Skip to content

Sagan um Naaman

Í 2 Kon 5 er sögð sagan um Sýrlenska hershöfðingjan Naaman. Hann var þjáður af einhverskonar húðsjúkdóm, líkla líkþrá. Í von um að finna lækningu á sjúkdómnum ferðaðist hann til Ísrel á fund spámannsins Elísa. Áður en hann var kominn alla leið, kom boð frá Elísa:

„Far og lauga þig sjö sinnum í Jórdan, þá mun hold þitt komast í samt lag og þú munt hreinn verða!“ (2 Kon 5:10)

Naaman brást illa við þessum boðskap. Ef hreinlæti eitt var nóg til að hann læknaðist voru til betri staðir að laugast enn moldaráin Jórdan, til dæmis árnar Abana og Farfar í heimalandi hans. Naaman móðgaðist svo mikið að hann ætlaði sér að halda snúa afur heim, án þess einu sinni að reyna hvort orð spámannsins reyndust sönn.

Þjónar Naamans voru ekki á sama máli, og báðu hann í það minnsta um að reyna. Ef spámaðurinn hefði beðið hann um að gera eitthvað erfitt, hefði hann gert það strax. Hvers vegna ætti það að vera öðruvísi þegar spámaðurinn bað hann um að gera eitthvað sem var auðvelt? Naaman lét eftir þeim og hélt í áttina að Jórdan.

Naman læknaður af holdsveikinni. Þrykkt mynd frá 1547 eftir Augustin Hirschvogel.

Eftir að Naaman dýft sér sjö sinnum í ánna, kom hann upp, algerlega læknaður af holdsveikinni. Með orðum Elísa spámanns, hafði Guð heitið Naaman lækningu, en bundið fyrirheitið við þessa sérstöku athöfn. Þanig gat Naaman ekki litið framhjá því hvaðan lækningin kom. Það var ekki vatnið sjálft, heldur var það Guð sem læknaði hann.

Naamn flýtti sér aftur til spámannsins og sagði: „Nú veit ég, að enginn Guð er til í neinu landi nema í Ísrael“ (2 Kon 5:15).

Naaman minnir okkur á skírnina

Það er margt í sögunni um Naaman sem minnir á það sem Nýja testamentið kennir okkur um skírn. Guð batt fyrirheitið um lækningu Naamans við vatnið í Jórdan. Með því að laugast þar, tók Naaman við gjöf Guðs. Að sama skapi bindur Guð einstaklingsbundið og persónulegt fyrirheit um fyrirgefningu syndanna við vatn skírnarinnar. Þegar við skírumst tökum við við þessarri gjöf.

Fyrirheitið er þetta: „Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki , mun fyrirdæmdur verða“ (Mark 16:16). Fyrirheitið er með öðrum orðum fyrirheitið um fyrirgefningu syndanna. Það er bundið við vatn skírnarinnar, og við því er tekið með því að skírast og trúa (þ.e. treysta) fyrirheitinu.

Sumir halda því fram að skírnin sé frekar hlýðnisverk kristins einstaklings. Það stenst ekki kenningu Biblíunnar. Að halda svoleiðis fram er í raun ekki ósvipað því ef maður fengi afmælisgjöf og héldi því svo fram að maður hefði að einhverju leyti unnið fyrir henni með því að rétta fram hendurnar og taka við henni.

Hvers vegna skiptir þetta máli? Jú, vegna þess að Guð hefur gefið okkur fyrirheit um fyrirgefningu syndanna, og vill að við treystum þessu fyrirheit frekar enn við treystum sjálfum okkur, afstöðu okkar eða trúarsannfæringu okkar. Þess vegna bindur hann fyrirheitið við tákn sem er óháð okkur.

Það lá við að Naaman missti af fyrirheitinu því hann treysti því ekki. Það hefði líka farið þannig ef hann hefði gert eins og hann ætlaði, og snúið aftur í land sitt án þess að laugast í Jórdan. Þökk sé þjónum hans sem snéru hug hans. Látum það ekki koma fyrir okkur að við skiljum við fyrirheit Guðs, heldur treystum þeim eins og þau eru gefin:

„Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða, en sá sem trúir ekki , mun fyrirdæmdur verða“ (Mark 16:16)