Hér kemur tengill í upptöku á appi Lindarinnar
Sunnudagurinn kemur er þriðji sunnudagur páskatímans og kirkjur landsins verða skreyttar með hvítu, eins og allan páskatímann. Páskatíminn tími í kirkjunni, sem hefst með páskum og lýkur með hátíðarhöldum Hvítasunnu. Það eru 40 dagar frá páskamorgni til Uppstigningardags, og er það sá tími þegar Jesús endurtekið birtist lærisveinum sínum eftir upprisu sína. Þá taka við enn 10 dagar þegar lærisveinarnir biðu þess að taka við Heilögum anda, og hefja kristniboð kirkjunnar. Það er sem sagt tíminn milli þessara dagar sem við köllum páskatímann. Að halda upp á þá með þessum hætti í kirkjunni, gefur okkur viðmið og tilfinningu fyrir tímalengdinni.
Textar sunnudagsins eru nær alltaf þrír, og ætlum við að lesa þá alla. Fyrri ritningarlestur, stundum kallaður lexían, er lestur úr gamla testamentinu. Síðari ritningarlesturinn er úr nýja testamentinu, yfirleitt úr bréfunum, og er hann þá einnig nefndur pistillinn. Svo kemur guðspjallið að lokum, sem nær allaf er úr einu guðspjallanna fjögurra, og á það venjulega að vera megintexti prédikunarinnar.
Við förum yfir textana, í þeirri röð sem þeir eru venjulega lesnir, og byrjum þá, eins og allaf á fyrri ritningarlestri.
Fyrri ritningarlestur
Hann er að finna í spádómsbók Jesaja, sem er skrifuð á konunganna sem við kynnumst í síðari konungabók, köflum 15 til 21 og síðari Kroníkubók, köflum 26 til 33. Síðari hluti Jesajabókar lítur framávið til tíma herleiðingarinnar, sem talað er um í köflum 24 og 25 í síðari konungabók, og kafla 36 í síðari Kroníkubók.
Við höfum áður talað um það að vers 42:18-44:23 mynda ákveðna einingu sem talar um frelsun ísraelsþjóðar. Fyrst lýsir Guð þjóðinni sinni, sem blindri og hjartalausri, sem nú hlýtur makleg málagjöld í útlegð. Í kafla 43 verða blæbrigði. Guð lofar því að hann muni snúa hag þjóðarinnar og vera frelsari hennar. Vers 8-13, ritningarlesturinn fyrir tveimur vikum síðan, benda svo á að það sem komið hefur fyrir Ísraelsþjóð, hefur afleiðingar fyrir allar þjóðir heims. Guð ísraelsþjóðar er líka Guð alheimsins, og það er enginn annar guð til en hann. Allar þjóðir heims þurfa að svara Drottni, eins og Ísraelsþjóð gerir nú.
En, nú er komið að því að Ísraelsþjóð geti litið fram á við til betri tíma. Því Guð mun brjóta vald Babylon, frelsa þjóð sína, og sjálfur vera konungur hennar. Það er þannig sem Guð annast og rækir þjóð sína. Þegar lýður hans afneitar honum, tekur hann eitt skref aftur á bak, losar aðeins það tak sem hann hefur á hendi þeirra, til þess að þeir fái smá sjónarhorn af því hvernig lífið án Guðs er. En síðan snýr hann högum þeirra og frelsar þá. Var það ekki einmitt þannig sem ísraelsþjóð var stofnuð? Fyrir munn spámannsins Jesaja, minnir Guð þjóðina á hvernig hún flúði frá Egyptalandi, nokkrum öldum fyrr.
Við lesum þá fyrri ritningarlestur úr Jesajabók, kafla 43, versum 16-19. Hann hljómar svo:
Isaiah 43:16–19 IS1981
16 Svo segir Drottinn, hann sem lagði veg yfir hafið og braut yfir hin ströngu vötn, 17 hann sem leiddi út vagna og hesta, herafla og fyrirliða. Þeir liggja þar hver með öðrum og fá eigi risið á fætur, þeir slokknuðu, kulnuðu út sem hörkveikur:
Jesaja 43:16-19
18 Rennið eigi huga til hins umliðna og gefið eigi gætur að því er áður var. 19 Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni, það tekur þegar að votta fyrir því – sjáið þér það ekki?
Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin.
Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.
Drottinn Guð leiddi forðum ísraelsþjóð út úr ánauð Egypta, opnaði fyrir þeim Rauðahafið þannig að hún gat gengið þurrum fótum inn á Sínaískaga, og lokaði vötnunum svo aftur yfir her Egypta, sem veitti þeim eftirför, og bjó þar hestum, vögnum, herafla og fyrirliða Egypta vota gröf. Þjóðina leiddi hann svo gegnum eyðimörkina til fundar við sig við Sínaífjall, og svo áfram inn í hið fyrirheitna land.
Það er hinn sami Drottinn Guð sem hér talar. Hann mun aftur leiða þjóð sína úr ánauð, og með slíkum hætti að það yfirskyggir algerlega frelsunina úr Egyptalandi. Hér er eðlilegt að leggja áherslu á tenginguna við Babylon, og þau orð sem skrifuð eru bara nokkrum versum áður.
Samt sem áður, getur friðsamleg frelsun ísraelsþjóðar úr útlegð í Babylon, þar sem þjóðin þó lifði í nægtum, varla talist frelsun sem yfirskyggir frelsunina úr Egyptalandi. Hér er verið að tala um stærri hlut.
Við verðum því að hlusta á orð Nýja testamentisins, og gera okkur grein fyrir því að þessi orð tala um komu Krists. Hann mun sannarlega frelsa þjóð sína úr Babylon, eins og hann frelsaði þjóðina úr Egyptalandi. En þetta er bara vottur fyrir því sem koma mun. Hið nýja sem hann hefur fyrir stafni.
Jesaja nefnir það í versi 25: “Ég, ég einn afmái afbrot þín sjálfs mín vegna og minnist ekki synda þinna.”
Drottinn mun frelsa þjóð sína frá syndum sínum. Frá hinu illa.
Og ekki verður það bara þjóð hans Ísrael, heldur lýður Guðs allur, þ.e. allir þeir sem trúa og treysta á nafn hans.
Síðari ritningarlestur
Hebreabréfið er fyrir nokkrar ástæður, svolítið sérstakt bréf í Nýja testamentinu. Bréfið hefst ekki hvorki á kveðju, né nokkurri lýsingu á tilefni þess, heldur er upphaf þess fremur líkara prédikun eða ræðu. Hebreabréfið gefur ekki til kynna hver hefur ritað það, og þótt það séu til ýmsar tilgátur, sumar þeirra frá frumkirkjunni, verðum við að viðurkenna að við höfum ekki nægilegar vísbendingar, til að staðhæfa nokkuð um það. Við vitum hins vegar að bréfið var lesið snemma í frumkirkjunni, og haldið í heiðri. Frá þriðju öldu er talað um það í vesturkirkjunni sem hluta af nýja testamentinu.
Hebreabréfið er mikil hjálp við það að skilja tengslin milli gamla og nýja testamentisins, og ítrekar að Kristur er hinn sami í gær og í dag og um aldir. Einn er Guð gamla og nýja testamentisins. Bréfið færir rök fyrir því að fórnirnar og athafnirnar í musteri gamla testamentisins hafi raunverulega aldrei getað afmáð syndir lýðsins, enda voru hvorki fórnirnar né prestarnir sjálfir lýtalaus. Hefði svo verið, hefði ekki verið nauðsynlegt að halda fórnunum áfram eftir að þær höfðu verið framkvæmdar einu sinni.
Þessar fórnir og athafnir voru í raun bara til merkis um þá fullkomnu fórn, og hinn fullkomna prest sem koma átti. Sá prestur myndi ekki koma samkvæmt reglu Levíta, heldur samkvæmt reglu Melkísedeks, þ.e. hins réttláta konungs. Hann skyldi ganga inn í hinn himneska helgidóm og færa sjálfan sig fram sem Guði þóknanlega fórn. Þar með skyldi hann fórna í eitt skipti fyrir öll, til fyrirgefningar allra synda.
Allir menn, hvort sem er í gamla eða nýja testamentinu, þurfa því að svara kalli Guðs með trú á hann og trausti til hans. Ellefti kafli gefur mörg dæmi um slíka trúmenn í gamla testamentinu. Fyrir trú þeirra var þeim tilreiknuð réttlæting og fyrirgefning syndanna. Hebreabréfið hvetur því til djörfungar í trúnni.
Þrettándi og síðasti kafli bréfsins talar sérstaklega um það hvernig sú djörfung á að birtast sem kærleikur í lífi hinna trúuðu, og bendir á nokkrar sannar birtingarmyndir hans. Í versi 10 bendir bréfið svo á ákveðna hliðstæðu. Fórnardýrin í gamla testamentinu létu líf sitt fyrir utan sjálft musteristjaldið, rétt eins og Jesús lét líf sitt fyrir utan Jerúsalem.
Við lesum síðari ritningarlesturinn úr Hebreabréfinu, kafla 13, versum 12-16. Hann hljómar þannig:
12 Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. 13 Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. 14 Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi. 15 Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans. 16 En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.
Heb 13:12-16
Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.
Í musteri gamla testamentisins létu fórnardýr líf sitt, til að helga musterið og fyrir þann lýð sem musterið þjónaði. En, eins og áður sagði, gat blóð nauta og hafra ekki numið burt syndir. Musterið var því einungis eftirmynd af hinu fullkomna sem átti að koma síðar.
Og það sem átti að koma síðar, var Kristur.
Kristur leið fyrir utan Jerúsalem, til að helga borgina og alla sem hún þjónar. Ekki bara það, heldur alla þá sem tilheyra Kristi. Rétt eins og Musterið í gamla testamentinu var eftirmynd hins himneska helgidóms, er Jerúsalem eftirmynd hinnar himnesku borgar eilífðarinnar. Hana getum við enn ekki séð, heldur bíðum hennar við endurkomu Krists.
Þess vegna hvetur Hebreabréfið til þess að lifa hinu nýja lífi í Kristi, hér og nú, hvar sem við erum. Því Kristur er ekki bundinn við ákveðinn stað, heldur er hann alls staðar með okkur.
Guðspjall
Hin samfellda frásögn páskanna hefst í kafla 13 í Jóhannesarguðspjalli, þegar Jesús og lærisveinarnir safnast til síðustu kvöldmáltíðarinnar. Jesús klæðist búningi þjóns og þvær fætur lærisveinanna. Þannig hefst það sem kalla má kveðjuræðu Krists, og nær hún yfir þrjá næstu kafla, og endar með bæn Krists í kafla 17.
Kveðjuræðan hefst sem sagt á því að Jesús þvær fætur lærisveinanna, til merkis um þjónustu við aðra menn. Fyrst og fremst er það þjónusta Krists við okkur. Það er hann einn sem getur hreinsað af okkur alla synd og óréttlæti. Ef hann gerir það ekki, eigum við enga samleið með honum. Því næst, og á þessari forsendu er Kristur fyrirmynd öllum trúuðum, í þeirri þjónustulund sem þeir eiga að sýna hver öðrum.
Þannig er það líka þegar Jesús kennir þeim um Heilagan Anda, sem hann mun gefa þeim. Í þessum köflum er Heilagur andi kallaður Andi sannleikans, Andinn heilagi og einnig Hjálparinn. Og þar mætti einnig þýða Huggarinn eða Talsmaðurinn eða jafnvel Umboðsmaðurinn, sem allt eru ákveðin þjónustuheiti.
Kristur bendir okkur á það að lifa með Guði er að lifa í samfélagi þjónustunnar, sem Kristur sjálfur skilgreinir. Fyrst af öllu er það hann sem þjónar, og leggur líf sitt í sölurnar. Heilagur Andi þjónar kirkjunni. Og síðan á kirkjan, og allir sem hluti eru af henni, að þjóna með sömu lund. Með því að hlýða orðum Krists og halda þau.
Guðspjall sunnudagsins kemur, er tekið úr síðasta kafla kveðjuræðunnar, og fæst það við sjálfa forsenduna: Dauða og upprisu Krists, sem og himnaför hans. Við lesum guðspjall þriðja sunnudags páskatímans í Jóhannesarguðspjalli, 16. kafla, versum 16-23, og hljómar það þannig:
16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“
Jóh 16:16-23
17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: „Hvað er hann að segja við oss: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,’ og: ,Ég fer til föðurins’?“ 18 Þeir spurðu: „Hvað merkir þetta: ,Innan skamms’? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara.“
19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: „Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig’? 20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. 21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn. 22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. 23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.
Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.
Það ætti að vera mjög augljóst hvað Jesús er að segja við lærisveina sína, allavega núna eftir að það hefur allt átt sér stað. Enda er það einmitt þess vegna að Jesús sagði það allt saman fyrir fram.
Það voru ekki margir tímar til stefnu áður en hann skyldi handtekinn, dæmdur til dauða og tekinn af lífi. Þeir skyldu gráta og kveina yfir dauða hans, meðan heimurinn í kringum þá fagnaði. Reyndar gátu þeir þegar að einhverju leyti skynjað að þar var í væntum og fundu fyrir hryggðinni. Enn skyldi Jesús lagður í gröf, bak við stóran stein, og þeir gátu ekki lengur séð hann.
En síðan bætur Jesús við að þessi hryggð og sársauki lærisveinanna átti einungis að vera tímabundinn, og þar á eftir að breytast í gleði og fögnuð. Hann líkir því við sársauka konu sem er að fæða barn. Raunin er mikil meðan fæðingin stendur yfir, en síðan fæðist barnið, og þá tekur gleðin yfirhöndina. Eins mun gleði lærisveinanna yfir upprisunni taka yfirhöndina þegar þeir sjá hann að kvöldi páskadags.
Þannig fullkomnast þjónusta Krists við kirkju sína. Allt er þegar fullkomnað.
Merking hennar og afleiðing er að samband okkar við Guð hefur breyst. Í stað þess að vera samband reiði, dóms, ótta og refsingar, er það orðið samband algóðs föður við börn sín. Það sem greindi okkur frá Guði, syndin, er ekki lengur fyrir, því sekt hennar hefur verið greidd. Það er það sem dauði og upprisa Krists gerir fyrir okkur.
Leiðin til Guðs hefur verið opnuð, og þar með líka réttur okkar til að biðja til hans, lofa hann og ákalla. Rétt eins og postular og lærisveinar Jesú höfðu leitað beint til hans með ýmsa hluti, fengu þeir nú rétt til að ávarapa Guð föður í nafni Jesú Krists, þ.e.a.s. sem sönn börn hans.
Þessi börn sín sendir Guð svo út í heiminn með djörfung trúarinnar. Því sama hvað gerist, eiga þau barnarétt með Kristi og eilíft líf með Guði. Dauði, upprisa, sem og himnaför Krists er þannig forsenda fyrir okkar þjónustu. Það er þetta sem gefur okkur gleðina og djörfungina.