
Ritgerðin eða greinargerðin um vald og forræði páfans, er fært í pennan af Filippusi Melankton, til þess að gagnrýna skilning páfans á valdi kirkjunnar, og þess í stað útskýra skilning lútersku kirkjunnar á málinu.
Árið 1531 komu lútersku furstarnir í Rómverska ríkinu saman í bænum Schmalkalden. Tilgangurinn var að stofna hernaðarbandalag, til að veita Karli V keisara mótstöðu, þar til mál þeirra hafði verið lagt fram fyrir almennt kirkjuþing. Johann Friðrik, kjörfursti í Saxlandi, bað Martin Lúther um að skrifa stutta játningu til að hafa meðferðis á slíkt þing. Þegar bandalagið kom saman í febrúar 1537, skrifuðu margir undir játningu Lúthers (síðar þekkt sem Schmalkalden-greinar), en hún var samt sem áður aldrei tekin upp sem opinbert skjal bandalagsins.
Þess í stað var áherslan lögð á að Ágsborgarjátningin og varnarrit hennar skyldu vera játning bandalagsins. Það var þó ákveðið efni sem játningin ekki tók fyrir með fullnægjandi hætti, þ.e. vald páfans. Filippus Melankton var því beðinn um að skrifa stutta greinargerð sem gagnrýndi skilning Rómar á valdi páfans, og færði rök fyrir lúterskum skilningi. Afraksturinn var greinargerðin Um páfans vald og forræði. Hana ber að skilja sem viðauka við Ágsborgarjátninguna, og má jafnvel kalla 29. grein hennar. Greinargerðin var undirrituð stuttu síðar, og kom út í prenti árið 1540. Hún varð að lokum hluti af Samlyndisbókinni 1580.
Fyrri hluti greinargerðarinnar birtist hér á síðunni í þýðingu Sveins Valgeirssonar, með góðfúslegu leyfi hans. Þýðingin var upprunalega birt í Filippus Melankton, „Ritgerð um páfans vald og forræði“, Glíman: Óháð tímarit um guðfræði og samfélag, nr. 7 (2007), 213–228. Þýðingin nær aðeins yfir fyrstu 59 málsgreinar greinargerðarinnar. Síðasta hlutann, málsgreinar 60–82, vantar, en þær fjalla um mátt og forræði biskupa.