Skip to content

Þess vegna trúi ég á óskeikulleika Biblíunnar

Í fimmtánda kafla Fyrra Korintubréfs skrifar Páll postuli stutta samantekt á dauða Jesú fyrir syndir okkar og upprisu hans frá dauðum. Þriðja vers kaflans bendir til þess að þessi samantekt hafi verið vel þekkt á tíma Páls, og hugsanlega var hún notuð sem nokkurskonar trúarjátning. Henni fylgir svo listi yfir ýmsa sjónarvotta, sem gátu staðfest fullyrðingarnar um bæði dauða og upprisu Krists.

Fyrst og fremst þessara votta er Ritningin sjálf: Lögmál Móse, Spámennirnir og Sálmarnir (þ.m.t. viskuritin), sem sögðu fyrir um þessa atburði löngu áður en þeir áttu sér stað. Næst kemur Pétur (Kefas) sem leiðtogi postulanna tólf, og á eftir honum einnig hinir tólf. Síðan koma fimm hundruð karlmenn í einu sem flestir voru enn á lífi á skrifandi stundu. Það undirstrikar hversu snemma Páll skrifaði Fyrra Korintubréf, þegar enn var hægt að leita eftir sjónarvottum til að staðfesta söguna. Að lokum var Páll sjálfur sjónarvottur hins upprisna Jesú.

Sumir hafa eflaust tekið eftir því að engar konur eru á listanum. Það þykir kannski svolítið einkennilegt, þegar það var einmitt hópur kvenna sem fyrst kom að gröfinni og uppgötvaði að Jesús var upprisinn. Þó að einhverjum sýnist eflaust að þetta sé ósamræmi við guðspjöllin, eða enn verra: fyrirlitning gegn konunum, verður að lesa þetta á þeim forsendum sem bréfið hefur. Listinn er nefnilega ekki settur upp í tímaröð, heldur eftir vægi vottanna. Rétt er að skilja hann sem formlega skjölun, samkvæmt þá gildandi reglum. Þar með inniheldur hann einungis karlmenn, sennilega yfir 20 ára aldri. Það þýðir líka að konur og börn sem sáu Jesú upprisinn koma til viðbótar við þá rúmlega 500 karlmenn sem taldir eru upp. Endanleg tala er því sennilega langt yfir þúsund.

Páll heldur áfram að leggja áherslu á mikilvægi þess að Jesús sé sannarlega risinn upp frá dauðum. Í fyrsta lagi þýðir það, að upprisa frá dauðum sé í raun og veru til, og í öðru lagi að það sé til von um slíka upprisu fyrir okkur líka. Ef svo er ekki, þá er öll kristin trú til einskis. Án upprisunnar er kristin trú í besta falli algerlega tilgangslaus.

Þeir sem afneita upprisunni geta því ekki talist kristnir. Og einmitt þess vegna eru vottarnir sem um ræðir svo mikilvægir.

Sonur Guðs talar um Ritninguna

Upprisa Jesú frá dauðum verður að vera upphafsreiturinn, því það staðfestir fyrir okkur að Jesús er í raun og veru sá sem hann sagðist vera: Messías, sonur hins lifaða Guðs! Það staðfestir þá einnig orð Jesú um að hann hafi verið til á undan Abraham, að spámaðurinn Jesaja hafi virkilega séð hann og einnig að heimurinn hafi orðið til fyrir hans tilstilli (Jóh 1:10; Matt 16:16-17, Jóh 8:58, 12:41). Þess vegna skiptir það sköpum að taka eftir því hvernig Jesús talar um Ritninguna. Við hljótum að geta fylgt hans áliti á henni, og farið eftir því. Ef við höfum fordóma gegn vitsmunalegrar getu fyrri kynslóða (sem við ættum ekki að hafa), þá getum við samt ekki látið sömu fordóma eiga við um Jesú. Því, ef hann er í raun og veru Guð, þá hlýtur hann að hafa vit á því sem hann talar um.

En hvað segir hann þá?

Ef við byrjum í Matteusi 19 þá talar Jesús um það hvernig við eigum að skilja hjónabandið. Hann vitnar bæði í fyrri og seinni hluta sköpunarsögunnar, ekki sem tvær sögur, heldur sem eina samfellda sögu. Guð skapaði manninn sem karl og konu (1 Mós 1: 27) og sagði að því skyldi maður yfirgefa föður sinn og móður. . . (2 Mós 2: 24). Í sama versi talar Jesús um Móse sem raunverulega, sögulega persónu. Annars staðar talar hann á sama hátt um Nóa (Matt 24: 37-41), Abraham, Ísak og Jakob (Matt 22: 31f), Davíð konung (Matt 12: 3), Salómon (Matt 12: 42), Jesaja spámann (Matt 12: 17), Jónas í hvalnum (Matt 23: 40-41) og svo framvegis. Það er greinilegt að Jesús Kristur lítur á frásagnir gamla testamentisins sem sannar sögur, sem raunverulega hafa átt sér stað.

Í Fjallræðunni segir Jesús að Lögmálið og Spámennirnir standa sem fastastir og munu aldrei falla úr gildi, jafnvel þótt himinn og jörð líði undir lok (Matt 5:18). Það ætti auðvitað ekki að koma okkur á óvart, því þessi rit eru ekki neinar venjulegar bókmenntir. Þær eru orð Guðs. Í Matt 15 vitnar Jesús í boðorðin tíu með orðunum „Guð hefur sagt:“. Þegar farísearnir bættu við reglum sem þeir virtu meira en boðorðin, þá ógiltu þeir „orð Guðs“. Það er því enginn vafi á því hvað Jesús hefur kennt okkur um eðli Ritningarinnar. Ritningin er orð Guðs og það verður að skilja hana sem slíka.

Ekki nóg með það, heldur verður orð Guðs að uppfyllast, einfaldlega vegna þess að það er í eðli sínu orð Guðs. Stundum má lesa að Jesús gerir það sem hann gerir, og segir það sem hann segir, til þess að uppfylla spádómsorð (t.d. Lúk 2:23-24, Matt 26:54.56, Jóh 19:28 o.s.frv.) Jesús segir að ritningin veitir líf, vegna þess að hún ber vitni um hann (Jóh 5:39, sbr. Mark 10:17-19), og enn fremur að þeir sem ekki þekkja ritninguna fara villur vegar (Matt 22:29).

Þegar Jesú talar við farísea og fræðimenn er ritningin alltaf miðlæg í umræðunni, og báðir aðilar eru sammála um að finna svörin þar (Matt 21:42, Mark 11:17, 12:32f o. s. frv.). Jesús ávítar hins vegar faríseana oft fyrir að leggja aðeins áherslu á ákveðna parta ritningarinnar meðan þeir horfa fram hjá öðrum. Þeir gátu verið nákvæmir með smáatriðin, t.d. hvað varðar að reikna út tíund, en virtu ekki alltaf boðorðið um að elska náungann eins og sjálfan sig (Matt 23:23). Jesús sýndi með fordæmi sínu að lesa ætti ritninguna sem heild, og í samhengi við sjálfa sig, og þá alltaf sem hið sanna orð Guðs.

Þeir sem víkja frá Ritningunni

Þá sem kenna eitthvað annað varðandi Ritninguna en Jesús gerði, ber samkvæmt orðum Fjallræðunnar að kalla falsspámenn. Þeir þykjast ætla að bjarga kristni frá úreltum viðhorfum, en verða þá líka að bjarga henni frá Jesú Kristi sjálfum. Sumir gera það með því að gera greinarmun á Jesú trúarinnar og hinum sögulega Jesú, sem þeir telja hafa verið öðruvísi.

Ritningin sjálf kallar slíka fræðimenn úlfa í sauðargæru (Matt 7:15). Þeir þykjast hafa góðan ásetning en í raun og veru geta þeir aðeins eyðilagt. Og Jesús varar eindregið við slíku. Í Matt 18:6 segir hann að betra væri að láta sökkva sér í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls, en að tæla til falls með þessum hætti. Það er eru sterk orð.

Ég sé ekki hvernig hægt er að taka upprisu Jesú frá dauðum alvarlega án þess að hún hafi afleiðingar fyrir skilning okkar á Ritningunni. Við getum ekki þóst skilja Ritningarnar betur en Jesús sjálfur, annars væri hann alls ekki Guð. Þess vegna kem ég að Ritningunni sem heilögum, sönnum, villulausum og óskeikullegum orðum Guðs.

Um höfundinn

Höfundur er Sr. Sakarías Ingólfsson, prestur JELK, og sóknarprestur Messíaskirkjunnar í Osló, Noregi. Sakarías á sænska móður, ólst upp á Íslandi, og býr nú í Noregi. Hann hefur mastersgráðu í guðfræði frá Fjellhaug Internasjonale Høyskole, og S.T.M-gráðu frá Concordia Theological Seminary Ft. Wayne.

Stefnt er að því að birta þessa grein á norsku líka, og mun hún koma á lkn.no. Orðalag og stafsetning lagfært á nokkrum stöðum 3. september 2024.