Skip to content

Þriðja sunnudag í föstu verða kirkjur landsins skreyttar með fjólubláum lit, til merkis um iðrun, föstu og undirbúning. Eins og fyrri vikur, lesum við ritningarlestrana og tölum aðeins um það samhengi sem þeir standa í.

Fyrri ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur er að finna í spádómsbók Sakaría. Ásamt spámönnunum Haggaí og Malakí talar hann til gyðinganna sem héldu úr útlegðinni í Babylon og aftur til fyrirheitna landsins. Hann talar með huggunarorðum og leiðbeiningum, sem og dómsorðum yfir óvinum þeirra. Bókin er full af huggun og von fyrir hinna herleiddu sem halda heim og komnir eru heim. Bókin ítrekar að nú sé tíminn kominn til að snúa sér aftur til Drottins.

Sakaríabók horfir einnig framávið til hinna síðustu tíma, og notar ítrekað hugtakið á þeim degi, og þá sérstaklega í síðustu þremur köflum bókarinnar, þ.e. 12.-14. kafla. Ennfremur heldur Sakaríabók í vonina um komu hins smurða, þ.e.a.s hins krýnda Messíasar. Bókin kallar hann þjón Guðs, sem og kvist, og er þá átt við rótarkvist Ísaí, þ.e.a.s mann af ætt og kyni Davíðs konungs, en Davíð var sonur Ísaí. Að þessu leyti minnumst við orðanna úr Jesaja 53, versi 2, sem lýsir hinum líðandi þjóni Guðs svona: “Hann rann upp eins og viðarteinungur fyrir augliti hans og sem rótarkvistur úr þurri jörð.” Það ætti þá heldur ekki að koma á óvart að mikið er vitnað í Sakaríabók í nýja testamentinu.

En aftur að Sakaríabók. 12. kafli talar um framtíð Jerúsalem á þeim degi. Fyrri hluti kaflans segir frá ytri aðstæðum, en 9. vers beinir svo sjónum innávið, á aðstæður þjóðarinnar sjálfrar. Í 9. versi heitir Drottinn því að hann muni sækjast eftir sigri gegn óvinum þjóðarinnar. Tíunda vers er svo fyrri ritningarlestur sunnudagsins kemur. Það er bara þetta eina vers, og við skululm lesa það núna.

Fyrri ritningarlesturinn, úr Sakaríabók, kafla 12, versi 10, hljómar svo:

10 En yfir Davíðs hús og yfir Jerúsalembúa úthelli ég líknar- og bænaranda, og þeir munu líta til mín, til hans, sem þeir lögðu í gegn, og harma hann eins og menn harma lát einkasonar, og syrgja hann eins og menn syrgja frumgetinn son.

Sakaría 12:10

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Einhver hefur verið tekinn af lífi á sama tíma og Drottinn úthellir líknar- og bænaranda yfir Jerúsalembúa. Í framhaldi af því munu menn harma það sem gerst hefur, og það virðist augljóst að þeir munu harma dauða þess, sem þeir sjálfir hafa lagt í gegn. Síðustu vers 12 kalfa lýsa einmitt miklum harmi. Í 13. kafla koma svo óvæntar afleiðingar í ljós. Þetta verður nefnilega allt til hreinsunar þjóðarinnar. Lind mun standa opin Davíðs húsi og Jerúsalembúum, til að þvo af sér syndir og saurleik. Dauði þesssa manns verður því til hreinsunar þjóðarinnar.

Þetta hljómar auðvitað allt saman kunnuglega, enda gefur nýja testamentið okkur lykilinn til að skilja ritningar gamla testamentisins. Hér er enginn annar en Kristur sjálfur á ferð, og hann sem hefur verið stunginn í gegn. Jóhannesarguðspjall lýsir því hvernig það átti sér stað. Ég les nokkur vers úr 19, kafla, sem eiga sér stað rétt undir lok föstudagsins langa.

31 Nú var aðfangadagur, og til þess að líkin væru ekki á krossunum hvíldardaginn, báðu Gyðingar Pílatus að láta brjóta fótleggi þeirra og taka líkin ofan, enda var mikil helgi þess hvíldardags. 32 Hermenn komu því og brutu fótleggi þeirra, sem með honum voru krossfestir, fyrst annars, svo hins. 33 Þegar þeir komu að Jesú og sáu, að hann var þegar dáinn, brutu þeir ekki fótleggi hans. 34 En einn af hermönnunum stakk spjóti sínu í síðu hans, og rann jafnskjótt út blóð og vatn. 35 Sá er séð hefur, vitnar þetta, svo að þér trúið líka og vitnisburður hans er sannur. Og hann veit, að hann segir satt. 36 Þetta varð til þess, að ritningin rættist: „Ekkert bein hans skal brotið.“ 37 Og enn segir önnur ritning: „Þeir munu horfa til hans, sem þeir stungu.“

Jóh 19:31-37

Aftur og aftur sjáum við hvernig ritningar gamla testamentisins rætast í Kristi, og hvernig ritningarnar allar vitna um hann. Ritningarlestur gamla testamentisins vitnaði um mikin harm vegna hans sem lagður var í gegn. Ef eitthvað er verðugt þess að harma það, þá hlýtur að vera efst á lista, það að Guðs eigin lýður framseldi Guð sjálfan, klæddan holdi og blóði, til þess að verða húðstrýktur, sleginn, smáður, krossfestur og að lokum lagður í gegn með spjóti. Allir þeir sem syndgað hafa gegn guði eru samsekir og þáttakendur í samsærinu gegn Kristi, og því ætti þessi mynd af Kristi á krossi sínum að kalla okkur til hryggðar yfir syndum okkar, og því næst til játningar.

Því hann fórnaði sér okkar vegna, jafnvel þegar við vorum anstæðingar hans.

Síðari ritningarlestur

Síðari ritningarlestur er að finna í bréfi Páls postula til safnaðanna í borginni Efesus í vesturhluta núverandi Tyrklands. Páll tekur það fram að hann sé bandingi eða fangi, og talið er líklegt að bréfið sé skrifað þegar hann var fangelsaður í Rómarborg, eins og fram kemur í lok Postulasögunnar. Augljóst er af þessu bréfi að kirkjan í Efesus hefur verið honum sérstaklega kær, enda ávöxtur af hans starfi. Hvergi virðist hann hafa varið lengri tíma en einmitt þar, og í lokin verður Tímóteus, samverksmaður hans eftir í Efesus og sinnir þar eftirliti með söfnuðunum, eða nokkurskonar biskupsstarfi. Efesusbréfið er séstaklega jákvætt bréf, og einkennist af kennslu og hvatningu. Ekki er auðséð að það sé ákveðið tilefni af bréfinu, eins og í mörgum bréfum Páls, t.d. í Galatabréfinu og Fyrra Korintubréfi.

Páll byrjar á því að ítreka kennsluna um fagnaðarerindið, og bendir síðan á það hvernig það á að hafa áhrif á kristilegt líferni. Takið vel eftir því, þegar við lesum ritningarlesturinn, hvernig það er kærleikur Krists til okkar, sem á að knýja kærleika okkar til Guðs og náungans, og þannig stýra því hvernig við hegðum lífi okkar. Sá sem trúir á Krist og tilheyrir honum, lifir ekki fyrst og fremst fyrir eigin nautnir, heldur til kærleika og þjónustu við Guð og menn.

Við lesum síðari ritningarlestur úr Efesusbréfinu, kafla 5, versum 1-9, og hljómar hann svo:

1 Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans. 2 Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms. 3 En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. 4 Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð. 5 Því að það skuluð þér vita og festa yður í minni, að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, – sem er sama og að dýrka hjáguði -, á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs. 6 Enginn tæli yður með marklausum orðum, því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki. 7 Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra. 8 Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. – 9 Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. –

Efes 5:1-9

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Lærisveinar Krists eiga að vera eftirbreytendur hans. Það er að segja, all hefst með honum, og því sem hann hefur gert. Og hvað er það sem hann hefur gert? Hér er hin hefðbundna kaflaskipting Efesusbréfsins svolítið óheppileg, því það er auðvelt að líta fram hjá því að síðasta vers 4. fjórða kafla ætti í raun að vera tekið með: Það hljómar svona “Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.” Það er sem sagt fórnarvilji Guðs, og þrá hans til að fyrirgefa syndir manna, sem á að vera drifkraftur og aflvaki his kristilega lífs. Hann gekk svo langt að hann lét stinga sig í gegn, til þess að geta frelsað okkur, og það er fyrirmynd hins kristilega lífernis. Síðan heldur Páll áfram í 2. versi fimmta kafla: Eph 5:2 “Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.”

Niðurstaðan er í raun einföld. Kristur fórnaði sér fyrir allt mankyn, og eins eigum við að vera fús til að fórna okkur fyrir náungann. En það þýðir þó ekki alltaf að gera einvherjar hetjudáðir, heldur á það við í amstri hversdagsins. Fórnarviljinn getur sýnt sig í því að vilja ekki taka þátt í svívirðilegu eða óviðeigandi tali og gríni, og þá er auðvitað átt við: Eins og ritningarnar skilgreina það. Fórn- og sáttfýsi, getur meðal annars þýtt það að vilja ekki fylgja samfélaginu þegar það brýtur gegn orðum Guðs. Að standa vörð við orð Guðs, getur kostað mann vinsældir, mannorð og vini; Maður getur orðið fyrir opinberri smán og jafnvel misst starf. En jafnvel í þannig mótlæti, kallar Ritningin til að elska andstæðinginn og biðja fyrir honum.

Og grundvöllurinn er alltaf þessi: Guð sjálfur fórnaði sér, og lagði líf sitt í sölurnar, meðan við vorum anstæðingar hans, föst í syndum okkar og í slagtogi við óvininn. Hann leitaði sátta við okkur, og eins eigum við allaf að leita sátta við sátta við anstæðinga okkar.

Guðspjall

Guðspjall þessa þriðja sunnudags í föstu er að finna í Lúkasarguðspjalli, 11. kafla, versum 14-28, og hljómar svo:

14 Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn. 15 En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ 16 En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni. 17 En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. 18 Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? 19 En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. 20 En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið. 21 Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á, 22 en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu. 23 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir. 24 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.’ 25 Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt, 26 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“ 27 Er hann mælti þetta, hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir.“ 28 Hann sagði: „Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það.“

Lúk 11:14-28

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Guðspjöllin segja okkur frá því hvernig kraftaverk Krists, sem og kenning hans, eru verk og kenning með valdi. Það er að segja þegar Jesús læknar sjúka, rekur út illa anda, stjórnar náttúrinnu sjálfri og vekur jafnvel dauða aftur til lífsins, þá sýnir það að hann hefur eitthvert vald sem aðrir hafa ekki. Eins þegar hann kennir í samkunduhúsunum, þá kennir hann ekki eins og fræðimennirnir sem allaft rekja heimildir sína. Jesús gerir það ekki, heldur vísar hann annað hvort beint í orð Guðs, eða talar án heimilda: Til dæmis “Ég segi yður…” eða “Sannarlega, sannarlega segi ég yður…” Jesús sýnir sem sagt að hann hefur vald og fulltingi yfir sjúkdómum, yfir náttúruöflunum, yfir illum öndum og yfir kenningunni og jafnvel yfir lífi og dauða. En hver er eiginlega sá sem hefur svoleiðis vald? Hver getur hegðað sér svona?

Niðurstaðan ætti að vera alveg augljós: Einungis Messías, sonur Guðs. En fræðimennirnir taka þá niðurstöðu ekki til greina, vegna þess að þeirra hugarsmíð af Messíasi er allt öðruvísi. Allavega var þeim augljóst að hann gat ekki verið andstæðingur þeirra. Og þess vegna leita þeir allaf færis á því að fella hann. Hér koma þeir svo með tilgátu sem hugsanlega getur skýrt fyrir þeim, hvernig Jesús getur haft svona mikið vald. Það er ekki vald Guðs, heldur vald óvinarins, Beelsebúl, þ.e. vald djöfulsins.

Jesús rekur því rök þeirra og sýnir fram á það að þau standast alls ekki. Hvers vegna ætti myrkrahöfðinginn að brjótast á móti eigin ríki og eyðleggja þau virki sem hann hefur byggt. Ef hann hefur náð mönnum á vald sitt eða á vald ára sinna, þá fer hann ekki að leika sér að því að ráðst gegn sjálfum sér. Það gengur ekki upp. Þvert á móti er hér kominn sá sem er máttugri og hefur meira vald heldur en myrkrahöfðinginn. Sá sem getur ráðist á hann, sigrað hann og skipt herfanginu, þ.e.a.s. þeim sem hafa verið beittir valdi hans. Hér er kominn sá sem, samkvæmt Fyrstu Mósebók, þriðja kafla, fimmtánda versi, mun merja höfuð höggormsins.

Þó er því miður til einskis að verða frjáls undan valdi óhreina andans, ef maður maður nýtur ekki verndar þar á eftir. Ef sá sem var hrjáður og nú er frjáls, fyllist ekki heilögum anda í staðinn, mun óvinurinn snúa aftur og gera jafnvel illt verra. Þess vegna er þessi frásögn líka tengd spurningunni um ófyrirgefanlega synd gegn helögum anda, í hliðstæðu textunum í 12. kafla Matteusarguðspjalls og 3. kafla Markúsarguðspjalls. Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Enginn hermaður getur barist fyrir báðum herjum í stríði. Eins getur enginn verið bæði með Kristi og á móti honum, og sá sem ekki er með honum, er á móti. Þá er hann utan við hjálpræði Krists, og fær ekki fyrirgefningu synda sinna.

Kristur kom til okkar til að sigrast á óvininum, og skipta herfrangi hans, sem í raun og veru eru allir menn. Því allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð, og eru því börn reiðinnar, og hliðhollir óvininum. En Kristur hefur unnið sigur gegn óvininum, og þess vegna eigum við þess kost að tilheyra honum í staðinn. Enda er heimurinn hans og við sköpun Guðs, og hann þráir að frelsa okkur. Verum því ekki eins og tómt hús, heldur fyllt heilögum anda.

Að lokum bendir Kristur okkur á það hvernig það á sér stað: Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.