Ég var sennilega bara krakki þegar ég vissi hvernig ég vildi verja lífinu. Ég vissi snemma að ég vildi eignast eigin fjölskyldu, og ég vildi annað hvort vera prestur eða kokkur. Með öðrum orðum vildi ég annað hvort bera fram venjulega fæðu eða andlega fæðu. Á unglingsárum mínum talaði ég við hina og þessa um áætlanir mínar. Ég kynntist mörgum kristnum unglingum, sem og eldra fólki, sem voru brennandi í trúnni. Það hljómar kannski furðulega, en þó nokkrir óttuðust að guðfræðinám myndi eyðileggja trúna hjá mér. „Þú finnur ekki Guð í guðfræðinni!“ Þetta var frasi sem margir kunnu og le´tu mig heyra.
Það er meira en einn hlutur sem getur hafa legið að baki. Sumir töldu að samband okkar við Guð ætti að einkennast af Biblíulestri í einrúmi, sem ekki var mengaður af skilningi annarra. Guðfræðinám myndi þá bara vera óþörf truflun. En það voru mörg rök gegn þessu. Nýja testamentið sýnir okkur til dæmis hvernig samfélag trúaðra átti að móta kristna einstaklinga og leiðbeina þeim – og gerir það reyndar hvort sem maður er meðvitaður um það eða ekki.
Aðrir töluðu um guðfræðinema sem höfðu farið brennandi inn í deildina en komið út kaldir, fullir efasemdum, og aðhylltir frjálslyndri guðfræði. Það var meira til í því. Margir guðfræðiskólar kenna nemendum sínum að efast um uppruna Ritningarinnar, og færa rök fyrir að Biblíutextinn hafi þróast og mótast af fleiri heimildum. Það er kaldhæðnislegt að grundvallarhugsunin á bakvið svoleiðis sé að nálgast þurfi Bibilíuna eins og hverja aðra bók, þ.e. eins og að Guð standi ekki að baki henni. Þegar það er forsendan, verður það augljóslega líka niðurstaðan.
Afleiðingin af þessu er svo að Biblían verður bara ein af mörgum heimildum trúarinnar, sem þarf að vega hverja á móti annarri. Þegar þetta er kennt, er skiljanlegt að margir hafi ekki fundið Guð í guðfræðinni.
Augljóslega þurfa allir guðfræðingar að þekkja til slíkra kenninga, en þeir þurfa þó ekki að samþykkja þær. Þvert á móti, ætti það að vera markmið þeirra að geta hrakið þær (Tít 1:9).
Þær eru til allrar hamingju ekki kenndar án mótvægis í öllum guðfræðiskólum. Sjálfur tók ég M.A. gráðu á skólanum Fjellhaug í Osló. Það var á þeim tíma kristniboðsskóli, og sumar áherslu því aðrar í prestsnámi, sérstaklega hvað varðar starfsnám. Guðfræði var þó kjarni námsins, og þar með hinn sami. Ofannefndar aðferðir voru kenndar á skólanum, en ekki ætlast til að maður gleypti þær, og þar var líka veitt ákeðið mótvægi.
Mín reynsla er að það er vel hægt að finna Guð í guðfræðinni, svo fremi sem guðfræðinámið raunverulega hefur þann tilgang að styrkja trúna. Það er einungis hægt þegar námið er í fullu trausti til ritningarinnar.
Sakarías Ingólfsson,
Prestur JELK
Ad-Fontes prestnám
Hjá JELK getum við boðið upp á viðbótarnám fyrir unga menn sem hafa áhuga á að fara í guðfræðinám í Noregi. Þetta nám kallast Ad-Fontes, og veitir þjálfun í ýmsum verkum sem tengjast safnaðarrekstri, undirbúa prédikanir, þjóna fyrir altari, o.s.frv. Námið býður einnig upp á námsferðir til Ísrael, Þýskalands og Ameríku (Nánari upplýsingar á Ad-Fontes.no). Námið fer fram á norsku, en við getum samt sem áður boðið upp á þjálfun á íslensku. Ef þú hefur áhuga á að læra guðfræði, og vonast til að finna Guð í guðfræðinni, þá máttu endilega hafa samband: sakarias.ingolfsson@gmail.com.