Skip to content

Ritningarstaðir um skírnina

Þetta er sennilega elsta afmyndun af kristilegri skírn. Myndin er freska, máluð á vegg í rómverskrar katakombu á 4. öld. Hún sýnir skírn þar sem skírnarþeginn stendur ökkladjúpu vatni sem er ausið yfir höfuð hans.

Besta leiðin til að læra kristilega kenningu um skírnina er að skoða ritningarstaðina eins og þeir koma fram í Biblíunni. Hér kemur yfirlit yfir helstu ritningarstaði. Við byrjum á skírnarskipuninni sjálfri, skoðum svo beina kennslu um skírnina, þá óbeina kennslu gegnum fyrirmyndir og tengd efni. Þá skoðum við frásagnir af skírn í guðspjöllunum og postulasögunni, áður en við kíkjum á aðra þætti.

Skírnarskipunin

Við skírum ekki til að herma eftir postulunum, heldur vegna þess að Jesús hefur skipað kirkju sinni að skíra. Þess vegna byrjum við alltaf á skírnarskipuninni. Hún segir að skíra skuli í nafni föður, sonar og heilags anda.

Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.
Matt 28:16-20

Farið út um allan heim, og prédikið fagnaðarerindið öllu mannkyni. Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki, mun fyrirdæmdur verða. . .
Mark 16:15-16

Bein kennsla

Nýja testamentið hefur ýmsa ritnignarstaði sem tala beint um skírnina, hvað hún er og hvað hún gerir. Enn fremur gefur Nýja testamentið okkur skýringar á því hvers vegna skírn er nauðsynleg.

Vegna þess að allt sem fæðist af holdi er hold, er nauðsynlegt að fæðast að nýju – að ofan – af vatni og anda. Þetta á sér stað í skírninni:

. . . Jesús svaraði honum: „Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju. . . . Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda. Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.
Jóh 3:1-6

Skírnin veldur fyrirgefningu syndanna og hefur í för með sér fyrirheit til þess sem er skírður

Gjörið iðrun og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar; þá munuð þér öðlast að gjöf heilagan anda. Því að yður er ætlað fyrirheitið, börnum yðar og öllum þeim, sem í fjarlægð eru, öllum þeim, sem Drottinn Guð vor kallar til sín.
Post 2:38-39

Skírn Páls postula. Mósaík í Palatínukapellunni á Sikiley.
Ljósmyndari: Gmihail á Wikimedia Commons.

Skírnin þvær burt syndir

Hvað dvelur þig nú? Rís upp, ákalla nafn hans og lát skírast og laugast af syndum þínum.
Post 22:16

Skírnin er tenging við Krist í dauða hans og upprisu. Því er skírnin endurfæðing.

Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans? Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins. Því að ef vér erum orðnir samgrónir honum í líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það í líkingu upprisu hans.
Róm 6:3-5

Í honum eruð þér einnig umskornir þeirri umskurn, sem ekki er með höndum gjörð, heldur með umskurn Krists, við að afklæðast hinum synduga líkama, þegar þér voruð greftraðir með Kristi í skírninni. Í skírninni voruð þér einnig með honum uppvaktir fyrir trúna á mátt Guðs, er vakti hann upp frá dauðum. Þér voruð dauðir sökum afbrota yðar og umskurnarleysis. En Guð lífgaði yður ásamt honum, þegar hann fyrirgaf oss öll afbrotin.
Kól 2:11–13

Því má kalla skírnina að vera «íklæddur Kristi» Gal 3:27. Þetta, ásamt Opb. 6:11 og 7:9–17 , er hin tákræna merking hvítu klæðana sem notuð eru við skírn, fermingu og í messum almennt.

Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi
Gal 3:27

Og þeir syngja nýjan söng: Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð. . . Og þeim var fengin, hverjum og einum, hvít skikkja. . . Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum, og höfðu pálmagreinar í höndum.
Opb 5:9, 6:11 og 7:9

Skírnin ber með sér einingu í Kristi

Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.
1 Kor 12:13

Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.
Efes 4:3-6

Skírnin er endurfæðing:

. . .þá frelsaði hann oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og heilagur andi gjörir oss nýja. Hann úthellti anda sínum yfir oss ríkulega fyrir Jesú Krist, frelsara vorn, til þess að vér, réttlættir fyrir náð hans, yrðum í voninni erfingjar eilífs lífs.
Tít 3:5-5

Skírnin frelsar (1 Pét 3:18-22, tilvitnun neðar í þessu skjali) Skírnin er hliðstæð fyrirheiti Guðs til Abrahams, einhliða sáttmáli sem samanstendur af fyrirheiti Guðs.

Óbein kennsla: Fyrirmyndir

Í fyrstu mósebók, köflum 6–9 er sagt frá Nóa og syndafljóðinu. Pétur postuli túlkar þessa sögu í fyrra almenna bréfi sínu, og bendir á hliðstæðuna í skírninni, sem frelsar okkur.

Kristur dó í eitt skipti fyrir öll fyrir syndir, réttlátur fyrir rangláta, til þess að hann gæti leitt yður til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til, en lifandi gjörður í anda. Í andanum fór hann einnig og prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists, sem uppstiginn til himna, situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
1 Pét 3:18-22

Umskurn karlmanna er fyrst nefnd í 17. kafla fyrstu mósebókar, versum 9–14. Það var ævinlegur sáttmáli milli Guðs og Abrahams, sem og afkomenda hans. Þessi sáttmáli er fyrirmynd skírnarinnar:

Í honum eruð þér einnig umskornir þeirri umskurn, sem ekki er með höndum gjörð, heldur með umskurn Krists, við að afklæðast hinum synduga líkama, þegar þér voruð greftraðir með Kristi í skírninni. Í skírninni voruð þér einnig með honum uppvaktir fyrir trúna á mátt Guðs, er vakti hann upp frá dauðum.
Kól 2:11f

Í fyrra Korintubréfi líkir Páll postuli skírninni við gönguna gegnum Rauðahafið, og vatnið úr klettinum. Áfram nefnir hann ýmsa atburði á tíma eyðimerkurgöngunnar, 2.-5. Mósebók.

Ég vil ekki, bræður, að yður skuli vera ókunnugt um það, að feður vorir voru allir undir skýinu og fóru allir yfir um hafið. Allir voru skírðir til Móse í skýinu og hafinu. Allir neyttu hinnar sömu andlegu fæðu og drukku allir hinn sama andlega drykk. Þeir drukku af hinum andlega kletti, sem fylgdi þeim. Kletturinn var Kristur.
1 Kor 10:1-4

Sýrlenski hershöfðinginn Naman hlaut lækningu á húðsjúkdómi sínum, þegar hann, samkvæmt fyrirheiti Guðs, laugaðist sjö sinnum í Jórdaná. Eins kallar Páll Postuli skírnina hreinsun í laug vatnsins, með orði:

Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði. . . Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna.
Efes 5:25–26, 32

Óbein kennsla: Hliðstæður og tengd efni

Jesús tekur að sér börnin og varnar þeim ekki. Því væri rangt fyrir kirkjuna að varna börnunum að skírast.

Menn færðu börn til hans, að hann snerti þau, en lærisveinarnir átöldu þá. Þegar Jesús sá það, sárnaði honum, og hann mælti við þá: „Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki. Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.“ Og hann tók þau sér í faðm, lagði hendur yfir þau og blessaði þau.
Mark 10:13–16

Kenningin um erfðasyndina er grundvallaratriði fyrir réttan skilning á skírninni.

Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.
Jóh 3:6

Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda, sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa. Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.
Efes 2:1-3

Jesus kallar dauða sinn og upprisu skírn. Þetta er grundvöllurinn sem kristileg skírn byggir á

Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.
Lúk 12:50

Frásagnir af skírn í guðspjöllunum og postulasögunni

Jóhannes skírari skírði alla þá sem komu til Jórdanár og játuðu syndir sínar. Skírnin var „iðrunarskírn til fyrirgefningar synda“ (Mark 1:4; Lúk 3:3; 7:29–30)

Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda, og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.
Mark 1:4-5

Jesú Kristur skírður af Jóhannesi skírara

Jesús var skírður Matt 3:13–17, Mark 1:9, Luk 3:21–22

Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og var skírður af Jóhannesi í Jórda
Mark 1:9

Jóhannes gerir skýran greinarmun á sinni skírn og skírn Jesú. Mk 1:8; Matt 3:11;Joh 1:25–27

Ég skíri yður með vatni til iðrunar, en sá sem kemur eftir mig, er mér máttugri, og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.
Matt 3:11

Postular Jesú skírðu jafnvel fyrir skírnarskipunina.

Eftir þetta fór Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði. . . Er Jesús varð þess vís, að farísear hefðu heyrt, að hann fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes, – reyndar skírði Jesús ekki sjálfur, heldur lærisveinar hans
Jóh 3:22, 4:1–2

Á hvítasunnudag voru 3000 manns skírðir í Jerúsalem.

En þeir, sem veittu orði hans viðtöku, voru skírðir, og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir.
Post 2:41

Samverjar létu skírast eftir að þeir heyrðu prédikun fagnaðarerindisins. Við handayfirlagningu fengu þeir heilagan anda, til staðfestingar. (Nánar um hugtakið „Skírn til nafns Drottins Jesú“ neðar í þessu skjali)

Nú trúðu menn Filippusi, þegar hann flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki og nafn Jesú Krists, og létu skírast, bæði karlar og konur. . . enn var hann ekki kominn yfir neinn þeirra. Þeir voru aðeins skírðir til nafns Drottins Jesú. Nú lögðu þeir hendur yfir þá, og fengu þeir heilagan anda.
Post 8:12, 16–17

Filippus skírir hirðmanninn frá Eþíópíu. Olíumálverk eftir Rembrant.

Hirðmaðurinn frá Etþíópíu var skírður eftir að hafa rætt við Filippus (Post 8:36–38). Sum handrit af postulasögunni bæta inn þessum orðum: „Filippus sagði: Ef þú trúir af öllu hjarta, er það heimilt. Hirðmaðurinn svaraði honum: Ég trúi, að Jesús Kristur sé sonur Guðs.“ Þessi orð spegla sennilega helgisiðum frumkirkjunnar.

Páll postuli var skírður í Post 9:18; og segir frá því aftur síðar, í 22:16

Jafnskjótt var sem hreistur félli af augum hans, hann fékk aftur sjónina og lét þegar skírast
Post 9:18

Hvað dvelur þig nú? Rís upp, ákalla nafn hans og lát skírast og laugast af syndum þínum.
Post 22:16

Heiðingjarnir í húsi Kornelíusar voru skírðir eftir að hafa tekið við gjöf Heilags anda. Þessi saga er svo mikilvægt að hún er endurtekin í kafla 11, og aftur vísað í hana í kafla 15, vegna þess að hún staðfestir að kristileg skírn er ekki einungis fyrir gyðinga, heldur allar þjóðir.

Þá mælti Pétur: „Hver getur varnað þess, að þeir verði skírðir í vatni? Þeir hafa fengið heilagan anda sem vér.“ Og hann bauð, að þeir skyldu skírðir verða í nafni Jesú Krists. Síðan báðu þeir hann að standa við í nokkra daga.
Post 10:47–48

Í næsta kafla segir Pétur frá:

En þegar ég var farinn að tala, kom heilagur andi yfir þá, eins og yfir oss í upphafi. Ég minntist þá orða Drottins, er hann sagði: ,Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda.’ Fyrst Guð gaf þeim nú sömu gjöf og oss, er vér tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?“ Þegar þeir heyrðu þetta, stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs.“
Post 11:15–18

„Útikapella“ utanvið bæinn Filippí, á þeim stað þar sem talið er að Lydía hafi verið skírð.
Ljósmynd: Ian W. Scott

Verslunarkonan Lýdía frá Þýatíruborg í Litlu-Asíu heyrði boðun Páls postula í Filippí í Makedóníu. Hún tók trú og var skírð ásamt öllu húsi sínu. Síðar í sama kafla Postulasögunnar er sagt frá fangaverði nokkrum í Filippí sem einnig var skírður ásamt öllu húsi sínu. Það má ætla að hér hafi öll fjölskyldan verið skírð, bæði ungir og aldnir.

Kona nokkur guðrækin úr Þýatíruborg, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar, og hún tók við því, sem Páll sagði. Hún var skírð og heimili hennar . . .
Á þessari sömu næturstund tók [fangavörðurinn] þá með sér og laugaði meiðsli þeirra eftir höggin, og var hann þegar skírður og allt hans fólk.
Post 16:14-15, 33.

Samkundustjórinn Krispus í Korintu var skírður eftir að hann komst til trúar

Krispus samkundustjóri tók trú á Drottin og allt heimili hans, og margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast.
Post 18:8

Um tólf lærisveinar voru skírðir í Efesus. Þeir höfðu áður verið skírðir með skírn, sem þeir töldu vera skírn Jóhannesar. Ef svo var, var það þó einkennilegt að þeir höfðu aldrei heyrt um heilagan anda. Jóhannes benti fólki nefnilega á að trúa á þann sem eftir kæmi, sem skíra myndi með vatni og anda. Það bendir því til þess að þessir menn voru alls ekki skírðir með skírn Jóhannesar. Þetta skýrist ennfremur þegar litið er á gyðinginn Apollós frá Alexandríu, sem var brennandi í Heilögum Anda, jafnvel þótt hann hefði einungis verið skírður með skírn Jóhannesar.

Þó ber að benda á að kirkjunni ber að skíra með þeirri skírn sem Jesús skipaði henni, þ.e. í nafni Föður, Sonar og Heilags Anda. Nánar um hugtakið „Skírn í nafni Jesú Krists“ rétt fyrir neðan.

En Gyðingur nokkur, Apollós að nafni, ættaður frá Alexandríu, kom til Efesus. Hann var maður vel máli farinn og fær í ritningunum. Hann hafði verið fræddur um veg Drottins, og brennandi í andanum talaði hann og kenndi kostgæfilega um Jesú. Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar.
Post 18:24-25

Meðan Apollós var í Korintu, fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina. Hann sagði við þá: „Fenguð þér heilagan anda, er þér tókuð trú?“ Þeir svöruðu: „Nei, vér höfum ekki einu sinni heyrt, að heilagur andi sé til.“ Hann sagði: „Upp á hvað eruð þér þá skírðir?“ Þeir sögðu: „Skírn Jóhannesar.“ Þá mælti Páll: „Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði lýðnum að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesú.“ Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú. Er Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom heilagur andi yfir þá, og þeir töluðu tungum og spáðu. Þessir menn voru alls um tólf.
Post 19:1-5

Skírn „í nafni Jesú Krists“

Á nokkrum stöðum í postulasögunni er minnst á skírn í nafni Jesú Krists. Sumir hafa talið að hér sé um aðra skírn að ræða, en þá sem Jesús sjálfur skipar fyrir um. Aðrir hafa skipt skírninni í tvennt, og talið að skírn í nafni Jesú komi fyrst, og síðar komi skírn Heilags anda.

Tilvitnarnir í 18. og 19. kafla Postulasögunnar sýna þó vel að ekki er þörf fyrir slíkar skýringar. Þegar talað er um skírn í nafni Jesú, er það einfaldlega til að gera greinarmun á kristinni skírn og annarri skírn, t.d. skírn Jóhannesar eða mikve-laug sem gyðingar notuðu til að skíra heiðingja sem tóku gyðingatrú.

Kenniritið Didache, sem er skrifað stuttu eftir ritun nýja testamentisins, sýnir að kristnir menn töluðu um skírnina með þessum hætti. Þegar minnst er á skírn í sambandi við altarissakramentið, er einfaldlega skrifað:

En eigi eti né drekki neinn þakkargjörðarmáltíðar yðar, nema þeir sem skírðir eru í nafni Drottins.
Didache 9:5

Stuttu á undan er hinsvegar talað um hvernig eigi að framkvæma skírn. Þar er skrifað:

Og hvað varðar skírnina, þá skírið þannig: Þegar þér hafið fyrst sagt allt þetta, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, með rennandi vatni.
Didache 7:1

Tags: