftur á móti daglega fram að koma og upp aftur að rísa nýr maður, sá er lifi að eilífu í réttlæti og hreinleik fyrir Guði.

Hvar stendur það skrifað?
Svar:
Páll postuli segir í bréfinu til Rómverja í 6. kapítula: „Vér erum dánir og greftraðir með Kristi í skírninni til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var uppvakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins.“ (Rm 6.4)

Fræðin minni, fjórði hluti: Sakramenti heilagrar skírnar

Að vera fædur að nýju í heilagri skírn er að vera tengdur dauða og upprisu Krists. Þetta er tenging sem hefst hér á jörðu, í heilagri skírn, og fullkomnast í dauða okkar og endanlegri upprisu. Skírnin klæðir okkur Kristi og býr okkur undir að deyja. Það er einmitt merking hvítu kyrtlanna sem skírnarbörn, fermingarbörn sem og prestar klæðast í guðsþjónustunni. Kirkjan er samfélag þeirra sem klæddir eru Kristi í heilagri skírn.

Við endurfæðinguna er okkur gefið nýtt og gott eðli, sem þráir hið góða og vill gera vilja Guðs. Og á sama tíma loðir ennþá hið synduga eðli: „Gamli maðurinn“ eða „gamli Adam“ við. Stundum upplifum við það mjög greinilega sem innri átök: Við þekkjum munin á réttu og röngu, og viljum gjarnan gera það sem rétt er, en freistumst samt til að gera það sem rangt er. Páll postuli segir betur frá þessum átökum í kafla 7 í Rómverjabréfinu (Sjá sérstaklega Róm 7:18-25).

Fræðin minna okkur á líf hins skírða mótast af þessum átökum. Hið gamla meðfædda eðli vill einungis þjóna sjálfum sér, en hið nýja eðli sem Guð skapar í endurfæðingunni, vill gera hið góða. Þess vegna hefur kristinn einstaklingur allt sitt líf þörf fyrir daglega iðrun og yfirbót: Að iðrast synda sinna og trúa því og treysta að Kristur hefur leyst hann eða hana frá syndunum með dauða sínum og upprisu. Það verk sem frelsarinn byrjar í skírninni, mun han fullkomna allt til dags Jesú Krists.

Texti fræðanna kemur úr: Einar Sigurbjörnsson Kirkjan Játar: Saga og mótun kristinna trúarjátninga og yfirlit yfir helstu kirkjudeildir kristninnar. Játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar með skýringum, 2. útgáfa aukin og endurbætt (Reykjavík: Útgáfan Skálholt) 1991.