Skip to content

Textarnir á sunnudag eru eftirfarndi.

Fyrri lestur er úr hinum svokölluðu apókrýfuritum gamla testamentisins. Það er hópur bóka sem allment teljast ekki til Biblíunnar, en hafa þó oft fylgt henni. Lesturinn er hluti af lofgjörðar- og þakkarbæn, í lok Tóbítsbókar, nánar tiltekið 13. kafla, versum 1-5 og 8. Hér horfir megin persóna bókarinnar, Tóbít, um öxl, og sér handleiðslu Drottins gegnum mikla erfiðleika.‌‌

Síðari ritningarlesturinn er úr fyrsta bréfi Jóhannesar, hinu allmenna, 4. kafla, versum 10-16. Hér er talað skýrum orðum um kærleikann, hvað hann er og hvaðan hann kemur, hvað það þýðir að vera í kærleikanum og að elska?

‌Að lokum er guðspjall þessa sunnudags, eins og síðasta sunnudag, úr kveðjuræðu Krists í Jóhannesarguðspjalli. Að þessu sinni í 15. kafla, versum 12-17. Jesús talar um kærleikann, og boð hans til lærisveina sinna um að elska hvern annan.

‌Það má segja að vöxtur í trú sé megin inntak þessara þriggja texta, eða allavega er það samantekt þjóðkirkjunnar á heimasíðu sinni. Ég hugsa að það mætti einnig benda á hið tvöfalda kærleiksboðorð. Ég ætla rétt að lesa það sem inngang.

Það finnum við meðal annars í 22. kafla Matteusarguðspjalls, versum 37-40, þar sem Jesús svarar farísea nokkrum um hvað sé æðsta boðorð ritningarinnar.

37 Hann svaraði honum: „,Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.’ 38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. 39 Annað er þessu líkt: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.’ 40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“

Matt 22:37–40

Jesús segir okkur hér að Kærleikurinn sé kjarni lögmáls Drottins, og allara boðorðanna. Til dæmis eru boðorðin 10 ekkert annað en lýsing á því hvernig kærleikur lítur út í verki. Kærleikur til Guðs og manna er kjarni þess að vaxa í trú.

Með það í huga, skulum við snúa okkur að fyrri ritningarlestrinum.

‌Fyrri ritningarlestur

Eins og áður sagði er ritningarlesturinn úr Tóbítsbók, sem er ein hinna svokölluðu Apókrýfurita gamla testamentisins. Hún er að öllu jöfnu ekki talin til rita Biblíunnar, sérstaklega ekki í kirkjum siðbótarinnar. Hún er samt sem áður bæði áhugaverð og spennandi, og vel verð þess að hún sé lesin. Sögulegt samhengi hennar er það að eftir tíma Salómóns konungus, klofnaði ísraelsríki í tvennt: Norðurríkið Ísrael og Suðurríkið Júda. Fyrsti konungur norðurríkisins, Jeróbóam, lét setja upp tvö musteri, annað í bænum Samaríu og hitt í bænum Dan, norðan við Galíleuvatn. Upp til hópa ferðuðust menn norðurríkisins til þessara mustera og tilbáðu gullkálfana sem þar voru. Þetta endaði með dómi Guðs. Salmaneser Assýríukonungur réðist á norðurríkið og herleiddi marga íbúa þess til borgarinnar Níníve. Tóbít, sem bókin er kennd við var einn þessara manna, en sjálfu hafði hann alltaf ferðast til Júdeu og til Jerúsalem til að biðjast fyrir það. Hann hafði lagt ríka áherslu á skírlífi og guðhræðslu, sértaklega á það að nota eignir sínar og úrræði til að hjálpa öðrum.

‌Í Nínive hafði Tóbít vegnað vel, en þegar Sankeríb tók völd eftir Salmaneser, kom hjálpsemi Tóbíts honum í vandræði. Um tíma þurfti hann að dyljast, vegna þess að hann hafði jarðað lík Ísraelsmanna sem Sankeríb hafði drepið. Þegar það var liðið hjá, fékk Tóbít sýkingu í augun og varð í kjölfarið blindur. Hann lenti síðan í erjum við Önnu eiginkonu sína og varð mjög langt niðri fyrir. Hann baðst þá fyrir og bað Guð um að taka líf sitt.

‌Á sömu stundu, var ung kona, nokkrum dagleiðum suð-austar, sem bað sömu bænar. Hún var einnig meðal hinna herleiddu, af sömu ætt og Tóbít og þekktust faðir hennar Tóbít mjög vel. Fyrir herleiðinguna höfðu þeir reglulega ferðast saman til Jeúsalem við hátíðirnar. Sara hafði verið trúlofuð sjö sinnum, en hvert mannsefni hennar hafði látist á brúðkaupsdeginum áður en þau höfðu sofið saman. Þessu olli illur andi, sem kvaldi hana að þessu leyti, og hún óskaði sér helst dauða, til að þurfa ekki að valda fjölskyldu sinni frekari skömm.

‌Drottinn svaraði báðum bænum í einu, en þó ekki eins og þau sjálf vildu. Sonur Tóbítar, sem hét Tóbías, verður þá miðdepill sögunnar. Tóbít sendi hann til að sækja peninga sem voru í vörslu í Medíu stutt frá staðnum þar sem Sara bjó. Drottinn hafði sent engilinn Rafael til að fara með Tóbíasi, vísa leið og leiðbeina. Tóbít og Tóbías þekktu engilinn hins vegar sem Asaría, ættingja þeirra. Til að gera langa sögu stutta heppnast ferðin framar vonum. Tóbías kynnist Söru og kvænist henni. Illi andinn gerir honum ekki mein, heldur er hann fjötraður og rekinn burt frá húsinu. Engillinn fer svo og sækir peningan sem eru í vörslu.

‌Tóbít veit þó ekki af neinu meðan á öllu þessu stendur, og fer að óttast um son sinn. Anna, konan hans, er fljótlega sannfærð um að einkasonur hennar er dáinn. Það er sennilega liðinn tæpur mánuður þegar hann loks kemur heim, kvæntur og ríkur. Við heimkomu hans eru augu Tóbíts læknuð samkvæmt fyrirmælum engilsins. Engillinn greinir þeim svo frá því hver hann raunverulega er, og hvernig allt sem átti sér stað, gerðist samkvæmt vilja Drottins. Hann hafði sannarlega heyrt bæn Tóbíts, og hann hafði einnig heyrt bæn Söru. Nú hafði Guð svarað þessum bænum, ekki með því að láta þau deyja, heldur með því að snúa harmi þeirra til fagnaðar. Engillin hvetur síðan Tóbít til að lofa Drottinn með því að greina frá stórverkum hans.

‌Fyrri lestur næstkomandi sunnudags er hluti af lofsöng Tóbíts, sem er í raun allur kafli 13, en við lesum einungis 6 vers.

Þá bað Tóbít: Lofaður sé lifandi Guð að eilífu, lofað sé ríki hans. Hann agar en miskunnar einnig, leiðir til heljar niður í jarðardjúp en hrífur einnig úr gereyðingunni. Enginn fær umflúið hönd hans. Þakkið honum, Ísraelsmenn, í augsýn heiðingjanna. Meðal þeirra dreifði hann yður. Þar sýndi hann mátt sinn. Vegsamið hann frammi fyrir öllum lifendum því að hann er Drottinn vor, Guð vor og faðir vor. Hann er Guð um aldir alda. Hann mun hirta yður vegna ranglætis yðar, en hann mun einnig miskunna yður og leiða yður aftur frá þjóðunum öllum sem yður var dreift á meðal. Allir skulu tala um stórvirki hans og syngja honum lof í Jerúsalem.

Tóbít 13:1-5,8

Þannig hljóðar lesturinn úr Tóbítsbók.

Það sem Tóbít bendir okkur á, með alveg sérstökum hætti, er fyrsta boðorðið. Eða æðsta boðorðið, eins og Jesús kallar það. Ef við vitnum aftur í fyrri hluta tvöfalda kærleiksboðorðsins, þá var það svona:

37 Hann svaraði honum: „,Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.’ 38 Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Matt 22:37–38

Tóbít gefur okkur góða ástæðu: Það er Guð sem er Drottinn og faðir okkar. Það þer hann sem gerir stórvirki. Það er hann sem agar þjóðirnar og það er hann sem frelsar. Það er hann sem sýnir mátt sinn. Og eins og saga Tóbíts sýnir okkur, þá er það hann sem getur snúið harmi yfir í fögnuð. Það er ekki til neinn annar guð við hiliðina á Drottni Guði vorum.

Ástæaðan fyrir því að við eigum að elska Guð framar öllum öðrum, er að það er ekki til neinn annar.

Ofan á það bætist síðan að hann elskar okkur að fyrra bragði. Alltaf þegar Ritningin talar um að Guð elskar okkur, þá kemur það fram í verki. Kærlekur Guðs til okkar er ekki bara einvher hlý tilfinning, heldur er hann óleysanlega tengdur því sem Guð gerir. Kærleikur Guðs til Tóbíts, Önnu, Tóbíasar og Söru kom fram í verkum hans sem við lesum um í Tóbítsbók. Kærleikur hans til heimsins alls, kemur fram í þeirri staðreynd að “hann sendi son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.”

‌Síðari ritningarlestur

‌Það er þessi kærleikur, sem síðan á að endurspeglast hjá okkur. Það er hann sem endurspeglast í síðara hluta tvöfalda kærleiksboðorðsins. Við munum hvernig það var, en ég les það samt aftur:

39 Annað er þessu líkt: ,Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.’ 40 Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“

Matt 22:39-40

Með allt þetta í huga höldum við nú áfram og lesum síðari ritningarlesturinn úr fyrsta Jóhannesarbréfi, fjórða kafla, versum 10-16, og hljóðar það svo.

10 Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar. 11 Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss, þá ber einnig oss að elska hver annan. 12 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef vér elskum hver annan, þá er Guð stöðugur í oss og kærleikur hans er fullkomnaður í oss. 13 Vér þekkjum, að vér erum stöðugir í honum og hann í oss, af því að hann hefur gefið oss af sínum anda. 14 Vér höfum séð og vitnum, að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. 15 Hver sem játar, að Jesús sé Guðs sonur, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. 16 Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann. Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum.

1 Joh 4:10–16

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Eins og við heyrum hér, er kærleikurinn eins og rauður þráður sem gengur gegnum þessa texta. Guðspjallið, úr 15. Jóhannesarguðspjalls er þar engin undantekning.

‌Guðspjall

‌Guðspjall næstkomandi sunnudags, 4. sunnudags eftir páska eða fimmta sunnudags páskatímasns, kemur eins og texti síðasta sunnudags úr kveðuræðu Krists í Jóhannesarguðspjalli.

Eins og ég talaði um í síðustu viku, hefst þessi ræða í kafla 13, þegar Jesús þvær færtur postula sinna. Þar með sýnir hann þeim hvernig ríki Guðs virkar. Hann sem sjálfur er Drottinn, hinn æðsti í ríki Guðs, tekur á þjóns mynd, sest niður á gólf, tekur þvottakar og þvær fætur lærisveina sinna. Það er kærleikur sem fram kemur í verki. Ekki bara kemur hann fram í táknrænum verkum, eins og að halda stórar veislur, stórum játningum, gefa blóm eða þessháttar — heldur eru verk kærleikans fyrst og fremst þjónusta við aðra. Sá sem raunverulega elskar, gerir sjálfan sig að þjóni þess sem hann elskar.

Þessi klærleikur er rauður þráður gegnum alla kveðjuræðuna, sem síðan lýkur í kafla 17. með fyrirbæn Krists fyrir okkur við Getsemane.

Við lesum þá guðspjall næstkomandi sunnudags, úr 15. kafla Jóhannesarguðspjalls, versum 12-17. Þau hljóða svo í Jesú nafni:

12 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. 13 Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. 14 Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður. 15 Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum. 16 Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni. 17 Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.

Jóh 15:12-17

‌Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

‌Eins og Kristur hefur elskað okkur, eigum við sem á hann trúum, að elska hvert annað. Hvernig er það þá sem Jesús hefur elskað okkur? Og hvernig er þetta nýtt boðorð. Höfum við ekki lesið það tvisvar í þessum þætti að boðorðið “þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig” er annað æðsta boðorðið í gamla testamentinu? Jú, og er það ekki einmitt það sem er málið? Við eigum ekki bara að elska náungann eins og okkur sjálf, heldur eins og Jesús segir hér: Eins og hann elskar okkur. Hann var jafnvel tilbúinn til að leggja eigið líf í sölurnar til þess að geta fyrirgefið okkur.

‌Og það er nefnilega hin æðsta kristilega þjónusta við náungann, að hafa lund fyrirgefningar og sátta við alla menn. Kirkjan, samfélag þeirra sem trúa á Krist, útskúfir engum sem sækist eftir fyrirgefningu og sáttum. Það þýðir augljóslega ekki að við leggjum orð Guðs til hliðar, eða að við leggjum blessun okkar á það sem Ritningin fordæmir sem synd. Þvert á móti, eins og við höfum þegar komið að í þessum þætti, er lögmál Guðs ekkert annað en kærleikur í verki. En þeim sem iðrast og leitast eftir sáttum, á kirkjan allaf að taka við.

‌Í síðustu viku lásum við úr síðara korintubréfi, þar sem Páll og Tímóteus, samstarfsmaður hans, skrifa til Korintumanna, sem hafa gert iðrun eftir togstreytu og erjur. Páll og Tímóteus gleðjast mikið yfir þessu, og skrifa í 5. kafla, versum 18-19:

18 Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar. 19 Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar.

2 Kor 5:18–19

‌Kristilegur kærleikur í verki er aldrei erfiðari en þetta: Að taka þá í sátt sem hafa gert manni illt. Næst á eftir því er sennilega það að vera tekinn í sátt, þegar maður er sjálfur hinn seki. En í því felst meira en nokkuð annað þetta boðorð Krists, eins og hann segir: “Að þér elskið hvern annan, eins og ég hef elskað yður.”

‌Og í hvert skipti er það vitnisburður um þann kærleika Krists sem er fyrimyndin. Við ljúkum þessum þætti á því að lesa aftur þetta einfalda atriði úr síðari ritningarlestrinum í fyrsta Jóhannesarbréfi, 4. kafla, 10. versi:

10 Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð, heldur að hann elskaði oss og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.

1 Jóh 4:10

‌Amen.