Skip to content

Jólasveinninn og Jesús: 4 atriði til samanburðar

Jólin eru hátíðin þar sem við höldum upp á fæðingu Jesú Krists, með því að rifja upp, lesa og endurnýja í huga okkar jólaguðspjallið. Sem kristin kirkja leggjum við áherslu á að þekkja þessa sögu vel, því hún mótar okkur sem lýð Guðs.

Á jólahátíðinni kemur einnig jólasveinninn til byggða, og er hann orðinn hluti af jólahaldinu víðast hvar í hinum vestræna heimi. Að því leiti til, ber Jesú og jólasveininum saman: Þeir koma báðir um jólin.

Ég ætla að benda á þrjú önnur atriði til samanburðar.

Gjafir

Jólasveinninn og Jesús gefa báðir gjafir þeim sem biðja um þær. Jólasveinninn kemur með leikfangabíla, prjónaða vettlinga og sokka, bækur, dúkkur og ýmsa aðra muni. Stundum koma jafnvel meiri gjafir frá honum, eins og símtæki eða spjaldtölvur.

Gjafirnar sem Jesús gefur er svolítið öðruvísi. Hann gefur okkur sjálfan sig, sem sáttarfórn við Guð, til þess að syndir okkar séu fyrirgefnar, og við getum fæðst að nýju, hreinsuð af syndinni.

Listinn

Jólasveinninn og Jesús eru báðir alvitrir, dæma okkur báðir fyrir hugsanir, orð og gjörðir okkar, og skrá nöfn okkar á listann víðfræga. Á lista jólasveinsins eru nöfn þeirra sem hafa hegðað sér vel, og gert ýmis góðverk, og eiga þá í væntum skemmtilegan glaðning, vafinn í fínasta pappír. Hinir lenda á öðrum lista, og eiga í besta falli í væntum að fá kolamola eða kartöflu. Reyndar er það sjaldgæft, því á jólunum eru allir góðir innst inni, og fá gjöf frá jólasveininum hvort sem er.

Margir hafa svipaða mynd af Jesú, en Biblían skírir þó öðruvísi frá. Því ólíkt jólasveininum horfir hann ekki í hina áttina þegar komið er að því að fella dóm, heldur er hann réttlátur, og allar syndir eru dæmdar. Það eru slæmar fréttir fyrir alla sem eru heiðarlegir við sjálfa sig, og gera sér grein fyrir að þeir eru ekki góðir innst inni. Þess vegna inniheldur listi Jesú ekki þá sem hafa reynst nógu góðir, heldur þá sem taka við gjöf hans, og fæðast að nýju. Eins og segir í Jóhannesarguðspjalli: „En öllum þeim sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða börn Guðs.“ Þess vegna er listinn sem Jesús skráir kallaður bók lífsins. Jesús segir líka: „gleðjist öllu heldur af hinu, að nöfn yðar eru skráð í himnunum“ (Luk 10:20).

Hefðin

Jólasveinninn er búinn til úr ýmsum hefðum. Elst þeirra er sennilega minning Nikúlásar frá Mýru. Hann fæddist í lok þriðju aldar, og var vígður prestur og síðan biskup fyrir tvítugt, gaf mestan hluta eigna sinna til fátækra, varð síðar vitni af kristintöku Rómarveldis. Eftir dauða hans var hann gerður að dýrlingi, og varð fljótlega meðal þeirra vinsælustu. Eftir siðbótina var minning hans tengd við jólahátíðina, og á nítjándu og tuttugustu öld sameinaðist minning hans við ýmsar aðrar hefðir, ljóð, sögur, dægurlög og jafnvel auglýsingaherferð fyrir vinsælan gosdrykk. Úr varð jólasveinninn eins og við þekkjum hann í dag, en hann á orðið lítið skylt við sögulegu persónu Nikúlásar.

Jesús kallaði til sín 12 sérstaka menn, sem áttu að vera sjónarvottar um skírn, kenningu, kraftaverk, dauða, upprisu og himnaför hans. Rit nýja testamentisins voru skrifuð á æfitíma þeirra af þeim sjálfum eða samstafsmönnum þeirra. Í nýja testamentinu er ekki um að ræða seinni tíma hefðir, heldur vitnisburð sjónarvotta. Kristur er raunverulegur maður og á sama tíma sannur Guð.

Að lokum má bæta við að hinn raunverulegi Nikúlás frá Mýru, sat um tíma fangelsaður fyrir trú sína á Jesú Krist og tók síðar þátt í Níkeufundinum fræga árið 325 eftir Krist, sem flestar kirkjur heims nota við kvöldmáltíðarguðsþjónustu. Það er besta gjöfin sem Níkúlás nokkru sinni gaf.