Nú eru jólin loksins að ganga í garð. Við gleðjumst saman og minnumst fæðingu frelsarans.
Matteusarguðspjall og Lúkasarguðspjall segja okkur hina vel þekktu sögu um Maríu og Jósef, barnið í jötunni, hirðana úti í haga, englasönginn og vitringanna frá austurlöndum. Sagan er líka sögð í Jóhannesarguðspjalli, en þá án allra þessa atriða. Jóhannesarguðspjall segir nefnilega ekki frá rás atburðanna, heldur frá merkingu þeirra. Hann byrjar á því að tala um hið eilífa orð.
1Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð. 2Hann var í upphafi hjá Guði. 3Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er. 4Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna. 5Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.
Jóh 1:1-5
Það hljómar kannski furðulega að halda því fram að þessi vers segi söguna um fæðingu Frelsarans. En það er samt það sem þau gera. Þau byrja bara á byrjuninni. Því Sonur Guðs var til staðar jafnvel áður en hann fæddist. Hann var til alveg frá upphafi, og var til staðar þegar heimurinn var skapaður. Án hans hefði heimurinn ekki einu sinni orðið til. Jóhannes talar um hann með þessu leyndardómsfulla nafni: Orðið sem var Guð.
Svo heldur hann áfram frá versi 9. Þá skírist málið aðeins áfram
9Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. 10Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki. 11Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. 12En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans. 13Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir
Joh 1:9-13
Kristur fæddist inn í litla fjölskyldu og Jósef gekk honum í föður stað. Hann var af ætt og kyni Davíðs konungs, og það var vel þekkt að Messías, hinn fyrirheitni frelsari þjóðarinnar, átti að koma úr þeirri ætt. Hann kom sem sagt til þjóðar sinnar, Ísraelsmanna. En ráðamenn hennar tóku ekki við honum, og enduðu á því að framselja hann til krossfestingar. Jóhannes hélt hins vegar fram að öllum þeim sem tækju við honum (hvort sem þeir eru gyðingar eða annarra þjóða) gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Enda er sagan sögð einmitt í þeim tilgangi, eins og Jóhannes tekur fram síðar í guðspjallinu:
En þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.
Jóh 20:31
En hér höfum við aðeins farið fram úr frásögn Jóhannesar. Ef við snúum aftur í fyrsta kafla erum við enn þá að kljást við þetta leyndardómsfulla nafn: Orðið sem var Guð. Jóhannes heldur áfram frásögn sinni:
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.
Jóh 1:14
Postulinn Jóhannes var sjónarvottur af kraftaverkum Krists, og hér bendir hann á mjög sérstakt atvik, þar sem honum ásamt tveimur öðrum postulum var gefið augnablik til að líta dýrð Jesú Krists. Söguna er að finna m.a. í Lúk 9:28-36. Summan af því sem Jóhannes hefur sagt hingað til ætti að vera augljós: Jesús er í raun ekki bara krúttlegt barn í jötu, heldur Guð sjálfur, skapari himins og jarðar, klæddur holdi. Það er að segja, Guð fæddur sem maður.
Það er svo ótrúlegt og svo yfirnáttúrulegt að það er varla hægt að hugsa sér það. Einmitt þess vegna þarf að segja frá því, og þess vegna skrifaði Jóhannes guðspjall sitt. Og með þessu er okkur mönnunum búinn leið til að nálgast Guð. Því eins og fram kemur í lokaversi þessarar frásagnar í Jóhannesarguðspjalli er óhugsandi fyrir syndugan mann að nálgast Guð og halda lífi. Þess vegna klæddi hann sig holdi og kom til okkar, til að við gætum nálgast hann.
Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.
Jóh 1:18