Þegar við komum saman til guðsþjónustu, förum við jafnan með sameiginlega trúarjátningu okkar. Innihald Postullegu trúarjátningarinnar, sem og annara trúarjátninga er kennt í fermingarfræðslunni, og þar læra hana flestir utanbókar. Trúarjátningin inniheldur þau grundvallaratriði úr Ritningunni sem allir kristnir menn trúa. Jafnvel þær kirkjur sem vilji ekki notast við formbundnar játningar, játa samt sem áður þau atriði sem þar koma fram. En hver er eiginlega tilgangur trúarjátningarinnar?
Trúarjátningin hefst á orðunum „Ég trúi.“ Hún er vitnisburður um hvað við vitum um Guð, og sérstaklega um fagnaðarerindið. Í ákveðnum skilningi má segja að í trúarjátningunni sé sögð saga hjálpræðisins: Þ.e. hvernig Guð hefur frelsað okkur, og hver staður okkra sé í stóru myndinni. Trúarjátningin er stutt og hnitmiðuð, og fylgir okkur hvert sem við förum.
Þrátt fyrir nafnið voru það ekki postularnir sem skrifuðu postullegu trúarjátninguna. En samt sem áður endurspegla orð hennar því hvernig Biblían boðar fagnaðarerindið. Fólki sem vildi taka trú á tímum frumkrikjunnar var gert að læra utanbókar stuttar setningar, ritningarstaði og frasa sem tjáðu og staðhæðu samantekt á trú kirkjunnar. Áður en þeir tóku skírn fóru þeir með setningarnar. Hér eru nokkur dæmi úr Ritningunni sjálfri:
- Heyr Ísrael… (5 Mós 6:4-5)
- Einn er Guð… Drottinn… (I Kor 8:6)
- Kristur dó fyrir syndir okkar… (I Kor 15:3-8)
- Jesús Kristur er Drottinn… (I Kor 12:3, Fil 2:11)
Á fyrstu þremur öldum kirkjunnar óx innihald þessara setninga, og kristnir menn fóru að nota sömu orð í þessum tilgangi. Á fjórðu öld þróaðist fyrirrennari postullegu trúarjátningarinnar, sem og Níkeujátningin, sem notuð er við guðsþjónustur í flestum kirkjum heims. Gegnum þessar játningar hafa kristnir menn og konur lært að þekkja söguna um Jesú og sinn stað í þeirri sögu.
Þegar við förum með trúarjátninguna, minnir hún okkur á hver við erum, og hverjum við tilheyrum.
Greinin er lauslega þýdd úr ensku, og er upprunalega skrifuð af Rev. Robert E. Smith.