Skip to content

Þrír ritningarlestrar um dauðann

Páll postuli kennir okkur að kristnir menn eigi ekki syrgja eins og hinir, sem enga von eiga (1 Þess 4:13). Drottinn okkar lifir! Hann hefur troðið dauðann og gröfina, okkar gömlu fjendur, undir fótum sér, og þeir geta ekki lengur rifið alla hluti í sig (1 Kor 15:25). Hér að neðan munum við fjalla nánar um eðli þeirrar vonar sem við eigum, og hvað það er sem mætir vinum okkar og fjölskyldu sem dáið hafa í trúnni á Krist.

Það eru þrír ritningartextar sem ég vil að þú þekkir vel. Ef þú gerir það, mun það hjálpa þér að tala um dauðann frá kristnu sjónarmiði. Þú getur gert betur en að endurtaka klisjur eins og „hann er kominn á betri stað.“ Þess í stað getur þú tjáð þá von sem, er grundvölluð í ritningunni, og er orðin að veruleika í sigri Jesu Krists á gröfinni.

Ríkur og snauður

Einu sinni var maður nokkur ríkur, er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því, er féll af borði ríka mannsins, og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gjörðist það, að fátæki maðurinn dó, og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.

Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: ,Faðir Abraham, miskunna þú mér, og send Lasarus, að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína, því ég kvelst í þessum loga.’

Abraham sagði: ,Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.’ En hann sagði: ,Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við, svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað.’ En Abraham segir: ,Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim.’ Hinn svaraði: ,Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu, mundu þeir gjöra iðrun.’ En Abraham sagði við hann: ,Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum.'“

Lúkas 16:19-31

Með þessarri sögu kennir Jesús okkur það að sálin lifir áfram eftir dauða líkamans. Samkvæmt sköpun Guðs áttum við alltaf að hafa bæði líkama og sál. Við erum meira en holdlaus sál og meira en innantóm skel. Ritningin kennir okkur að greina milli líkama og sálar, og á sama tíma að líkami og sál séu vafin saman í eina lifandi mannveru (Matt 10:28, 1 Þess 5:23). Það á þess vegna vel við þegar dauðinn er kallaður að gefa upp öndina, því þegar við deyjum er sálin skilin frá líkamanum (Jóh 9:30; Post 7:59)[1]

Kristnir menn kannast við þá staðreynd að þetta er ekki eins og það átti að vera. Það er ekki til góðs að skilja sundur það sem Guð hefur bundið saman. Þess vegna trúum við líka á og játum upprisu holdsins, þ.e. líkamans. Án upprisunnar, værum við minna en það sem Guð skapaði okkur til að vera: Lifandi, andandi og með tilfinningar; Verur, sem í senn eru holdlegar, rökbundnar og andlegar. Ef líkami og sál yrðu ekki sameinuð að nýju í upprisunni, yrðum við eiliflega bundin dauðanum og gætum ekki smakkað ávexti friðþægingarinnar þegar Kristur skapar allt að nýju.

Engu að síður þurfum við ekki að óttast hvað verður um sálina þegar við deyjum. Því þá verðum við endanlega leyst frá veikleika og spillingu syndarinnar sem sýkt hefur líkama okkar með dauðanum (Róm 6:7). Kristur mun hugga sálir okkar í Paradís, ásamt öllum hinum heilögu (Lúk 23:43).

Taktu eftir því hvað gert er við Lasarus. Hann hafi lifað við líkamlega þjáningu, sem og smán af völdum annarra. En þegar hann dó, „báru hann englar í faðm Abrahams.“ Við sem eigum sömu trú og Lasarus, og trúum Móse, spámönnunum og postulum Jesú Krists, getum treyst því að sálum okkar verður bjargað að sama skapi. Óhultar og lausar við allar þjáningar munu þær bíða þess dags þegar þær verða að nýju sameinaðar líkamanum.

Við skulum taka þetta saman: Þegar við deyjum, verður sálin tekin frá líkamanum og mun hún bíða upprisunar á hinum, þar sem englar þjóna henni og hugga hana. Sál þín getur ekki glatast, og endar ekki í víti eins og ríki maðurinn. Að sama skapi geta sálir hinna óguðlegu ekki komist inn í himinn Guðs. Það eru þeir sem ekki trúa, og geta þar af leiðandi ekki tekið við réttlætingunni og fyrirgefningu syndanna.

Þess vegna skulum við hlusta á Móse og spámennina meðan enn er tími, er þeir vara okkur við syndinni. Eins skulum við hlusta á náðarríkta rödd Jesú Krists, sem veitir okkur náð sína og fyrirgefningu. Því þar er fólgið andlegt líf okkar og huggun eftir dauðann.


Neðanmálsgrein: [1] Við sleppum hér umræðu um hvort Biblían kenni þrískiptum greinarmun á líkama, sál og anda eða tvískiptum greinarmun á líkama og sál. Við lítum einfaldlega á sálina eða andann sem þann óefnislega hluta okkar, sem lifir eftir dauðann, og sameinast líkamanum á ný við upprisu holdsins.

Trú þú aðeins

Meðan hann var að segja þetta, kemur maður heiman frá samkundustjóranum og segir: „Dóttir þín er látin, ómaka þú ekki meistarann lengur.“

En er Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: „Óttast ekki, trú þú aðeins, og mun hún heil verða.“
Þegar hann kom að húsinu, leyfði hann engum að fara inn með sér nema Pétri, Jóhannesi og Jakobi og föður stúlkunnar og móður. Og allir grétu og syrgðu hana. Hann sagði: „Grátið ekki, hún er ekki dáin, hún sefur.“ En þeir hlógu að honum, þar eð þeir vissu að hún var dáin. Hann tók þá hönd hennar og kallaði: „Stúlka, rís upp!“ Og andi hennar kom aftur, og hún reis þegar upp, en hann bauð að gefa henni að eta. Foreldrar hennar urðu frá sér numdir, en hann bauð þeim að segja engum frá þessum atburði.

Lúk 8:49-56

Fyrir þeim sem trúir á Krist er dauðinn ekki sú gereyðing sem hann er i augum heimsins. Fyrir hinum kristna er dauðinn eins og svefn. Að kveldi leggjum við leggjum höfuð á kodda og sofnum, og væntum þess að vakna hress næsta morgun. Eins er það þegar við leggjumst til hinstu hvílu, að við munum ljúka upp augum að nýju. Rétt eins og Jesús vakti dóttur Jaírusar, mun rödd hans vekja þig frá dauða þínum. Þú munt fara á fætur og ganga um.

Það er þessi mikla von upprisunnar som Job játar þegar hann segir að hann muni sjá andlit Lausnarans: „Ég mun líta hann mér til góðs, já, augu mín sjá hann, og það eigi sem andstæðing — hjartað brennur af þrá í brjósti mér!“ (Job 19:27). Eins talar postulinn Páll um hina framliðnu sem þá sem sofnaðir eru (1 Kor 15:6, 18, 20; 1 Þess 4:14-15).

Það þarf ekki að skammast sín fyrir þessa von. Þegar þú ert viðstaddur/viðstödd kristna útför, getur þú játað fyrir aðstandendum: „Ástvinur þinn er sofandi. Hún mun opna augu sín að nýju og sjá lausnara sinn. Rétt eins og Lasarus og dóttir Jaírusar, mun hún rísa að nýju og ganga um.“ Og væri það ekki frábært að læra þetta vers utanbókar og minna á það:

Því að ef vér trúum því að Jesús sé dáinn og upprisinn, þá mun Guð fyrir Jesú leiða ásamt honum fram þá, sem sofnaðir eru.

1 Þess 4:14

Innsiglum lokið upp

Þegar lambið lauk upp fimmta innsiglinu, sá ég undir altarinu sálir þeirra manna, sem drepnir höfðu verið fyrir sakir Guðs orðs og fyrir sakir vitnisburðarins, sem þeir höfðu. 10Og þeir hrópuðu hárri röddu og sögðu: „Hversu lengi ætlar þú, Herra, þú heilagi og sanni, að draga það að dæma og hefna blóðs vors á byggjendum jarðarinnar?“ 11Og þeim var fengin, hverjum og einum, hvít skikkja. Og þeim var sagt, að þeir skyldu enn hvílast litla hríð, þangað til samþjónar þeirra og bræður þeirra, sem áttu að deyðast eins og sjálfir þeir, einnig fylltu töluna.

Op. Jóhs. 6:9-11

Opinberunarbók Jóhannesar er alls ekki eins ógnvekjandi og dulræn og sumir hafa haldið fram. Þetta snýst ekki um leynileg skilaboð sem eiga að segja okkur hvenær endirinn kemur. Því Jesús sagði að aðeins Faðirinn á himnum veit daginn og stundina (Matt. 24: 36). Opinberunarbókin segir okkur hinsvegar frá andlegri baráttu og sigri kirkjunnar, meðan við bíðum þess að Jesús komi aftur í dýrð.

Þeir menn „sem drepnir höfðu verið fyrir sakir Guðs orðs“ eru píslarvottarnir. Þeir létu líf sitt fyrir það að játa trú á Krist. Þótt að þeir séu ekki í kvölum, frekar en Lasarus í sögunni hér fyrir ofan, bíða þeir samt ákafir eftir því að Jesús ljúki því verki sem hann hóf og tryggði með dauða sínum á krossinum og upprisu á þriðja degi. Þeir hrópa hárri röddu og biðja hann um að troða óvini þeirra undir fótum sér, og hefna dauða þeirra.

Bænum þeirra er svarað þannig: Drottinn gefur þeim hvítar skikkjur sem tákna hreinleika þeirra, sem þeim var gefinn fyrir trúna, og segir þeim að hvíla í friði. Þeir eiga að bíða „þar til fjöldi samþjóna þeirra og bræðra“ fyllir töluna. Þeir bíða þess að fagnaðarerindið klári verk sitt. Þeir biðu eftir skírn þinni. Þeir bíða þess að fyrirgefning syndanna nái yfir allar heimsálfurnar, sem og yfir allar aldir, þangað til Jesús lýkur tíma miskunnarinnar.

Ekkert bendir þó til þess að píslarvottararnir heyri bænir okkar eða geti séð baráttu okkar. Taktu eftir því. Hinsvegar er augljóst að píslarvottarnir vita að enn hefur ekki verið hefnt fyrir blóð þeirra. Jesús er enn ókominn í dýrð. Þar til sá tími kemur, huggar Jesús þá og fullvissar um að allt muni gerast á tilsettum tíma. Þannig er komið fyrir þeim sem dánir eru, fram að upprisu holdsins. Þeir þrá að sameinast líkama sínum á ný. Þeir þrá að Jesús opinberi dýrð sína fyrir augum allra manna, rétt eins og við höfum nú þegar skynjað dýrðina fyrir trú á orðið. Píslarvottarnir biðja um að vonin rætist. Jesús huggar þá. Textanum lýkur svo aftur með hughreystingu, og allt til efsta dags mun vonin ekki yfirgefa sálir píslarvottanna.

Þegar þú ert viðstödd/viðstaddur útför, skaltu ekki freistast til að segja hluti eins og: „Ég er viss um að hún sér okkur.“ Segðu frekar: „Ég er viss um að hún sér Jesú og er í friði. Ég er viss um að bíður þess ákaft að upprisan komi fljótt.“ Kæru heilagir, við skulum taka undir með ástvinum okkar sem farið hafa á undan okkur í dauðanum.

Jesús segir: Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er. Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn. Sælir eru þeir, sem þvo skikkjur sínar. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina.

Op 22:12-14

Skikkja þín eru þvegin og orðin hvít í skírninni. Hið opna hlið eru orð Jesú og sakramentin. Kross hans er tré lífisins, og ávöxturinn sem hann gefur er fyrirgefning, réttlæti og friður. Dauðinn er aðeins svefn sem víkur fyrir upprisunni. Við skulum því læra að biðja eins og allir heilagir á himni og jörðu: „Kom þú, Drottinn Jesús!“ (Op 22:20) og Jesus svarar: „Já, ég kem skjótt.“

Um höfundinn

Greinin er þýdd úr ensku. Höfundur er Sr. Brian A. Flamme, prestur í Immanuel Lutheran Church í Roswell New Mexico.