Skip to content

Upphaf þáttar

Sunnudagurinn kemur er annar sunnudagur í níuvikna föstu og er áhersla á sáðkornið í líkingum Krists, sem er einmitt orð Guðs. Þess vegna á það vel við að dagurinn er einnig þekktur sem Biblíudagurinn. Kirkjur landsins verða skreyttar með grænum lit.

Við ætlum að lesa ritningarlestrana og tala aðeins um það samhengi sem þeir standa í. Stundum er talað um þrjár megin reglur fyrir góðan Biblíuskilning, og fyrsta reglan er þá að huga að samhenginu. Önnur reglan er að huga að samhenginu og sú þriðja að huga að samhenginu. Það ætti sem sagt að vera eitthvað sem við gerum alveg sjálfvirkt.

Þess vegna, ef einhver vitnar í ritninguna, og þér finnst tilvitninin, eða notkun hennar hljóma furðulega eða ókunnulega, spurðu um það í hvaða bók, kafla og vers er verið að vitna. Vonandi færðu þá allmenilegt svar. Þá flettir þú opp á versinu, ferð aftur að næstu fyrirsögn á undan og lest þaðan. Það er allavega góð byrjun.

Textarnir sem við lesum í dag eru nokkuð lengri, og þá fylgir meira af samhenginu með. Þannig að það sem ég hef gert í þessum þáttum er að líta á stærri hluta bókarinnar, eða jafnvel bókina alla, og reyna að staðsetja textan í þessu stærra samhengi. Þá byrjum við á því að skoða spámanninn Jesaja.

Áður en við höldum í Jesajabók, les ég kollektuna sunnudagsins úr Handbók íslensku þjóðkirkjunnar frá árinu 1910. (Tvítölu breytt):

Drottinn, Guð, himneski faðir! Við þökkum þér að þú fyrir son þinn Jesú Kristst, hefur sáð þínu heilaga orði meðal okkar. Undirbú þú svo hjörtu okkar, að við hlýðum orði þínu með athygli og guðræknum huga, geymum það í góðu og siðsömu hjarta og berum ávöxt með stöuglyndi. Bænheyr okkur fyrir son þinn Jesú Krist, Drottinn vorn, sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir, sannur Guð um aldir alda. Amen!

Fyrri ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur er að finna hjá spámanninum Jesaja, kafla 55, versum 6-11.

Jesajabók er skrifuð af Jesaja spámanni, á þeim tíma þegar Ísraelsþjóð var klofin í norðurríkið ísrael og suðurríkið Júda. Jesaja var kallaður það árið sem Ússía konungur í suðurríkinu andaðist þ.e. einhverstaðar í kringum 740 f.Kr. Hann upplifði í það minnsta fjóra aðra konunga á eftir honum, og varð vitni að falli norðurríksinss og þar á eftir að umsátri Sankeríbs Assýríukonungs um Jerúsalem.

Í köllunarsögu hans kemur fram að hann gerði sér vel grein fyrir því að hann var syndugur, sem og þjóðin hans. Í Jesajabók er að finna marga texta sem ekki bara dæma Ísarelsþjóð, heldur einnig þjóðirnar í kring, og kalla þær til iðrunar. Jesaja segir fyrir um herleiðinguna til Babylon, en stoppar ekki þar. Hann horfir lengra, og sgir frá endi hennar líka. Kýrus, persakonungur, sem sendir hina herleiddu heim, er meira að segja nefndur á nafn, og nefndur hinn surði Drottins (Jes 45:1).

Svo er það Jesajabók sem inniheldur marga af þeim köflum sem við þekkjum best sem spádóma um komu Krists. Bókin er nefnilega full af vitnisburði um Krist, sem vil könnumst vel við í hinum mörgu tilvitnunum í Nýja testamentinu. Hugsið ykkur hvað það er yndislegt að Guð sagði fyrir um áætlanir sínar, jafnvel í smáatriðum, milli 7 og 800 árum áður en hann framkvæmdi þær.

Í 55. kafla talar Jesaja um hinn nýja sáttmála í Kristi, sem blessa mun allar þjóðir. Í því samhengi lesum við fyrri ritningarlesturinn:

6 Leitið Drottins, meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur! 7 Hinn óguðlegi láti af breytni sinni og illvirkinn af vélráðum sínum og snúi sér til Drottins, þá mun hann miskunna honum, til Guðs vors, því að hann fyrirgefur ríkulega. 8 Já, mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir, og yðar vegir ekki mínir vegir – segir Drottinn. 9 Heldur svo miklu sem himinninn er hærri en jörðin, svo miklu hærri eru mínir vegir yðar vegum og mínar hugsanir yðar hugsunum. 10 Því eins og regn og snjór fellur af himni ofan og hverfur eigi þangað aftur, fyrr en það hefir vökvað jörðina, gjört hana frjósama og gróandi og gefið sáðmanninum sæði og brauð þeim er eta, 11 eins er því farið með mitt orð, það er útgengur af mínum munni: Það hverfur ekki aftur til mín við svo búið, eigi fyrr en það hefir framkvæmt það, sem mér vel líkar, og komið því til vegar, er ég fól því að framkvæma.

Jes 55:6-11

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Takið eftir því hvernig talað er um orð Guðs í þessum texta. Það ereins og regn sem vökvar jörðina og gerir hana frjósama og gróandi, og gefur sáðmanninum sæði að sá. Án regns og án vatns þornar jörðin skrænar, og ekkert getur lifað á henni. Vatnið er það sem gefur jörðinni líf.

Eins er það Guð sem í upphafi sem skapaði himinn og jörð, sem og vatnið, og lét það rigna á jörðina. Það gerði Guð með orði sínu. Guð talaði og það varð svo. Eins sjáum við hið sama eiga sér stað í nýja testamentinu, til dæmis þegar Jesús hastar á vindin og vatnið og það lognast útaf og þagnar. “Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans” (Heb 4:12)

Orð Guðs mun ekki aftur snúa fyrr en það hefur unnið það verk sem það á að vinna. Það ber með sér mátt hans. Þar að auki talar Jóhannesarguðspjall sérstaklega um Krist sem orð Guðs, og vel getur verið að þessi orð tali einmitt um hann. (Jóh 1:1-3)

Guð mun senda son sinn eingetinn í heiminn, og hann mun ekki snúa aftur til himins fyrr en hann hefur unnið það verk sem Faðirinn fól honum, þ.e. að bera burtu syndir heimsins. (Jóh 3:16; Jóh 1:29)

Síðari ritningarlestur

Síðari ritningarlestur er að finna í öðru tímóteusarbréfi, kafla 3, versum 14-17. Það er Páll postuli sem skrifar til Tímóteusar. Páll kynntist Tímóteusi fyrst í Galatalandi á annari kristniboðsferð sinni. Móðir Tímóteusar var gyðingur, en faðir hans grískur, og sennilega ekki sérstaklega mikill trúmaður. Allavega kemur það fram í Postulasögunni, kafla 16, að Tímóteus ekki umskorinn sem barn að hætti gyðinga. Samt sem áður er augljóst að bæði Evnike móðir hans, og Lóis amma hans hafa kennt honum að trúa, að þekkja ritningarnar og að vænta komu frelsarans (Act 16:1-3; 2 Tim 1:3-4). Síðan er það Páll sem hefur kennt honum sérstaklega um Krist, og því næst tekið hann með sér sem samverkamann og urðu þeir með tímanum mjög nánir.

Í lok þriðju kristniboðsferðar er Tímóteus í för með Páli þegar Páll vígir það sem virðast vera fyrstu öldungarnir þ.e.a.s. prestar til safnaðanna í Efesus. Hvort að Tímóteus svo hafi orðið eftir í Efesus á þeim tíma, eða að komið aftur þangað síðar í fjórðu ferð er erfitt að greina frá textum nýja testamentisins, en ljóst er frá fyrra Tímóteusarbréfi að Páll lét hann verða þar eftir til að hafa ákveðið eftirlit með söfnuðunum þar og koma í veg fyrir villukenningar. Hann hefur sem sagt unnið nokkurskonar biskupasatarf, og getur þess sagnfræðingurinn Evsebíus á 4. öld, að hann hafi einmitt verið það (Kirkjusaga, 3. bók, 4. kafli https://www.ccel.org/ccel/schaff/npnf201.iii.viii.iv.html).

Bæði fyrra og síðara Tímóteusarbréf áttu að aðstoða Tímóteus í þessu starfi, og lýsa ýmsum hliðum við það að leiða söfnuð Guðs. Síðara bréfið er nokkuð persónulegra og ber þess merki að Páll í fangelsi, og hann væntir þess að hann muni láta lífið þar.

Í þriðja kafla varar Páll við því að á síðustu tímum munu koma prédikarar og fræðimenn sem hafa yfirskin guðhræðslu en afneita krafti hennar. Um er að ræða fallsspámenn og villukennara. Gegn þessum mönnum er Tímóteus hvattur til að halda sig við sannleikan, í kærleika til náungans, jafnvel þótt það geti orðið honum dýrkeypt. En hvernig á Tímóteus að greina rétt frá röngu? Því svarar Páll í ritningarlestrinum:

14 En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. 15 Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú. 16 Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, 17 til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.

2 Tím 3:14-17

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Páll bendir Tímóteusi á ritningarnar sem amma hans og móðir hafa kennt honum, og hann hlýtur þá að hafa þurft að læra mikið utanbókar, enda ekki mögulegt að nálgast ritningarnar til eigin eignar á þeim tíma. Hér er verið að tala séstakelega um gamla testamentið, og það veitir speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist — athugið það. Það er alveg eins og þegar við vorum að lesa úr Jesajabók núna áðan: Sá texti fjallar einmitt um Krist.

Hvernig má það vera að texti í gamla testamentinu, geti talað í smáatriðum um atburði sem áttu sér stað 700 árum síðar. Páll svarar því líka í þessum orðum: “Sérhver ritning er innblásin af Guði.” Hér er ekki átt við innblástur eins og listamaður talar um, heldu um að ritningin sé andadráttur Guðs. Guð er uppspretta ritningarinnar og höfundur. Það breytist ekki þótt svo að Guð hafi látið venjulega menn skrifa ritninguna niður. Hún er samt sem áður orð hans, og fyrir þetta orð kemur trúin á Krist, sem veitir eilífa sáluhjálp.

Og þá er komið að því að taka aftur pínulítið hlé, áður en við höldum áfram með Guðspjallið, Í Lúkasarguðspjalli, kafla 8.

Guðspjall

Guðspjall annars sunnudags í níuviknaföstu er að finna í Lúkasarguðspjalli, 8. kafla, verum 4-15, og hljómar þannig:

4 Nú var mikill fjöldi saman kominn, og menn komu til hans úr hverri borg af annarri. Þá sagði hann þessa dæmisögu: 5 „Sáðmaður gekk út að sá sæði sínu. Og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni og varð fótum troðið, og fuglar himins átu það upp. 6 Sumt féll á klöpp. Það spratt, en skrælnaði, af því að það hafði ekki raka. 7 Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir spruttu einnig og kæfðu það. 8 En sumt féll í góða jörð, óx upp og bar hundraðfaldan ávöxt.“ Að svo mæltu hrópaði hann: „Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.“ 9 En lærisveinar hans spurðu hann, hvað þessi dæmisaga þýddi. 10 Hann sagði: „Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, ,að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.’ 11 En dæmisagan þýðir þetta: Sæðið er Guðs orð. 12 Það er féll hjá götunni, merkir þá, sem heyra orðið, en síðan kemur djöfullinn og tekur það burt úr hjarta þeirra, til þess að þeir trúi ekki og verði hólpnir. 13 Það er féll á klöppina, merkir þá, sem taka orðinu með fögnuði, er þeir heyra það, en hafa enga rótfestu. Þeir trúa um stund, en falla frá á reynslutíma. 14 Það er féll meðal þyrna, merkir þá er heyra, en kafna síðan undir áhyggjum, auðæfum og nautnum lífsins og bera ekki þroskaðan ávöxt. 15 En það er féll í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið og geyma það í göfugu, góðu hjarta og bera ávöxt með stöðuglyndi.

Lúk 8:4-15

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Nú höfum við hlustað á eina þekktustu dæmisögu Krists, þ.e. dæmisöguna um sáðmannin. Síðan kemur smá skýring á því hvers vegna Jesús talar í dæmisögum og að lokum útskýring dæmisögunnar. Við skulum því skoða fyrst hvað það merkir sem Jesús segir í versi 10:

10 Hann sagði: „Yður er gefið að þekkja leynda dóma Guðs ríkis, hinir fá þá í dæmisögum, ,að sjáandi sjái þeir ekki og heyrandi skilji þeir ekki.’

Lúk 8:10

Það er algeng hugsun að Jesús hafi kennt í dæmisögum til þess að gera hlustendum auðveldara fyrir að skilja flókna leyndardóma og það sem erfitt er að útskýra með góðu móti. Eða jafnvel til að gefa nokkurskonar sýnidæmi um það sem hann annars kenndi. En þegar við lesum þetta vers, og hliðstæða versið í Matt 13:11, sjáum við að málið er ekki alveg svona einfalt.

Jesús skiptir heiminum upp í tvo hópa: Annars vegar þá sem gefið er að skilja leyndardóma ríkis Guðs, og hins vegar alla aðra. Það eru þeir sem trúa á Krist sem gefinn er þessi skilningur, og öðrum ekki. Sagt með öðru móti er ekki hægt að skilja dæmisögur Krists án þess að trúa á hann. Sá sem ekki trúir, skilur ekki þótt hann heyri, og sér ekki þótt hann sjái. Hann verður blindur fyrir því sem er beint fyrir framan hann. Dæmisögurnar allmennt hafa því tvennan tilgang: Þær fela fyrir þeim sem ekki trúa og opinbera fyrir þeim sem trúa.

Og það tengist tilgangi þessarar tilteknu dæmisögu. Því Jesús talar um sæðið sem sáðmaðurinn sáðir. Það er orð Guðs, og því er sáð allstaðar, rétt eins og allir fengu að heyra dæmisögurnar. Þessi tiltekni sáðmaður kastar ekki bara korninu í góðu jörðina, heldur dreyfir því líka á götuna, í grýtta jörð eða jafnvel beint á klöppina, og kastar því inn í þyrnirunna. Það fellur alls staðar.

Eins á að prédika fagnaðarerindið um allan heiminn, til allra manna og kvenna, til ungra og aldna; einnig til þeira sem ekki eiga eftir að endast í trúnni á Krist. Margir afneita strax orði Guðs. Og óvinurinn stelur því úr hjarta þeirra. Sumir hlusta um tíma, og eignast jafnvel trú, en festa aldrei rætur. Fyrir því geta auðvitað verið ýmsar ástæður, til dæmis að þeir vilji ekki “láta af óguðlegri breytni” eins og fyrri ritningarlestur kallaði eftir. Hvað sem því nú veldur, fölar trúin fljótt og hverfur. Sjálfur hef ég allt of oft orðið vitni af þessari sorgarsögu. Enn eru sumir sem láta aðra hluti taka alla þeirra athygli, og kæfa trúna að lokum.

En síðan koma góðu fréttirnar að lokum. Sumt af korninu féll í góða jörð, óx up og bar hundraðfaldan ávöxt. Það er ekki til nein korntegund sem ber það mikinn ávöxt, þannig að hér er greinilega um kraftaverk að ræða. Eins er það þegar við tökum við orði Guðs, og geymum það í hjarta okkar, þá er það orðið sjálft sem vinnur sitt verk og ber ávöxt.

Þess vegna, þegar við heyrum orð Guðs lesið og talað skulum við taka við því. Því Guð hefur sjálfur lofað að orð hans muni ekki snúa aftur tómt. Eins og kornið sem lendir á jörðinni og verður að axi, er finnur orð Guðs hjörtu okkar, vex og verður að trú á Krist. Eins og vatnið sem vökvar jörðina, nærir orðið trúna og styrkir hana. Og í trúnni á Krist eigum við eilíft hjálpræði.

Þáttarlok

Og hér setum við strikið í dag. Ég þakka ykkur fyrir samfylgdina og vona að þátturinn verði ykkur til gagns og uppbyggingar, og ekki síst góður undirbúningur fyrir messu á sunnudag. Verið þið sæl.