Skip to content

Prédikun: Kraftur bænarinnar kemur frá þeim sem hana heyrir

Það er til merkis um hversu nákvæmt starf Lúkas hefur unnið þegar hann tók saman guðspjallið, að hann endurtekur ekki bara fyrir okkur þessa dæmisögu, sem Jesús kenndi lærisvenum sínum, heldur segir hann okkur líka tilgang hennar. Jesús hafði verið að tala við lærisveina sína um endurkomu sína, og hvernig sú endurkoma muni verða. Hann skóf ekki ofan af því, að hinir síðustu tímar geti orðið mjög erfiðir. En svo bætir Jesús við þessarri dæmisögu, til þess að minna þá á að þrauka í bænni og þreytast ekki.

Það í sjálfu sér viðurkennir þá staðreynd að bænin sé oft alls ekki auðveld fyrir okkur, og það að biðja getur jafnvel reynst erfið barátta. Ekki bara við allt annað sem vill fanga athygli okkar, heldur við efa og vantrú, tilfinningar sem ekki eru til staðar, þolinmæðina sem stundum er af skornum skammti og það að okkur langi alls ekki til.

I

Réttur aðili

Dæmisagan sem við heyrðum í guðspjalli dagsins, segir frá ekkju sem hefur verið verið beitt einhverskonar órétti. Okkur er ekki sagt hvert óréttlætið er, en fyrst hún kemur til dómarans með það, er augljóst að það hefur varla verið innan ramma laganna. Því miður kemur það í ljós að dómarinn er spillt illmenni sem lætur sér fátt um finnast varðandi vandræði ekkjunnar. Og sama gildir í raun um vandræði nokkurs manns. Hann óttaðist ekki einu sinni Guð.

Engu að síður gefst ekkjan ekki upp. Og við hljótum að spyrja okkur hvernig á því standi.

Hvað var það sem hvatti hana áfram? Gat hún ekki farið eitthvað annað, og fengið einvhern til að hjálpa sér, sem var tilbúinn til þess að gera það sem gera þurfti — jafnvel til að taka lögin í eigin hendur. Og jafnvel þótt það sé reyndar rangt, hlaut það að vera réttlætanlegt í þessum aðstæðum. Og varla myndi dómarinn finna nokkuð að við það hvort sem var, því hann hafði þegar sýnt að honum stóð nákvæmnlega á sama um þetta mál.

En jafnvel þótt að svoleiðis röksemd sé freistandi, þá er hún samt sem áður röng. Og jafnvel þótt ekkjunni hefði kannski heppnast ráðabruggið, þá var það engu að síður rangt. Enda er það ekki þannig sem dæmisagan fer. Ekkja þessi veit hvert hún á að fara.

Dómarinn var maðurinn!

Hann sat í embætti og hafði ekki bara skyldu til, heldur einnig rétta valdið til að rétta hlut hennar. Að hann var gerspilltur breytti ekki þeirri staðreynd að hann var maðurinn með valdið.

Hefði ekkjan beðið til dæmis slátrarann eða kannski vopnaðann veiðimann um að hjálpa sér, þá hefði sagan litið öðruvísi út. Hvorugur þeirra hafði vald eða embætti til, og hvorugur hefði getað hjálpað með löglegum hætti, nema þó með því einu að hjálpa henni að fá áheyrn hjá dómaranum. Hann var rétti aðilinn.

Þess vegna lét hún hann ekki vera í friði, heldur kom hún til hans dag eftir dag og bað hann um að hjálpa sér. Að lokum varð úr að hann hjálpaði henni, ekki vegna þess að honum væri ekki í raun nákvæmnlega sama um hana, heldur til þess að hlífa sjálfum sér og kaupa sér stundarfið.

Augljóslega er tenging dæmisögunnar við bænalíf lærisveina Jesú, alls ekki það að Guð sé óréttlátur eins og spillti dómarinn. Tengingin er fremur sú að að Guð sé rétti aðilinn að beina bænum okkar til. Og gerólíkt dómaranum vonda, stendur Guði alls ekki á sama um okkur, heldur þvert á móti elskar hann okkur, og er þess alltaf viljugur að rétta hlut okkar.

Á svæðinu þar sem ég bý er gefið út dagblað sem segir svæðisbundar fréttir. Fyrir nokkru kom grein um hóp kvenna í bænum okkar. Þessar konur koma saman vikulega til þess að biðja fyrir bænum, fyrir ungmennum og fyrir öðrum sem þarfnast fyrirbænar. Greinin kom bæði í blaðinu og á netinu, og eins og gerist svo oft, létu viðbrögðin ekki á sér standa. Það kom mér þó á óvart hversu neikvæð þau voru. Margir hneyksluðust á því að þessar konur skyldu eyða tíma sínum í svona rugl, og tíma annara með því að láta skrifa um sig. Sumir prédikuðu hátt og skýrt að það væri algerlega gagslaust að vera að því að biðja til einvhers guðs sem ekki er til.

Jafnvel þótt mér hafi fundist þessi viðbröð sorgleg, get ég samt ekki komist hjá því að taka undir innihald þessarra síðustu orða. Því það er virkilega gagslaust að biðja til guða sem ekki eru til, því þeir eru þar af leiðandi algerlega valdalausir. Þá er sama hversu mikil trúin er eða hversu einlæg bænin er. Því bænin ein gerir ekkert. Ef enginn er til staðar sem hlustar á hana og getur svarað henni, er hún bara tóm orð út í loftið. Ekki síður er það gagslaust ef einhver hlustar, en sá sem hlustar er máttlaus og getur ekki hjálpað.

Bænina þarf að bera til þess sem getur hlustað og sem getur hjálpað.

Við einbeitum okkur nú að honum.

II

a. Guð er skaparinn

Í fyrsta lagi er Guð skapari himins og jarðar, eins og við játum saman í trúarjátningunni:

Ég trúi á Guð, Föður almáttugan, skapara himins og jarðar.

Í fræðunum skýrir Lúther þessa grein svohljóðandi:

Ég trúi að Guð hafi skapað mig og alla hluti, hafi gefið mér líkama og sál, augu, eyru og alla limi, skynsemi og öll skilningarvit og haldi því enn við; auk þess klæði og skæði, mat og drykk, hús og heimili, maka og börn, akur, fénað og öll gæði; sjái mér ríkulega og daglega fyrir öllum þörfum og fæðslu þessa líkama og lífs; verndi mig gegn allri hættu, og gæti mín og varðveiti mig frá öllu illu; og allt þetta af einskærri, föðurlegri, guðlegri gæsku og miskunn, án allrar minnar verðskuldunar og tilverknaðar. En fyrir allt þetta ber mér skylda til að þakka honum og vegsama hann, þjóna honum og hlýða. Það er vissulega satt.

Þetta er auðvitað nákvæmnlega það sem ritningin kennir okkur um Guð. Hann er skapari okkar, og ekki bara fjarlægur skapari heimsins og mannkyns, heldur er hann persónulega skapari minn og skapari þinn. Það er líka hann sem gaf manninum ávexti trjánna í aldingarðinum, og síðar einnig veiðileyfi utan aldingarðsins. Það er hann sem gefur árstíðir, regn og sólskin, þannig að jörðin beri ávöxt. Allt þetta gerir hann okkar vegna, af einskærum kærleika sínum til okkar.

En svo meigum við ekki gleyma því hvernig Guð hefur unnið verk sköpunarinnar.

Í Fyrstu Mósebók, fyrsta kafla, lesum við um upphaf sköpunarinnar.​

Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. 2 Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. 3 Guð sagði: „Verði ljós!“ Og það varð ljós.

1 Mós 1:1-3

Guð skapaði heiminn með orði sínu einu. Já, svo algert er vald hans að hann getur mælt eitt orð út í tómið, og tómið sjálft verður að hlýða honum. Hann talaði — og það sem han talaði varð að veruleika. Guð hefur mátt í orðum sínum: Mátt sem er skapandi, þannig að hann býr til þann veruleika sem orðin segja.

Þetta mikla vald, þessi mikli máttur — já þetta almætti Guðs ætti að hvetja okkur til að leita til hans með alla hluti.

b. Guð dæmir himinn og jörð

Í öðru lagi, og einmitt vegna almættis hans, er Guð líka dómari himins og jarðar, og okkur ber að óttast hann.

Hann hefur skapað heiminn, hann heldur honum við, og gagvart honum ber heimurinn ábyrgð. Sá sem eyðileggur eða skemmir sköpun Guðs og gerir gegn vilja hans, sama með hvaða hætti það er gert, þarf að svara honum fyrir. Hér er ekki bara átt við það að við eigum að fara vel með jörðina, heldur vel með þá menn sem hann hefur skapað — sem við við gerum fyrst og fremst með því að lifa eftir vilja Guðs.

Síðustu tvö versin í Prédikaranum segja þessa sögu

Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra. 14 Því að Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.Jesús sjálfur ítrekar með með enn meira ógnvekjandi orðum.

Préd 12:13-14

Í Matt 10:28 segir hann:

Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða, en fá ekki deytt sálina. Hræðist heldur þann, sem megnar að tortíma bæði sálu og líkama í helvíti.

Þetta eru orð Jesú Krists. Hann kennir okkur að óttast Guð, óttast vald hans og óttast dóma hans. Og einnig þetta ætti að hvetja okkur til að leita til Drottins. Því hann er bæði dómari þeirra sem brjóta gegn okkur, og hann er dómari okkar.

c. Almætti Guðs opinberast í Kristi

Í þriðja lagi birtist almætti Guðs í Kristi. Við sjáum aftur og aftur mátt þess Guðs sem mælir eitt orð, og alt gerist samkvæmt því orði.

Jesús var með lærisveinum sínum á bát á Galíleuvatni, þegar skyndilega kom svo mikill stormur að það lá við að báturinn sykki. Jesús stóð upp í bátnum og sagði Þögn!. Þá lægði vindinn og vantið og það kom blankandi logn.

Stuttu síðar dó dóttir forstöðumannsins Jaírusar. Jesús kom til hennar, tók höndina og sagði: “Rís upp!” og hún vaknaði til lífsins.

Enginn skildi þennan veruleika betur enn rómverskur hundraðshöfðingi sem kom til Jesú og bað hann um að lækna þjón sinn sem lá fyrir með miklar kvalir. Jesús sagði stax að hann skyldi koma og lækna þjóninn. Þá svaraði hundraðshöfðinginn:

Herra, ég er ekki verður þess, að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð, og mun sveinn minn heill verða. 9 Því að sjálfur er ég maður, sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum, og ég segi við einn: ,Far þú,’ og hann fer, og við annan: ,Kom þú,’ og hann kemur, og við þjón minn: ,Gjör þetta,’ og hann gjörir það.

Matt 8:8-9

Rétt eins og hundraðshöfðinginn hafði vald til að stjórna þeim hermönnum sem undir honum voru, hefur Jesús vald til að stjórna gangi himins og jarðar. Hann hefur vald skaparans, þ.e.a.s. Hann hefur vald almættisins.

d. Hann býður okkur að leita til sín

Í fjórða lagi, og að lokum, er það þessi, hinn sami Kristur sem segir okkur að óttast ekki, heldur leita til Guðs með alla hluti í bæn. Og ekki bara að reyna bænina, heldur biðja stöðugt og þreytast ekki.

Hvernig má það vera? Vorum við ekki einmitt að lesa það að Jesús kennir okkur að óttast Guð, sem getur tortímt bæði líkama og sál í víti? Ættum við ekki frekar að forðast hann? Jú, sannarlega er dómur Guðs ótta verður, en á sama tíma er það Kristur sem kennir okkur að óttast samt ekki. Því Kristur hefur gengið á milli, og krefst þess eins að við treystum því.

Ógnunin um dóm Guðs, er þess vegna dómur sem kemur niður á Kristi sjálfum, en ekki á okkur. Rétt eins og hann skapaði heiminn, lægði storminn, læknaði sjúka og reisti dauða með orði sínu, gengur hann í okkar stað með orði sínu. Hann segir: Syndir þínar eru fyrirgefnar. Hann segir: Friður sé með þér. Hann segir: Í dag skaltu vera með mér í paradís.

Og fyrst Kristur þannig gengur í okkar stað, fáum við að ganga í hans stað. Við göngum í stað hans sem er sonur Guðs. Og þar með er okkur gefinn réttur til þess að vera Guðs börn, og ennfremur að biðja til Föður okkar á himnum. Hann kennir okkur sjálfur orðin sem við eigum að nota:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.

Hvað er það? Svar:

Guð vill með því laða oss til að trúa því, að hann sé vor sanni faðir og vér hans sönnu börn, til þess að vér skulum biðja hann örugg og með fullu trausti sem elskuleg börn sinn elskulega föður.

Lokaorð

Ekkjan þreyttist ekki, því óréttláti dómarinn hafði vald til að hjálpa henni.

Að sama skapi býður Kristur okkur að þreytast ekki í bæn okkar til Guðs. Og hann gefur okkur góðar ástæður fyrir því. Hann er sá sem ekki bara hefur mikið vald, heldur er han almáttugur. Enginn er honum æðri. Enginn getur gert neitt, án þess að hann leyfi það. Og hann getur snúið öllu á eftir til betri vegar.

Það er ekki furða að við endum bæn Drottins á orðunum: Því þitt er ríkið, máttinn og dýrðin.

Þar að auki fullvissar Jesús okkur um að við munum í bæninni mæta þeim Guði sem vill okkur vel, sem elskar okkur sem börn, og þráir að rétta hlut okkar. Hann hefur sjálfur séð til þessa, þegar hann lét líf sitt á krossinum okkar vegna.

Að beina bænum okkar annað, eða þá að hætta að biðja, væri vitfirra. Því hann er ekki bara almáttugur, heldur er hann góður og miskunnsamur Guð. Hann mun svara hverjum þeim sem leitar til hans og treystir honum.

Dýrð sé Guði, Föður og Syni og Heilögum Anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.