Skip to content

Spurningar og svör fyrir þá sem ganga til altaris

Hér að neðan er að finna Spurningar og svör fyrir þá sem ganga til altaris í þýðingu Dr. Einars Sigurbjörnssonar, og eru þau tekin úr útgáfu hans af Fræðum Lúthers hinum minni, með góðfúslegu leyfi höfundarréttarhafa og Skálholtsútgáfunnar. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar um Fræðin minni, og hvernig nálgast má eintak af hverinu. Vinsamlegast hafðu samband við okkur ef þú finnur prentvillur eða aðra galla á þessarri stafrænu útgáfu.

Efni eignað Lúther og oft útgefið með Fræðunum, en var samið eftir daga hans.

1.     Trúir þú, að þú sért syndari?

Svar: Já, ég trúi því, að ég sé syndari.

2.     Hvernig veistu það?

Svar: Af boðorðunum tíu. Ég hef ekki haldið þau.

3.     Hryggist þú af syndum þínum?

Svar: Já, ég hryggist af því að hafa syndgað gegn Guði.

4.     Hvað átt þú skilið af Guði fyrir syndir þínar?

Svar: Reiði hans og vanþóknun, tímanlegan og eilífan dauða, því að „laun syndarinnar er dauði“. (Rm 6.23.)

5.     Væntir þú sáluhjálpar og frelsunar af syndum þínum?

Svar: Já, sú er von mín.

6.     Hverjum treystir þú í því efni?

Svar: Mínum elskaða Drottni Jesú Kristi, því að „náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum“. (Rm 6.23.)

7.     Hver er Kristur?

Svar: Sonur Guðs, sannur Guð og líka sannur maður.

8.     Hvað eru guðir margir?

Svar: Guð er aðeins einn, en þrjár eru persónur hans, faðir og sonur og heilagur andi.

9.     Hvað hefur Kristur gert fyrir þig, að þú megir treysta á hann?

Svar: Hann dó fyrir mig og úthellti blóði sínu á krossinum fyrir mig, til fyrirgefningar syndanna.

10.  Dó faðirinn einnig?

Svar: Nei, faðirinn dó ekki, því að hann er aðeins Guð. Heilagur andi dó heldur ekki, því að hann er sömuleiðis aðeins Guð. En sonurinn er í senn sannur Guð og sannur maður. Það var hann sem dó fyrir mig og úthellti blóði sínu fyrir mig.

11.  Hvernig veistu þetta?

Svar: Orð Guðs, fagnaðarerindið, boðar mér þetta, líka skírnin og altarissakramentið. Í altarissakramentinu gefur hann mér líkama sinn og blóð sem pant.

12.  Hver eru innsetningarorðin?

Svar: „Vor Drottinn Jesús Kristur tók brauðið, nóttina sem hann svikinn var, gjörði þakkir og braut það, og gaf sínum lærisveinum og sagði: ,Takið og etið. Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu.‘ Sömuleiðis eftir kvöldmáltíðina tók hann kaleikinn, gjörði þakkir, gaf þeim hann og sagði: ,Drekkið allir hér af. Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt til fyrirgefningar syndanna. Gjörið þetta svo oft sem þér drekkið í mína minningu.‘ “

13.  Trúir þú, að sannur líkami og blóð Jesú Krists sé í sakramentinu?

Svar: Já, ég trúi því.

14.  Hvað leiðir þig til þessarar trúar?

Svar: Orð Jesú: „Takið og etið, þetta er líkami minn.“ „Drekkið allir hér af, þetta er blóð mitt.“

15.  Hvað eigum við að gera, þegar við neytum líkama Krists og blóðs?

Svar: Við eigum að kunngjöra og minnast dauða Krists samkvæmt orðum hans: „Gjörið þetta í mína minningu.“

16.  Hvers vegna eigum við að minnast og kunngjöra dauða hans?

Svar: Til þess að okkur lærist að trúa því, að enginn megnaði að friðþægja fyrir syndir okkar annar en Kristur, sem er sannur Guð og sannur maður, og einnig til þess að okkur megi lærast að líta á syndir okkar með ugg og ótta, en láta huggast og gleðjast í Kristi einum, svo að við verðum hólpin í trúnni.

17.  Hvað fékk Jesú til þess að deyja fyrir syndir okkar?

Svar: Kærleiki hans til Guðs föður, til mín og annarra syndara samkvæmt orðum hans sjálfs: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann. Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk.“ (Jh 14.6—10.) Og postulinn Páll segir: „Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann — fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn, meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ (Rm 5.6—7.) „Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ (Gl 2.20.) „Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.“ (Ef 5.1—2.)

18.  Hvers vegna vilt þú ganga til altaris?

Svar: Til þess að ég megi læra að trúa því, að Kristur dó fyrir syndir mínar af kærleika sínum og einnig til þess að ég megi læra af honum að elska Guð og náunga minn.

19.  Hvað á að áminna og hvetja kristna menn til að ganga oft til altaris?

Svar: Í fyrsta lagi boð og fyrirheit Drottins Jesú Krists og í öðru lagi áhyggjan vegna syndarinnar sem er orsök þess, að slík boð, hughreysting og fyrirheit voru gefin.

20.  Hvað á Sá maður að gera, sem finnur ekki til þessarar áhyggju og hungrar hvorki né þyrstir eftir réttlætinu?

Svar: Slíkur maður á í fyrsta lagi að leggja hönd á brjóst sér og athuga, hvort hann hafi enn hold og blóð og síðan umfram allt að treysta því sem Heilög ritning segir um það: „Lifið í andanum og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins. Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.“ (Gl 5.16, 19—23.) „Ég veit, að ekki býr neitt gott í mér, það er, í holdi mínu. Að vilja veitist mér auðvelt, en ekki að framkvæma hið góða. Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.“ (Rm 7.18—19.)

Í öðru lagi á hann að líta í kringum sig og athuga, hvort hann sé enn í heiminum og minnast þess, að aldrei mun þar skorta synd og áhyggjur eins og Jesús segir: „Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður, af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ (Jh 15.18—19; 16.33.) Og postulinn segir: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1 Jh 2.15, 17.) „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung, því að allt, sem af Guði er fætt, sigrar heiminn, og trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn.“ (1 Jh 5.3-4.) í þriðja lagi verður hann að gæta sín, því að Satan er yfir honum með lygi sinni og drápum og mun hvorki láta hann fá frið hið innra né ytra. Jesús segir: „Djöfullinn var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur, fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.“ (Jh 8.44.) „Þegar hjálparinn kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er, að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið, að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur, og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.“ (Jh 16.8—11.) Og postularnir segja: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni. (1 Pt 5.8, 9.) „Styrkist nú í Drottni og orði máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.“ (Ef 6.10—12.) „Guðs styrki grundvöllur stendur. Hann hefur þetta innsigli: ,Drottinn þekkir sína‘ og ,hver sá sem nefnir nafn Drottins, haldi sér frá ranglæti.‘“ (2Tm 2.19.)