Skip to content

Nú förum vér upp til Jerúsalem…

Þátturinn er á dagskrá Lindarinnar þriðjudaginn 22. febrúar kl 9:00, og er endurfluttur fimmtudag kl 13:00 og laugardag kl 16:00.

Upphaf þáttar

Komiði sæl og velkomin í þáttinn Undirbúningur fyrir Sunnudag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson og er prestur í verkefni sem kallast Játningarbundin Evangelísk-Lúthersk kristni. Þú finnur okkur á www.jelk.is, á facebook og á YouTube.

Sunnudagurinn kemur er sunnudagur fyrir föstuinngang og kirkjur landsins verða skreyttar með grænum lit. Fastan hefst miðvikudaginn eftir, sem er öskudagur, og þá er skipt yfir fjólubláar skreytingar því til merkis. Það er gömul hefð að gera sér sérstaklega glaða daga núna fyrir föstuna. Mánudag fyrir föstuinngang, eru margir sem keppast um að borða flestar rjómabollur. Á þriðjudegi er sprengidagur, karníval eða kjötkveðjuhátið, og þá er hefð fyrir því að troða sig út af kjöti. Það tengist auðvitað ákveðnu formi föstunnar þar sem ekki er borðað kjöt fram að páskum. En það er vel hægt að fasta með öðru móti, til dæmis með því að skrá sig út af samfélagsmiðlum og annari skjánotkun. Tíminn sem sparast nýtist þá til bænagjarðar, biblíulestur og til að gera náunganum gott.

Við ætlum að lesa ritningarlestrana og tala aðeins um það samhengi sem þeir standa í, og við byrjum einmitt á því að skoða samhengi fyrri ritningarlesturs.

Jesaja spámaður

Fyrri ritningarlestur er að finna hjá spámanninum Jesaja í 50. kafla.

Í síðustu viku sagði ég frá því að Jesajabók býr yfir mörgum textum sem sérstaklega er að skilja sem spádóma um komu Krists. Meðal þessara texta eru fjórir lestrar sem kallaðir eru ljóðin um hinn líðandi þjón Drottins. Þeir eru Isa 42:1-9, 49:1-13, 50:4-11 þ.e. sem vil ætlum að lesa núna, og að lokum sá sem kannski er best þekktur: Isa 52:13-53:12, það er að segja allur kafli 53, og þetta er þá oft kallað Jesaja 53. Hafir þú aldri lesið hann, mæli ég með því að þú slökkvir á útvarpstækinu, finnir Biblíuna þína og lesir hann núna strax. Isa 52:13-53:12 .

En við skulum taka eitt skref afturábak. Jesajabók má skipta í fyrri og síðari hluta, þ.e. kafla 1-39 og svo kafla 40-66. Innan þessara hluta eru síðan ýmsar minni einingar. En ef við höldum svona tvískiptingu, þá má segja að fyrri hlutinn tali að miklu leyti um ríki jarðarinnar, bæði Júdaríki og um þjóðirnar í kring um hana. Fyrri hlutinn endar á dauða Hiskía konungs, og kaflar 48 og 49 endurtaka hið sama og við finnum í 2 Kgs 20.

Síðari hlutinn horfir fram á við til tímans þegar musterið er farið, og talar til hinna herleyddu og huggar þá. Sumir hafa þá dregið þá ályktun að síðari hlutinn geti ekki verið skrifaður af sama spámanni og fyrri hlutinn. Hvernig átti til dæmis Jesaja að geta þekkt nafn Kýrusar, eða lýst atburðum síðari tíma með slíkri nákvæmni? Að sjálfsögðu, ef maður trúir því ekki að Guð sjálfur standi að baki bókinni, þá getur maður ekki tekið gilt að um raunverulegan spádóm sé að ræða, og verður þá að finna einhverja aðra skýringu. Kennningar um Jesaja annan og Jesaja þriðja eru dæmi um þannig nálgun að textanum. Eins verður þá að finna aðra skýringu á textunum um líðandi þjón Drottins, en að þeir eigi við um Krist.

Kristur sjálfur, og Nýja testamentið allt, er þó á öðru máli og lítur á Jesaja spámann sem raunverulega persónu, sannan spámann Drottins, sem talaði alla þessa spádóma. Ég ætla að lesa fyrir ykkur stutta tilvitnun úr Jóhannesarguðspjalli:

37 Þótt hann hefði gjört svo mörg tákn fyrir augum þeirra, trúðu þeir ekki á hann, 38 svo að rættist orð Jesaja spámanns, er hann mælti: Drottinn, hver trúði boðun vorri,
og hverjum varð armur Drottins opinber? 39 Þess vegna gátu þeir ekki trúað, enda segir Jesaja á öðrum stað: 40 Hann hefur blindað augu þeirra
og forhert hjarta þeirra,
að þeir sjái ekki með augunum
né skilji með hjartanu og snúi sér
og ég lækni þá. 41 Jesaja sagði þetta af því að hann sá dýrð hans og talaði um hann.

Jóh 12:37-41

Jesaja sá dýrð Jesú Krists og talaði um hann. Við sjáum líka af samhenginu í Postulasögunni, kafla 8, þegar kristniboðinn Filippus tala við hirðmann frá Eþíópíu að Jesaja 53 fjallar einmitt um Jesú. Með nýja testamentinu skoðum við þessa texta með þeim skilningi að hér sé um að ræða engann annan en Jesú Krist, vorn Drottinn.

Fyrsti söngurinn, í kafla 42 kynnir hann til sögunnar, sem þjón Drottins. Hann er auðmjúkur, réttlátur og miskunnsamur og breiðir út réttlæti sitt um alla jörðina. Annar söngurinn, í kafla 49, minnist á fæðingu hans og lýsir honum sem hjálpræði Guðs til endimarka jarðarinnar. Hér er líka minnst á að hann verði fyrirlitinn af mönnum. Þriðja sögninn lesum við í heild sinni eftir augnablik, en fjórði söngurinn segir mjög beinskeitt frá þjáningu Krists, og segir líka hvers vegna hann þjáist: “hann var særður vegna vorra synda og kraminn vegna vorra misgjörða. Hegningin, sem vér höfðum til unnið, kom niður á honum, og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.” Þannig hljómar 5. vers í kafla 53.

Fyrri ritningarlestur

4 Hinn alvaldi Drottinn hefir gefið mér lærisveina tungu, svo að ég hefði vit á að styrkja hina mæddu með orðum mínum. Hann vekur á hverjum morgni, á hverjum morgni vekur hann eyra mitt, svo að ég taki eftir, eins og lærisveinar gjöra. 5 Hinn alvaldi Drottinn opnaði eyra mitt, og ég þverskallaðist eigi, færðist ekki undan. 6 Ég bauð bak mitt þeim, sem börðu mig, og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum. 7 Drottinn hinn alvaldi hjálpar mér, því lét ég ekki háðungarnar á mér festa. Fyrir því gjörði ég andlit mitt að tinnusteini, því að ég veit, að ég verð ekki til skammar. 8 Nálægur er sá er mig réttlætir. Hver vill deila við mig? Við skulum báðir ganga fram! Hver hefir sök að kæra á hendur mér? Komi hann til mín! 9 Sjá, hinn alvaldi Drottinn hjálpar mér. Hver er sá er geti gjört mig sekan? Sjá, þeir munu allir detta sundur eins og gamalt fat, mölur skal eyða þeim. 10 Hver sá meðal yðar, sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn. 11 Sjá, allir þér, sem kveikið eld og gyrðið yður eldlegum skeytum, gangið þér út í þann eld, sem þér hafið kveikt, og sláið umhverfis yður þeim slagbröndum, sem þér hafið tendrað! Frá minni hendi kemur þetta yfir yður, þér skuluð liggja í kvölum.

Jesaja 50:4-11

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Hinn líðandi þjónn Drottins, sem er Jesús Kristur, er hér lýst sem auðmjúkum og undirgefnum manni. Hann hlustar gaumgæfilega og talar svo það sem hann hefur heyrt. Hann hefur eyra og tungu lærisveins. Eins segir Jesús í Joh 5:19 “Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.”

Söngurinn heldur áfram og segir frá þeirri smán sem Jesús mátti þola á föstudaginn langa, fyrir hendi prestanna og leiðtoga gyðinga, sem og rómversku hermannana. Hann var sleginn á utanundir, sleginn á bakið með svipum og húðstrýktur. Þeir reittu hann í skeggið, hræktu framan í hann og háðu hann.

Hann hafði enga sök, en samt sem áður reyndu menn að koma sök uppá hann. Og þótt það tækist ekki, þvinguðu þeir vilja sínum í gegn, og fengu hann dæmdan til krossfestingar. En þrátt fyrri allt þetta færðist hann ekki undan, og tók öllu því sem á honum lenti. Fjórði söngurinn segir okkur svo auðvitað hvers vegna, en það kemur líka fram hér í 10. versi: “Hver sá meðal yðar, sem óttast Drottin, hlýði raustu þjóns hans. Sá sem í myrkrunum gengur og enga skímu sér, hann treysti á nafn Drottins og reiði sig á Guð sinn.”

Í myrkri dauðans er enga aðra hjálp að finna en þjón Drottins, sem gengið hefur sömu leið á undan okkur, og rutt okkur veg. Til þess þurfti hann fyrst að deyja sjálfur dauða syndarans á krossinum, þótt svo að hann væri saklaus. Sá eini sem nokkurn tímann hefur virkilega verið það. En þaðan lá svo leiðin frá dauða og til lífsins.


Fyrir þann sem lítur á dauðan sem endanleg örlög mannsins, er ekki hægt að skilja ritningarnar. Það meikar engan sens fyrir þá sem ekki trúa. Þá er þetta allt saman bara bull og vitleysa. Já, postulinn Postulinn Páll bendir einmitt á þá staðreynd í síðari ritningarlestrinum, sem er að finna í formála Páls í fyrra korintubréfi.

Og við skulum bara strax lesa hann, úr fyrra Korintubréfi, fyrsta kafla, versum 18-25:

18 Því að orð krossins er heimska þeim er glatast, en oss, sem hólpnir verðum, er það kraftur Guðs. 19 Ritað er:
20 Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður? Hvar orðkappi þessarar aldar? Hefur Guð ekki gjört speki heimsins að heimsku?

1 Kor 1:18-25

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Það var varla hægt að velja betri ritningarlestra til að lesa saman, þ.e. lesturinn úr Jesaja 50 og þennan úr Fyrra korintubréfi. Gyðingar heimta tákn og grikkir leita að speki. Það gerir líka okkar tími. Við vonum að náttúruvísindin geti svarað öllum okkar spurningum, jafnvel spurningum okkar um Guð. En sú vísindi eru ekkert annað en rannsókn á því hvernig heimurinn virkar. Þau geta ekkert sagt um það sem er utan við heiminn, sem skapaði heiminn og getur gripið inn í hann. Né heldur um þann Guð sem tók skrefið inn í heiminn og varð sjálfur maður. Allt þetta er vísindunum og mannlegri speki framandi.

Nýja testamentið segir okkur aftur og aftur að Kristur sjálfur er til staðar í ritningu gamla testamentisins, og að hún tali einmitt um hann. Eins og ég las áðan úr Jóhannesarguðspjalli, sá Jesaja dýrð hans, og talaði um hann. Allur þessi vitnisburður, bæði hinn spámannlegi vitnisburður gamla testamentisins og hinn postullegi vitnisburður nýja testamentinu er til þess eins að beina augum okkar til Krists og til kross hans. Því einmitt þar finnum við hið eilífa hjálpræði.

Guðspjall

Guðspjall sunnudags fyrir föstuinngang er að finna í Lúkasarguðspjalli, kalfa 18, versum 31-34

31 Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum. 32 Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. 33 Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa.“ 34 En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var.

Lúk 18:31-34

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Á tíma musterisins átti ísraelsþjóð að koma saman til hátíðar við musterið þrisvar á ári. Þetta var til að byrja með tjaldbúð í bænum Síló, og síðar bygging í Jerúsalem. Fyrsta slíka hátíðin hátíð ósýrðu brauðana sem hófst á því að haldnir voru páskar Drottins, og þar á eftir var einungis borðað ósýrt eða ógerjað brauð í sjö daga. Sjö vikum eða fimmtíu dögum síðar var haldin frumskeruhátíð, sem í dag kallast hvítasunna. Að lokum kom uppskeruhátíðin í árslok, og átti þjóðin þá að búa í laufskálum í sjö daga. Þar af leiðandi kallast hátíðin einnig laufskálahátíðin.

Þessar þrjár hátíðir má kalla pílagrímshátíðir, því það gat verið langur leiðangur að fara alla þessa leið til musterisins, og margir sem fóru hana. Samt sem áður getur maður ímyndað sér að það hefur verið góð stemming meðal pílagrímanna og mikil gleiði. Pílagrímshátíðirnar voru jú einmitt það, gleiðinnar hátíðir.

Þegar Jesús segir við lærisveina sína: “Nú förum vér upp til Jerúsalem” er um slíka pílagrímsgöngu að ræða. En samt sem áður hvílir dimmt ský yfir orðum hans. Því á þessari ferð munu spádómar gamla testamentisins rætast. Það sem við lásum um í fyrri ritningarlestrinum mun rætast. Mannssonurinn verður “framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, mysþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta. en á þriðja degi mun hann upp rísa.”

Þegar hér er komið sögu eru lærisveinarnir búnir að heyra þetta nokkrum sinnum, en skilja það ekki ennþá. Pétur reyndi fyrst að koma í veg fyrir að Jesús gengi í dauðann, en nú skilja allir að hann verður ekki stoppaður. Tómas postuli tekur þá afstöðu að fylgja Jesú til hins síðasta og deyja með honum (Joh 11:16). Síðar taka allir undir það, og sérstaklega Pétur. Þeir horfa framávið í áttina að krossinum og sjá enga leið áfram. Þannig lítur líka vantrú heimur á krossinn. Hann er hneyksli, viðurstyggð og hrein heimska. En boðskaðurinn um Jesú getur ekki án krossins verið.

Krossinn er nefnilega ekki sigur yfir Kristi. Þvert á móti, er krossinn sigurmerki Krists. “oss sem hólpnir verða, er hann kraftur Guðs.” Allan tímann sagði Jesú við lærisveina sína að hann myndi rísa að nýju á þriðja degi. Enn sem komið var gátu þeir hvorki skilið það né trúað því. Það var ekki fyrr en eftir upprisuna að heildarmyndin kom í ljós, og postularnir skildu það sem Jesús hafði talað til þeirra.

Þáttarlok

Þessi stutti guðspjallstexti á vel við á sunnudaginn kemur, rétt fyrir föstu, því föstutíminn endurspeglar að ákveðnu leyti pílagrímsför Jesú og lærisveina hans til Jerúsalem. Þessari för Jesú er beint til páskahátíðarinnar. Við minnumst göngu hans yfir föstutímann, og íhugum sérstaklega hvað hún merkir, og hvers vegna hún var nauðsynleg. Við íhugum að þjáningarnar sem Jesús leið, voru þær þjáningar sem við áttum skildar. Svo þegar páskaranir nálast, fylgjum við honum í rauntíma. Við höldum upp á pálmasunnudag, þegar Jerúsalembúar tóku við honum með fögnuði. Við höldum upp á síðustu kvöldmáltíðina skírdag, og dauða hans á föstudaginn langa. Við bíðum í kyrrþey hvíldardaginn, meðan hann lá í gröf sinni, og við fögnum með öllum lærisveinum hans, og höldum upp á upprisuna á páskadagsmorgun. Rétt eins og Jesús, beinum við ferð okkar til Jerúsalem, eða allavega til atburðanna sem þar áttu sér stað.

Ég þakka ykkur fyrir samfylgdina í dag og vona að þátturinn verði ykkur til gagns og uppbyggingar, og ekki síst góður undirbúningur fyrir messu á sunnudag. Verið þið sæl.