Skip to content

Upphaf þáttar

Komiði sæl og velkomin í þáttinn Undirbúningur fyrir Sunnudag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson og er prestur í verkefni sem kallast Játningarbundin Evangelísk-Lúthersk kristni, og er að finna á jelk.is

Sunnudagurinn kemur er síðasti sunnudagur fyrir þrettánda. Kirkjur landsins verða skreyttar með hvítum lit, sem er litur Krists. Sunnudagana eftir þrettándann er vanalega áhersla á opinberun þess hver hann er, þ.e.a.s hver Kristur er. Þennan sunnudag munum við heyra frásögnina um ummyndun hans, sem fram kemur í þremur af guðspjöllunum skömmu eftir játningu Péturs.

Við ætlum að lesa guðspjallið og ritningarlestrana og tala aðeins um það samhengi sem þeir standa í. Að lesa textana í sinu samhengi og þekkja eins mikið og hægt er af því, er meðal þess besta sem við getum gert til að lesa og skilja þá rétt. Þá á ég ekki bara við textan rétt á undan og eftir, heldur líka frásögn ritningarinnar í heild sinni. Við skoðum dæmi um það í dag, en byrjum á því að lesa fyrri ritningarlestur.

Fyrri ritningarlestur

Fyrri ritningarlestur er að finna í 5. Mósebók, kafla 18, versum 15-19. Það er Móses, leiðtogi Ísraelsþjóðar sem talar til þeirra stuttu fyrir ævilok hans. Þá segir hann Ísraelsþjóð frá því að það muni koma nýr spámaður sem þeir eiga að hlusta á.

Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. Hann mun að öllu leyti uppfylla það sem þú baðst Drottin, Guð þinn, um á Hóreb daginn sem þið komuð þar saman og þú sagðir: „Lát mig ekki heyra aftur þrumuraust Drottins, Guðs míns, né líta aftur þennan mikla eld svo að ég deyi ekki.“Þá sagði Drottinn við mig: „Það sem þeir segja er rétt. Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

5. Mós 18:15-19

Þannig hljómar hið heilaga orð.

Móses segir að ísraelsþjóð hafi beðið um að þurfa ekki að heyra rödd Guðs. Þetta er atvik sem átti sér stað stuttu eftir að Ísraelsþjóð hafði gegnum Rauðahafið og þaðan gegnum sínaíeyðimörk og að fjalli Drottins. Það var komið að því að Guð ætlaði að gefa þjóðinna sáttmála sinn og boðorðin tíu. Undirbúningurinn á sér stað í kalfa 19. í annari Mósebók.​

Þá sagði Drottinn við Móse: „Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega.“ Og Móse flutti Drottni orð lýðsins.

2 Mos 19:9

Í framhaldinu má segja að náttúran sjálf bregðist við, þegar Drottinn boðar nærveru sína. Sínaífjall verður hulið reyk, og skelfur eins og í jarðskjálfta. Það koma þrumur og eldingar, og það heyrist mikill lúðraþytur.

Móse talar til Guðs fyrir hönd fólksins, og Guð svarar honum með hárri röddu svo allir heyra. Þegar hann svo hefur gefið þeim boðorðin tíu, finnst mörgum nóg sé komið, vegna þess að upplifunin er að mörgu leyti skelfileg. Þeir eru farnir að óttast að þeir geti ekki lifað af nærveru Guðs, og við lesum áfram í kafla 20, versum 18-10​

Allt fólkið heyrði og sá reiðarþrumurnar og eldingarnar og lúðurþytinn og fjallið rjúkandi. Og er fólkið sá þetta, skelfdust þeir og stóðu langt í burtu. 19 Þeir sögðu þá við Móse: „Tala þú við oss og vér skulum hlýða, en lát ekki Guð tala við oss, að vér deyjum ekki.“

2 Mós 20:18-19

Eins og fram kom í ritningarlestrinum, heyrir Guð þessa bæn ísraelsþjóðar og lítur vel á hana. Úr verður að Móses þjónar sem meðalgangari milli Guðs og ísraelsþjóðar. Hann flytur Guði orð þjóðarinnar, og þjóðinni orð Guðs.

En Móses getur ekki sinnt því hlutverki eilíflega, né heldur getur hann sinnt því fullkomnlega. Því ekki einu sini Móses getur raunverulega séð Guðs augliti til auglits, þótt svo að orðaskiptum hans við Guð sé stundum lýst með þeim hætti — en þá til samanburðar við aðra spámenn. Móses, eins og allir menn, var syndugur og gat ekki séð Guð og lífi haldið. Einmitt þess vegna dó líka Móses án þess að koma inn í hið fyrirheitna land.

Spámaðurinn sem Móses segir fyrir um er hinsvegar annars eðlis. Hann bæði gat og getur sannarlega verið meðalgangari milli Guðs og manna. Það hljómar kunnulega, er það ekki? Í Nýja testamentinu er nefnilega vísað í þennan spádóm. Stuttu eftir hvítasunnudag heldur postulinn Pétur ræðu þra sem hann skýrir frá því að þessi spámaður er einmitt Jesús sjálfur. (Apg 3:11ff)

Við skulum taka þetta aðeins saman: Ísraelsþjóð fékk að hluta til að upplifa nærveru hins lifandi Guðs, og hún var mjög skelfandi. Móses var því valinn til að vera meðalgangari milli Guðs og þjóðar hans um tíma. Í þessu var fólginn forsmekkur af því hvernig Guð sjálfur vildi koma til okkar öldum síðar. Hann klæddist holdi og blóði og varð sjálfur maður. Þannig varð Guð sjálfur meðalgangari milli sín og mannanna.

Við höldum áfram með síðari ritningarlestur eftir augnablik, en fyrst skulum við hlusta á þetta lag.

Síðari ritningarlestur

Þá snúum við okkur að hinum síðari.Hann er að finna í síðara almenna bréfi postulans Péturs, kafla 1, versum 16-21, og hljómar svo:

Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga.

Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

2 Pét 1:16-21

Þannig hljómar hið heilaga orð.

Bréfið sem þessi vers eru tekin úr, er skrifað til kristinna manna og kvenna sem þurftu að glíma við ýmislegt sem ógnaði trú þeirra. Það gat verið hætta á ofsóknum, villukennarar og falsspámenn, sem og löngunin til að taka þátt í óguðlegu lífi samfélagsins í Rómarveldi. Allt þetta gat leitt til þess að menn afneituðu trúnni á Krist, og þess vegna varar postulinn við því í bréfi sínu.

Það má vel segja, að það er auðvelt að finna svipaðar eða jafnvel sömu aðstæður í dag.

Víðsvegar í heiminum býður það hreinlega upp á ofsóknir að játa trú á Krist.

Einstaklignar og hópar eru reknir úr heimilum sínum og gerðir viðskila við fjölskyldur. Stundum eru þeir jafnvel fangelsaðir og geta meria að segja verið teknir af lífi.

En einnig hér á vesturlöndum, þar sem trúfrelsi ræður ríkum, eykst anstaðan við kristna trú. Og þá sérstaklega við kristna siðfræði sem byggist á Biblíunni og orði Guðs. Þá má sérstaklega nefna finnsku stjórnmálakonuna Päivi Räsänen sem í síðustu viku var dregin fram fyrir dómsstól fyrir það eitt að vitna í orð Biblíunnar.

Stöðugt er ráðist á sannleiksgildi Biblíunnar, ekki bara af andstæðingum trúarinnar heldur jafnvel af lærðum guðfræðingum. Meðal annars eru margir þeirra sem halda því fram að síðara bréf Péturs, sem þessi ritnignarlestur er tekinn úr, sé bara fölsun, og að Pétur hafi alls ekki skrifað það. Ég ætla ekki að fara yfir rökin hér, bendi bara á það að menn frumkirjunnar skoðuðu þetta mál gaumgæfilega, og þekktu sum af rökunum sem eru notuð í dag. Samt sem áður komust þeir augljóslega að þeirri niðurstöðu að bréfið er ósvikið, því það varð hluti af nýja testamentinu.

En aftur að efninu. Jafnvel kærleikur okkar til vina og fjölskyldu sem ekki deilir trú okkar, getur orðið til þess að við getum ekki borið hugsunina um eilífan aðskilnað, og tökum þess vegna sjálf skref út úr kirkju Krists, og út úr náð hans.

Síðara bréf Péturs er skrifað til manna og kvenna sem kljást við svona, og jafnvel erfiðari vandamál. Hann bendir lesendum sínum á að líta á grundvöll boðunarinnar, og nefnir tvö atriði í þessum ritningarlestri. Annars vegar er það vitnisburður sjónarvottana, þeirra sem sáu Krist með eigin augum. Pétur sjálfur, sem skrifar bréfið, er meðal þeirra. Hann bendir sérstaklegta á söguna um ummyndun Krists, sem við munum heyra um í Guðspjalli sunnudagsins, og förum yfir eftir stutta stund. Pétur var til staðar, og sá allt með eigin augum. Þetta er svipað og þegar postulinn Jóhannes skrifar:

Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur. Já, það sem við höfum séð og heyrt það boðum við ykkur

1 Jóh 1:1-3a

En Pétur bendir ekki bara á vitnisburð sjónarvottana, heldur líka á orð spámannana, þ.e.a.s á ritningar Gamla testamentisins.

Þessar ritnignar eru orð Heilags anda, og með Heilögum anda er okkur gefið að lesa og skilja innihald þeirra. Þær fjalla nefnilega um Krist, eins og við sáum þegar við fórum yfir fyrri ritningarlesturinn úr 5. Mósebók.

Pétur lýsir orðum gamla testamentisins eins og ljósi sem lýs á myrkum stað þar til dagur ljómar. Með öðrum orðum: Ritnignar gamla testamentisins vitna um Krist áður en hann kom, og svo kom hann, og sjónarvottarnir staðfesta allt saman. Pétur er ekki að segja: “Hlustaðu á hjarta þitt” eða “sjáðu hvað kristnir menn eru flottir” heldur segir hann: “Sjáðu, það sem við erum að segja er satt: Þið hafið ritningarnar, og þið hafið sjónarvottana.”

Við tökum smá hlé og hlustum á eitt lag, og höldum svo áfram með guðspjallið.

Guðspjall

Guðspjall þessa síðasta sunnudags eftir þrettánda er að finna í Matteusarguðspjalli, kafla 17, versum 1-9

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“

Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“

Matt 17:1-9

Þannig hljómar hið heilaga Guðspjall.

Ef við skoðum samstofna guðspjöllin þrjú, þ.e.a.s Matteusar-, Markúsar- og Lúkasarguðspjall, og lítum á þau í heild sinni, sjáum við að það má skipta hverju þeirra lauslega í tvo megin hluta. Fyrri hlutinn glímir sérstaklega við spurninguna: Hver er þessi Jesús? Áherslan er lögð á þætti eins og meyfæðinguna, kraftaverk og tákn Krists, sem og að hann kennir eins og sá sem vald hefur. Endanleg niðurstaða kemur svo með Játningu Péturs, að Jesús sé Kristur, Messías, sonur hins lifandi Guðs. Síðari hluti guðspjallana byggir svo á þessari játningu, en tekur svolítið nýja stefnu: Matteus 16:21 kynnir hana svona:

Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi.

Matt 16:21

Þótt skilin séu ekki mjög greinileg, má samt sem áður segja að fyrri hluti guðspjallanna svari spurningunni: Hver er þessi Jesús? og síðari hluti svari spurningunni: Hvers vegna kom hann til okkar?

Frásögnin um ummyndun Krists, er að mörgu leyti ítrekun og frekari opinberun á játningu Péturs. Pétur segir: “Þú er sonur hins lifandi Guðs,” og svo er honum sýnt hvað það í raun þýðir.

Jesús tekur hann með sér, ásamt Jóhannesi og Jakobi upp á þetta háa fjall. Þar ummyndast hann fyrir augum þeirra, klæðin hans verða björt eins og ljós og andlit hans lýsir eins og sólin.

Þetta er lýsinging á dýrð Guðs sem skín eins og sólin. Þetta er það sama og nefnt er í lok opinberunar Jóhannesar:“Og borgin þarf hvorki sólar við né tungls til að lýsa sér því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar.”

Opinb 20:23

En svo er dýrð Guðs líka lýst í gamla testamentinu.

Mjög sérstakt atvik á sér í 33. kafla annarar Mósebókar, stuttu eftir það sem ég sagði frá í sambandi við fyrri ritningarlestur. Þar er það spámaðurinn Móses, sem hafði leitt ísraelsþjóð út úr ánauð í Egyptalandi og var á leið gegnum Sínaíeyðimörk í áttina að landinu helga. Móse bað þá Guð um að opinbera fyrir sér og sýna sér dýrð sína. Guð svarar honum:

Þarna er staður, stattu uppi á klettinum. Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskorunni og hyl þig með lófa mínum þar til ég er farinn fram hjá. Þegar ég tek lófa minn frá muntu sjá aftan á mig. Enginn fær séð auglit mitt.

2 Mos 33: 21-22

Eftir að hafa séð þessa miklu sýn, og ljóma Guðs, jafnvel bara að hluta til, þá endurspeglaðist ljóminn á Móse, þannig að einnig andlit Móse ljómaði og hann þurti að hylja sig með slæðu þegar hann kom aftur í tjaldbúðir ísraelsmanna. Hann hafði séð opinberun á dýrð Guðs, og þar með á Guði sjálfum.

Þetta ítrekar þess vegna það sem er að gerast þegar bæði Móses og Elía, báðir vel þekktir spámenn úr gamla testamentinu, birtast á fjallinu háa með Jesú og postulunum, og ræða við hann þar. Við eigum að hafa þetta allt saman í huga.

Hér á sér stað sama opinberunin, og það er opinberun á Guði sjálfum í Jesú Kristi. Eða með öðrum orðum, opinberun á því að Jesús Kristur er ekki bara maður, heldur er hann einnig “sonur hins lifandi Guðs.” Og ef allt þetta er ekki nóg fyrir lærisveinana, heyra þeir líka Rödd Guðs Föður frá himnum, sem endurtekur það einu sinni enn:

„Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“

Er þetta ekki frábært? Það minnir okkur aftur á fyrri ritningarlesturinn, þar sem Móse sagði fyrir um komu spámannsins. “Á hann skuluð þið hlýða” sagði Drottinn fyrir munn Móse, og áfram: “Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.” Og nú hefur röddin hljómað frá himini:

„Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“

Þáttarlok

Kjarni Guðspjallsins næstkomandi sunnudags og niðurstaða þess, er þessi einfaldi vitnisburður um Jesú Krist, sem er borinn fram af sjónarvottunum, þar á meðal Símoni Pétri postula, að: Hann er sonur hins lifandi Guðs. Jesús er Drottinn sjálfur! Á hann eigum við að hlýða, á hann eigum við að trúa, og honum eigum við að treysta.

Og með þeim orðum þakka ég ykkur fyrir samfylgdina í dag og vona að þátturinn hafi orðið ykkur til gagns og uppbyggingar, og ekki síst góður undirbúningur fyrir messu á sunnudag. Verið þið sæl.