Skip to content

Þess vegna trúi ég á vitnisburð Nýja testamentisins

Forsíðumynd: Frá papýrus-handritinu Chester Beatty P46. Handritið inniheldur hluta af bréfum Páls postula, og var útbúið í kring um 175–225 e.Kr.

Ég trúi á villulaus og óskeikul orð Biblíunnar. Þetta er tiltölulega einfalt þegar kemur að gamla testamentinu, því Jesús talar stöðugt um Ritninguna sem orð Guðs og sýnir ítrekað hvernig lögmálið, spámennirnir og viskuritin vitna um hann (t.d. Lúk 24:27) .

Málið er þó aðeins öðruvísi þegar kemur að Nýja testamentinu, einfaldlega vegna þess að Nýja testamentið var skrifað niður eftir upprisu og himnaför hans, og því staðfestir Jesús það ekki með sama hætti. Skilningur minn á gamla testamentinu er því algerlega háður því að Nýja testamentið hafi sagt rétt frá Jesú og orðum hans.

Vald postulanna

Til að fara dýpra ofan í þetta, er nauðsynlegt að byrja á guðspjöllunum. Jesús kallaði til sín tólf postula úr hópi margra lærisveina sinna og gaf þeim sérstakt vald til að vera opinberir vottar hans. Í Postulasögunni, fyrsta kafla, leggur Pétur postuli áherslu á að aðalatriði þess að hafa embætti hinna tólf postula: Þeir voru sjónarvottar og „heyrnarvottar“ að verki Jesú, kennslu hans, dauða og upprisu (Post. 1:21–22). Í Matteusi 28 eru það þessir sömu postular sem eru kallaðir til að kenna öllum þjóðum að halda allt sem Jesús hefur boðið. Í Postulasögunni 2:42 má enn fremur lesa að kennsla postulanna var ein af stoðum frumkirkjunnar. Páll postuli skrifar síðar kirkjunni í Efesus að hún sé byggð á grundvelli spámannanna og postulanna, þar sem Kristur sjálfur er hyrningarsteinninn (Efes. 2:20). Það má því segja að Nýja testamentið í heild sinni komi af hlýðni postulanna við skipun Krists.

Auk postulanna tólf, kveðst Páll frá Tarsus einnig vera sannur postuli. Að hans eigin sögn staðfestu postularnir Pétur, Jakob og Jóhannes þessa köllun (Gal 2:7-10). Pétur segir það sjálfur í 2 Pét. 3:15-16. Guðspjallamaðurinn og læknirinn Lúkas segir frá köllun Páls í Postulasögunni 9:1–22. Ennfremur er köllun postulanna staðfest með valdi Jesú, gegnum þau tákn sem eiga sér stað fyrir hendur þeirra. Jesús gefur þeim þetta vald í Mark 3:13-19 og er því endurtekið lýst í Postulasögunni, t.d. 3:1–7; 9:32–40; 14:8–10; 16:16–18; 16:25–28; 28:8–9.

Bréf Páls postula

Bréf Páls eru líklega elstu rituðu heimildir Nýja testamentinu, og þar er enn fremur vitnað í eldri munnlegar heimildir, eins og t.d. í 1 Kor 15:3ff. Einmitt þessi vers voru rituð í annarri kristniboðsferð hans, meðan flestir postulanna, sem og margir aðrir sjónarvottar voru enn á lífi. Það á ekki einungis við um vinsamlega sjónarvotta, sem gjarna vildu staðfesta söguna, heldur einnig um þá sjónarvotta sem voru óvinir Krists. Þegar Páll ritaði um hinn upprisna Jesú Krist, hefði verið mjög auðvelt að mótmæla honum ef þeir gátu sýnt hvar bein Jesú lágu. Þetta gat þó enginn gert, þrátt fyrir að Jesú hafði verið lagður í vel þekkta gröf (Matt 27:57–60).

Margir postulanna voru teknir af lífi fyrir vitnisburð sinn um hinn upprisna Jesú, sem staðfestir enn frekar að sagan sé sönn. Þegar í Postulasögunni er sagt frá því þegar Jakob Sebedeusson verður fyrsti píslarvotturinn meðal postulanna (12:2). Samkvæmt heimildum frumkirkjunnar voru bæði Pétur og Páll teknir af lífi í Róm undir valdi Nerós keisara (Sjá kirkjusögu Evsebíusar 2:25). Ef vitnisburður þeirra væri ekki sannur er erfitt að ímynda sér að þeir hefðu gefið líf sitt fyrir hann. Hefði allt verið lygi höfðu þeir engu að tapa, heldur þess í stað allan vinning af því að afhjúpa lygina.

Kennsla postulanna skráð niður

P52 er brot úr handriti af Jóhannesarguðspjalli. Handritið var útbúið fyrir 150 f.Kr, sennilega í kring um 120.

Það er algengt að líta á Markúsarguðspjall sem hið elsta af guðspjöllunum. Í heimildum frumkirkjunnar, skrifar Papías, einn af lærisveinum Jóhannesar postula, að það hafi verið Jóhannes Markús sem skrifaði guðspjallið niður. Hann var þó ekki sjálfur postuli, heldur skrifaði hann niður kennslu Péturs postula. Papías staðfestir enn fremur að Matteus hafi skrifað niður guðspjall sitt, upprunalega á hebresku. (Scaff, ANF 1:154–155) Guðspjallamaðurinn og læknirinn Lúkas, var samstarfsmaður Páls postula, og skrifaði bæði sitt eigið guðspjall, sem og Postulasöguna. Þótt Lúkas hafi sjálfur ekki verið sjónarvottur, ber athygli hans á jafnt stórum sem smáum atriðum, vitnisburð um mjög ítarlegt rannsóknarstarf. Þessa er getið í inngangi hans að Lúkasarguðspjalli. Matteus og Jóhannes voru hins vegar báðir postular Jesú og þar með sjónarvottar.

Þessar bókrollur voru skrifaðar niður, og því næst afritaðar í mörgum eintökum. Þeim var dreift og þau lesin upp í guðsþjónustum frumkirkjunnar. Þannig öðluðust þau fljótt viðurkenningu sem æðsta vald kirkjunnar, því þau voru einmitt „uppfræðsla postulanna“ (Post 2:42). Þetta mikil notkun olli augljóslega sliti á bókunum, og þeim var því haldið við með því að skrifa ný afrit. Það leikur lítill vafi á því að frumkirkjan lærði þá list að fara með heilög rit frá upprunalegu meðlimum sínum, sem allir voru gyðingar. Í sýnagógum þeirra voru þegar til staðar aðferðir og vönduð vinnubrögð við viðhald á Tóru-bókrollum og ritum spámannanna.

Á undanförnum öldum hefur umfangsmikil rannsókn á skriflegri miðlun Nýja testamentisins staðfest það hversu vandlega kirkjan hefur farið með rit sín. Það eru vissulega örfáir staðir í Nýja testamentinu þar sem heimildir stangast á um meira en stafsetningu, einfaldar endurtekningar eða smá villur af því tagi. Engu að síður, jafnvel þótt litið sé fram hjá öllum slíkum erfiðleikum, hefur það engin áhrif á kristna kenningu.

Að trúa á það sem er satt

Þessi stutta grein getur varla gert meira en að gára yfirborðið á stóru málefni. Það væri t.d. gagnlegt að skoða heimildir utan Biblíunnar, en frá svipuðum tíma, sem nefna Jesú og kirkju hans. Fyrir þá sem hafa áhuga á athugun á heimildunum um Jesú Krist, sem skrifuð er fyrir leikfólk, má benda á bók blaðamannsins Lee Strobel: The case for Christ. Hver sá sem tekur vitnisburð Nýja testamentisins alvarlega hefur góðar og málefnalegar ástæður fyrir að trúa því.

Í hinum vestræna heimi er stundum sagt að hver og einn hefur rétt til þess á að trúa hverju því sem hann vill. En þetta er fremur kjánalegur skilningur á trúfrelsi. Maður ætti ekki að velja hverju maður vill trúa, heldur trúa því sem maður er sannfærður um að sé sannleikurinn. Þegar ég les mér til um sögu Nýja Testamentisins, þá staðfestir það fyrir mér að það segir sannleikann um Jesú Krist. Hann er upp risinn frá dauðum, og þess vegna trúi ég orðum hans.