Skip to content

Þess vegna höldum við

upp á uppstigningardag

Fyrir mörgum merkir uppstigningardagur lögboðinn frídag, eða í það minnsta dag þegar vinnuveitandi þarf að greiða hátíðarálag. Flestir gera sér kannski grein fyrir að uppstigningardagur er kristin hátíð, og hugsanlega að hún tengist því sem við segjum í trúarjátningunni: Að Jesús „steig upp til himna, settist við hægri hönd Guðs Föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða.“

En hvað þýðir það að Jesús hafi stigið upp til himna, og hvernig getur það samræmst kveðjuorðum hans í lok Matteusarguðspjalls: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar?“ (Matt 28:20)

Himnaförin, utan við Jerúsalem

Jerúsalem séð frá Olíufjallinu. Í baksýn má sjá Kedrondalinn og hryggin sem Davíðsbærinn stendur á. Til hægri í baksýn má sjá musterishæðina og klettamoskuna sem stendur á sama stað og musterið var á tíma Jesú. Myndin er tekin stutt frá staðsetningunni þar sem himnaförin átti sér stað.

Sagt er frá himnaförinni í lok Markúsar- Lúkasarguðspjalls, sem og í byrjun postulasögunnar. Eftir dauða og upprisu Jesú Krists, höfðu lærisveinarnir ferðast norður til Galíleu og séð Jesú þar. Hann hafði svo sent þá aftur Jerúsalem fyrir Hvítasunnu, og dvöldust þeir þar í loftstofu.

Á uppstigningardegi, þegar liðnir vour 40 dagar frá páskum og enn voru 10 dagar til hvítasunnu, tók Jesús þá með sér upp til Olíufjallsins, austan við borgarmúrinn. Þar gaf hann þeim fyrirmæli um að halda kyrru fyrir í Jerúsalem, hóf svo upp hendur og blessaði þá. Og meðan hann var að blessa þá, kom ský og huldi hann, og hann hvarf þeim sjónum. (Lúk 24:50–51; Post 1:9) Í Markúsarguðspjalli er því lýst með þessum orðum: „Þegar nú Drottinn Jesús hafði talað við þá, var hann upp numinn til himins og settist til hægri handar Guði.“ (Mark 16:19)

Þegar Jesús hafði verið upp numinn, birtust lærisveinunum tveir englar, og sögðu: „Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“ (Post 1:11) Himnaförin tengist því endurkomu Krists dýrð, sem spáð er um, meðal annars í Daníelsbók (7:9–14) og Opinberunarbók Jóhannesar (1:7, 14:14). Jesús segir líka fyrir um endurkomu sína, m.a. í Matt 24:19–31.

Himnaförin og nærvera Krists í dag

Jesús segir í Matt 28 að hann muni vera með lærisveinum sínum allt til enda veraldar. Hvernig samræmist það himnaförinni? Hér má benda á það sem Jesús segir tveimur versum áður: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu“ (Matt 28:18). Það að Jesús situr við hægri hönd Guðs Föður er ekki lýsing á fjarverju hans, heldur á almætti hans. Hægri hönd Guðs er ekki staður agðerðalýsis, heldur staður athafna. Þetta stef er margendurtekið í sálmunun, eins og eftirfarndi dæmi vitna um:

Fagnaðar- og siguróp
kveður við í tjöldum réttlátra:
Hægri hönd Drottins vinnur stórvirki,
hægri hönd Drottins upphefur,
hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.

Sálm 118:5–6

Þótt ég lyfti mér á vængi morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig
og hægri hönd þín halda mér.

Sálm 139:9–10

Fyrir okkur þýðir himnaförin að Jesús er ekki nálægur á einum stað í einu eins og tíma guðspjallanna, heldur er hann nálægur á hverjum stað þar sem tveir eða þrír eru saman komnir í hans nafni (Matt 18:20). Hann er ennfremur til staðar í orði sínu, sem og sakramentunum, þ.e. í skírninni (Matt 28:19–20) og í altarisgöngunni (Lúk 22:19–20; 1 Kor 11:26).

Það þýðir að við þurfum ekki að ferðast til Jerúsalem og leita Jesú uppi, heldur er hann okkur nálægur í hverjum stað þar sem við leitum hans samkvæmt orði hans. Himnaför Jesú þýðir með öðrum orðum að Jesús leitar þín þar sem þú ert.

Myndskreyting, uppstigningin: © Sweet Publishing