Skip to content

Undirbúningur fyrir þrenningarhátíð

Kirkjuárið

Kirkjuárinu má skipta í tvo megin helminga. Fyrri helmingurinn markast af þremur megin hátiðum kristninnar. Hann byrjar á aðventu og jólum, þá kemur fasta og páskar og að lokum páskatími og hvítasunna. Þetta er sá helmingur kirkjuársins þegar við fylgjum sögunum af Jesú, að hluta til í rauntíma. Síðari hlutinn hefst með Þrenningarhátíð eða Trínítatis, og á eftir henni koma sunnudagar eftir þrenningarhátíð. Í þessum helmingi kirkjuársins eru engar megin hátíðir, og því meiri áhersla á kenningu Jesú. Sunnudagurinn kemur er sjálf þrenningarhátíðin, og hún leggur áherslu á heilaga þrenningu. Í mörgum kirkjum viðsvegar um heim er þá notuð hin svokallaða Atanasíusarjátning, sem er töluvert lengri en bæði Postullega trúarjátningin sem er algeng í messum á Íslandi, og Níkujátningin sem er notuð í messum víðast hvar um heim. Þá er litur þrenningarhátiðarinnar hvítur víðast hvar, en Íslandi er hann rauður. Þannig að kirkjur landsins verða skreyttar með rauðum lit. Þá sunnudaga sem á eftir koma, fram að aðventu verður lang oftast skreytt með grænum. Það er litur vaxtar og framfara.

Textarnir á þrenningarhátíð (Textaröð B)

Í fyrri ritningarlestri í fyrstu mósebók, kafla 18, versum 1–5 opinberar hinn þríeini Guð sig fyrir Abraham, sem þrír menn. Síðari ritningarlesturinn er lokakveðjan úr síðara Korintubréfi, og hún endar á orðunum sem við þekkjum í dag sem postullega blessun. Guðspjallið kemur úr 11. kafla Matteusarguðspjalls, og er það bæn sem Jesús biður, og vitnar með henni um það hver hann er.

‌Fyrri ritningarlestur: 1 Mós 18:1–5

Fyrri ritningarlestur er að finna í 18. kafla fyrstu Mósebókar.

1 Drottinn birtist Abraham í Mamrelundi, er hann sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum. 2 Og hann hóf upp augu sín og litaðist um, og sjá, þrír menn stóðu gagnvart honum. Og er hann sá þá, skundaði hann til móts við þá úr tjalddyrum sínum og laut þeim til jarðar 3 og mælti: „Herra minn, hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum. 4 Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu. 5 Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, – síðan getið þér haldið áfram ferðinni, – úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar.“ Og þeir svöruðu: „Gjörðu eins og þú hefir sagt.“

1 Mós 18:1–5

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

Í 12. kafla fyrstu Mósebókar er sagt frá því hvernig Drottinn kallar Abraham til að verða ættfaðir mikillar þjóðar með konu sinni Söru. Drottinn vildi gefa þeim landssvæði til að búa á, og hét því að Abraham og afkvæmi hans myndu verða til blessunar fyrir allar þjóðir heims. Hér er Drottinn vitanlega að vísa til Krists, sem hefur orðið öllum þjóðum til blessunar.

En í augum Abrahams og Söru var vandamálið að þau voru barnslaus, og þar af leiðandi engir afkomendur. Þegar þau fengu fyrirheitið voru þau þegar komin langt upp fyrir venjulegan barnseignaraldur. Abraham var 75 ára gamall, og Sara kona hans var 64. Fáir eignast börn á þeim aldri, þótt það eigi sér reyndarf stundum stað. Til dæmis árið 2019, þegar indverska konana Manga’yamma Yara’mati fæddi tvíbura, en hún var þá 73 ára gömul. En Guð lét reyna á þolinmæði Abrahams og Söru, þar til Sara var komin langt yfir breytingaskeiðið, og öll von var úti. Fæðing Ísaks skyldi vera kraftaverk Drottins.

Ritningarlesturinn sem við lásum átti sér stað þegar Abraham var 99 ára en Sara 90. Þá kemur Drottinn til hans til að segja að loksins á næsta ári muni Sara eignast son. Það skyldi ekki að vera nokkur vafi um það að hér væri um kraftaverk að ræða. Það var líkamlega ómögulegt fyrir Abraham og Söru að eignast barn, nema að Guð gripi sérstaklega inn.

Og það er enn merkilegra hvernig Drottinn birtist Abraham: Sem einn þriggja manna, som komu í heimsókn til hans. Í næsta kafla er skýrt frá því að tveir þessara manna voru englar, en sá þriðji er Drottinn. Getur hér verið um annað að ræða en sjálfan Krist, sem hér birtist Abraham jafnvel fyrir holdtekju sína, og talar við hann augliti til auglitis?

Reyndar ætti það ekki að koma okkur sérstaklega á óvart. Drottinn birtist með þessum hætti allnokkrum sinnum í gamla testamentinu. Til dæmis í aldingarðinum þegar hann gengur um í aftansvalanum, sem konungurinn Melkísedek, í sögunni um Abraham og Ísak á Mórífjalli, í Þyrnirunnanum brennandi, í sögunnium Gídeon, vinir Daníels í eldsofninum, og þannig mætti áfram telja. Kristur er ekki bara efni spásagnanna og fyrirheitanna í gamla testamentinu, heldur er hann raunverulega til staðar. Þar sem Guð Faðir er, þar er einnig Sonurinn og Heilagur Andi.

Drottinn kallaði Abraham til að verða ættfaðir mikillar þjóðar, og hann hélt verndarhendi sini yfir þessari þjóð, vegna þess að frá henni skyldi hann sjálfur koma. Þessi þjóð átti að bera fram Maríu mey, og hún bar fram Jesú Krist. En Sonur Guðs var til staðar í öllu gamla testamentinu, jafnvel löngu fyrir fæðinug sína. Enda segir Jesús við farísea í lok 8. kafla Jóhannesarguðspjalls:

56 Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist.“ 57 Nú sögðu Gyðingar við hann: „Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!“ 58 Jesús sagði við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég.“

Jóh 8:56–58

‌Heilög þrenning í messunni

Þú hefur eflaust tekið eftir því hvernig nafn hins þríeina Guðs gegnumsýrir messuna alla. Og ef ekki, þá tekur þú vonandi eftir því núna á sunnudag, eða næst þegar þú kemur í messu.

Messan hefst gjarnan með orðum Matt 28:19: “Í nafni Guðs Föður, Sonar og Heilags anda.” Allt það sem á eftir kemur, er þar af leiðandi í nafni hins þríeeina Guðs. Kollektubæninni er yfirleitt beint til Guðs Föður, og endar síðan í þess átt: “fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér og Heilögum Anda lifir og ríkir, einn sannur Guð um aldir alda. Amen.” Hér er nafn hins þríeeina Guðs undirstaða bænarinnar.

Davíðssálmur og prédikun geta endað á því að gefa hinum þríeeina Guði dýrðina, og minnir það um þeirri messu á himnum sem lýst er í 4. og 5. kafla opinberunar Jóhannesar. Í messunni er sagt: “Dýrð sé Guði Föður, Syni og Heilögum Anda, sem var, er og verða mun um aldir alda.”

Fyrir prédikun les prestur jafnan postullega kveðju: “Náð sé með yður og friður frá Guði Föður vorum og Drottni Jesú Kristi.” Þessi kveðja kemur úr fyrsta kafla Rómverjabréfsins, kalfa 1, versi 7.

Miskunnarbænnin er endurtekin þrisvar: “Drottinn miskunna þú oss, Kristur miskunna þú oss, Drottinn miskunna þú oss.” Hér er eðlilegt að hugsa að þrítekningin svari til Heilagrar þrenningar, og oft er hún einmitt tjáð þannig. En upprunalega var hún þó sérstaklega bæn til Krists, og kallar hann þá bæði Drottinn og Krist. Hún byggist á þremur tilvikum í Nýja testamentinu þar sem fólk sem var hjálpar þurfi sagði “Miskunna þú mér Herra, sonur Davíðs.“ Jesús er kallaður Herra eða Drottin, sem og Sonur Davíðs eða Messías. Bænin ber þannig með sér þá játningu sem Rómverjabréfið 10:9 talar um:

9 Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn – og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða.

Róm 10:9

Eins og á má sjá er hin hefðbundna guðsþjónusta gegnumsýrð af þeirri játningu að Guð sé bæði einn og þrír. Han er ein vera, en þrjár persónur: Faðirinn, Sonurinn og Heilagur Andi. Enn eitt dæmið um nákvæmnlega þessa játningu er hin postullega blessun sem lesin er rétt eftir prédikun. Hana er að finna í síðari ritningarlestri þessa sunnudags og því skulum við lesa hann núna:

‌Síðari ritningarlestur: 2 Kor 13:11

Síðari ritningarlesturinn kemur úr síðara Korintubréfi, 13. kafla, versum 11–13:

11 Að öðru leyti, bræður, verið glaðir. Verið fullkomnir, áminnið hver annan, verið samhuga, verið friðsamir. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með yður. 12 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir heilagir biðja að heilsa yður. 13 Náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.

2 Kor 13:1–11

Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

Það hefur stundum verið bent á þá staðreynd að Biblían notar hvergi hugtakið “Heilög þrenning.” Það er alveg rétt, enda er það hugtak sem komið hefur síðar, til þess að lýsa því sem Biblían vitnar um. Síðari ritningarlestur, sem og hin versin sem ég hef bent ykkur á, beina okkur öll í sömu átt. Guð er bæði einn og þrír á sama tíma.

Hann er einn Guð, en hann er á sömu stundu Faðir, Sonur og Heilagur Andi. Það er þess vegna sem Páll endar bréf sitt á þessum orðum. Hann talar um Náð Jesú Krists, um kærleika Guðs og um samfélag heilags anda.

Náðin Drottins vors Jesú Krists er niðurstaða dauða hans á krossinum og upprisu hans á þriðja degi. Fyrir verk og friðþægingu Jesú Krists, lítur Guð til okkar með náð, þ.e.a.s sem vinur okkar, og hann fyrirgefur okkur allar syndir. Hann gefur okkur upp allar skuldir sem við eigum við hann.

Síðan er það kærleiki Guðs sem að fyrra bragði sendi soninn í heiminn, eins og litla Biblían kennir okkur:

16 Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

Jóh 3:16

Kærleiki Guðs er því ekki bara einhver fljótandi tilfinning, heldur kemur hann fram í hjálpræðisverki hans.

Samfélag Heilags Anda er að lokum samfélag heilagra í kirkju hans. En ekki hvaða samfélag sem er, heldur það samfélag þar sem hann talar. Með öðrum orðum, samfélagið þar sem fagnaðarerindið um Jesú Krist er prédikað hreint og ómengað, og þar sem sakarmentum hans er úthlutað rétt. Það er samfélag kærleikans, þar sem þessi boðskapur hljómar og skapar nýtt líf í okkur.

Jafnvel þótt við mætum Guði sem þremur persónum, og að einvherju leyti í þremur hlutverkum, þá mætum við alltaf hinum sama Guði, þegar við mætum hinum þríeeina Guði. Það er kærleiki hans til okkar, sem hefur knúið hann til að gefa líf sitt fyrir okkur á krossinum, og það er kærleiki hans sem stöðugt veitir okkur ávinninginn af þessari fórn hans.

‌Guðspjall: Matt 11:25–27

Ritningarlestrarnir úr gamla testamentinu og úr 2. Korintubréfi hafa vitnað um Heilaga Þrenningu eða hinn þríeina Guð: Föðurinn, Soninn og Heilagan Anda. Eins gerir guðspjallið það.

Guðspjall þrenningarhátiðar er að finna í 11. kafla Matteusarguðspjall, versum 25-27. Þegar hér er komið sögu í Guðspjallinu er Jesús að ferðast um Galíleu og kenna í borgum þeirra. Í fyrri hluta kaflans svarar hann orðsendingu frá Jóhannesi Skírara, og skýrir frá stöðu Jóhannesar sem mesta spámanni sögunnar fram að Jesú. Kannski einmitt vegna þess að Jóhannes gat bókstaflega bent á Jesú Krist og sagt: Þarna er hann.

En síðan snýr Jesús sér að borgunum þar sem hann hefur kennt og gert kraftaverk, en sem þó hafa ekki snúið aftur til Drottins. Jesús bölvar jafnvel borgonum Korsaín, Betsaída og Kapernaum. Bærilegra hefur verið í Sódómu og Gómóru á þeim dögum þegar þessar borgir verða dæmdar. Og Kristur var einmitt sjálfu þar, því mennirnir þrír sem við lásum um í fyrri ritningarlestri, héldu svo áfram til að dæma og eyða þessum borgum. Greint er frá því frá miðjum 18. kafla fyrstu Mósebókar.

Þrátt fyrir dóm Guðs, voru ekki allir óréttlátir. Jafnvel í Sódómu bjó hinn réttláti Lot, sem treysti boðum Guðs þegar þau komu, og flúði úr borginni. Eins, jafnvel þótt margir hafi afneitað Kristi, eru samt margir sem játa hann. Það er það fyrsta sem við heyrum um í guðspjallinu.

Guðspjallið þrenningarhátíðar er að finna í 11. kafla Matteusarguðspjalls, versum 25–27

25 Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, herra himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum, en opinberað það smælingjum. 26 Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. 27 Allt er mér falið af föður mínum, og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

Matt 11:25–27

Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

Heilög Þrenning, það að Guð er einn og á sama tíma þrír, er mikill leyndardómur, og margt varðandi þennan leyndardóm hefur ekki verið opinberað fyrir okkur. Það er ekki hægt að þessari niðurstöðu með stærðfræðilegum, vísindalegum eða heimsspekilegum vangaveltum eða íhugun. Faðirinn, Drottinn himins og jarðar, hefur hulið sjálfan sig á þeirri leið.

Við þekkum hinn þríeeina Guð, sem og Jesú Krist, einungis í þeim mæli sem hann hefur opinberað sérstaklega fyrir okkur. Sú opinberun fer fram í orði hans: Því orði sem talað er fyrir munn spámannanna í gamla testamentinu. En framar því er það Jesús Kristur sem er opinberun Guðs á sjálfum sér.

Páll postuli skrifar um Krist í fyrsta kafla Kólossusbréfsins og segir:

15 Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar. 16 Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans. 17 Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum. 18 Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu. 19 Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa 20 og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.

Kól 1:15–20

‌Eins er ritað í fyrstu orðum Hebreabréfsins

1 Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna. 2 En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört. 3 Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði oss af syndum vorum og settist til hægri handar hátigninni á hæðum.

Heb 1:1–3

Þannig eru orð Hebreabréfsins. Guð hefur opinberað sig fyrir okkur í Drottin Jesú Kristi. Sá sem trúir á hann, trúir einnig á Föðurinn og Heilagan Anda, enda opinberar hann sig ekki án þess. Og í þessari trú eigum við hið eilífa líf.

Dýrð sé Guði, Föður, Syni og Heilögum Anda, sem var, er og verða mun, einn sannur Guð um aldir alda. Amen.