
Sagan um köllun spámannsins Jesaja er sögð í upphafi sjötta kafla jesajabókar. Jesaja segir frá sýn sem hann sá.
1Árið sem Ússía konungur andaðist sá ég Drottin sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn. 2Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir.
Jesaja 6:1-2
Jesaja segir frá því að hann var staddur í musteri Drottins. Lýsingin er þó að mörgu leyti meira lifandi heldur enn musterið í Jerúsalem, og bendir það til þess að Jesaja spámaður sá himneska fyrirmynd þess (Sbr. Hebr 8:5).
Í innsta hluta musterisins, hinu allra heilagsta, stóð sáttmálsörk Drottins. Á hana var oft litið sem hásæti Drottins. Þar talaði hann til Móse (4 Mós 7:89) og þar að auki var sagt að Guð sæti yfir Kerúbunum (1 Sam 4:4).
Sjálfir Kerúbarnir eða Serafarnir eru fyrst nefndir í þriðja kafla fyrstu mósebókar. Þeir vöktuðu leiðina að tré lífsins eftir að Adam og Eva voru rekin úr garðinum. Á loki sáttmálsarkarinnar voru líka tvær styttur af kerúbum, og má segja að þeir vöktuðu enn veginn að tré lífsins.
Það eru himneskar fyrirmyndir kerúbanna sem Jesaja spámaður sá, og heyrði þá hrópa:
3Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu:
Jesaja 6:3-4
„Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð.“
4Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk.
Hér er ýmislegt sem á sér stað samtímis, og við skulum nefna tvennt: Fyrst er það að musterið skelfur undan rödd kerúbanna. Þetta er til tákns um nærveru Guðs og um heilagleika hans. Sá heilagleiki í raun hættulegur fyrir vanheilagan og syndugann mann. Jesaja spámaður gerir sér fulla grein fyrir því, og hrópar upp yfir sig af ótta, og játar syndir sínar með þessum orðum:
5Þá sagði ég: „Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin allsherjar.“
Jesaja 6:5
En á sama tíma er friðþægingin við Guð undirbúin. Reykurinn sem er nefndur í versi 4 er þegar til merkis um það. Reykurinn kemur frá hinu gyllta altari sem notað var til að brenna reykelsi. Þar lágu kolamolar sem prestarnir báru inn og lögðu á Það. Því næst köstuðu þeir reykelsinu á kolamolana. En nú á sér stað nokkuð óvæntur atburður:
6Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng, 7og hann snart munn minn með kolinu og sagði: „Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína.“
Jesaja 6:6-7
Friðþægingin hefur átt sér stað, en þó með öðrum hætti en þeim sem að öllu jöfnu tíðkaðist á friðþægðingardegi. Ekki er minnst á neina fórn, heldur er kolamoli tekinn af altarinu og hann lagður á varir Jesaja. Honum er gefin hlutdeild í heilagleika Guðs.
Altarissakramentið

Upplifun Jesaja er að mörgu leyti einstök, en þó ekki eins einstök og ætla mætti. Því hún líkist að mörgu leyti því sem á sér stað í altarissakramenti kirkjunnar.
Þegar við komum til messu, komum við saman til að heyra orð Guðs og taka við sakramentinu. Með öðrum orðum komum við inn fyrir auglit Drottins. Þess vegna bregðumst við eins við og Jesaja spámaður, með því að játa syndir okkar.
A: Ég játa fyrir þér, almáttugi Guð, skapari minn og lausnari, að ég hef margvíslega syndgað gegn þér í hugsunum, orðum og gjörðum og finn í hjarta mínu girnd til hins illa. Fyrirgef mér sakir miskunnar þinnar og leið mig til eilífs lífs til dýrðar nafni þínu.
Í síðari hluta messunnar göngum við svo fram í kirkjuna og stöndum eða krjúpum við altarið. Þar er ákveðinn hlutur tekinn af altarinu og lagður á varir okkar, rétt eins og engillinn lagði kolamolann á varir Jesaja. En það sem okkur er gefið er meira og verðmætara heldur en það sem Jesaja fékk.
Okkur er fengið brauð og vín, með þessum orðum:
P: Þetta er líkami Krists, fyrir þig gefinn. (Lúk 22:19)
P: Þetta er blóð Krists, fyrir þig úthellt. (Lúk 22:20)
Hér hefði mátt bæta við „… til fyrirgefningar synda.“ (Matt 26:28)
Okkur er hvorki fenginn kolamoli, né tómt brauð eða vín. Okkur er fenginn líkami og blóð krists með brauðinu og víninu, sem er gefinn fyrir og úthellt til fyrirgefningar synda okkar. Með öðrum orðum tökum við við Kristi í sakramentinu. Ogt ef við tökum við sakramentinu í trú, er okkur því fenginn fyrirgefning syndanna, rétt eins og Jesaja var fengin fyrirgefning syndanna.
Í köllunarsögu Jesaja birtist fyrirmynd altarissakramentisins, og vitnar hún fyrir okkur um hversu mikilfengleg gjöf sakramentið er.