Í lok postullegu trúarjátningarinnar koma þessi furðulegu orð: „Ég trúi á… upprisu holdsins.“ Eða allavega voru þessi orð í trúarjátningunni þegar ég lærði hana á barnsaldri. Sumir sögðu reyndar „upprisu mannsins“ og hefur það orðalag smám saman tekið algerlega við. Kannski ekki furða, þegar sumir tengja upprisu holdsins allt öðru efni.
En við hvað var eiginlega átt með þessum orðum, og tjáir „upprisa mannsins“ hið sama. Að baki orðinu hold býr orðið carnis á latínu, sem svarar til orðsins gríska orðsins sarx í nýja testamentinu á frummáli sínu. Orðið getur haft meira en eina merkingu, en á hér sérstaklega við líkamann.
Upprisa holdsins er ekkert annað en upprisa líkamans á hinsta degi. Það er þetta sem Jesús talar um í Jóh 5:28-29:
Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.
Jóh 5:28-29, sjá einnig 1 Kor 15:35-49; 1 Þess 4:13-18; Mark 10, Jóh 6:39-44
Ef „upprisa mannsins“ er skilið með ofangreindum hætti, má segja að upprisa mannsins og upprisa holdsins sé hið sama, eða allavega í megin atriðum. En það er engan veginn sjálfsagt. Þeir eru margir og þeim fer fjölgandi sem hafa þann skilning á mannverunni, að hún samanstandi af sál sem býr í líkama. Þ.e.a.s. að sálin sé raunverulegur kjarni hennar, og að líkaminn sé ekkert annað en tímabundin skurn, heimili eða jafnvel fangelsi fyrir sálina. Að maðurinn rísi að nýju merkir þá fremur umbreytingu, og að maðurinn rísi í annarri mynd, frjáls undan ánauð líkamans.
Meinlæti og sældarhyggja
Þer sem líta svo á, þurfa yfirleitt að taka afleiðingunum af því líka. Oft á tíðum stefnir þá í eina af tvennum öfgum, sem mætti lýsa annarsvegar sem meinlæti og hins vegar sem svalli.
Meinlæti er það að afneita líkamanum, og beita honum miklum aga eða sjálfsmeiðingum, neita sér um þau gæði sem Guð hefur gefið, og jafnvel fyrirlíta sjálfan sig. Í fyrra Tímóteusarbréfi skrifar postulinn Páll um menn sem kenna öðrum meinlæti og jafnvel krefjast þess af þeim. Páll varar við slíkum mönnum sem andstæðingum kristinnar trúar (1 Tím 4:1-5)
Það er gott og rétt er að taka við gjöfum Guðs, einmitt sem gjöfum. Þær þarf ekki að verðskulda og þær á alls ekki að fyrirlíta, heldur helga með Guðs orði og bænum.
Hinar öfgarnar eru þó mun algengari, að farið er með líkamann eins leikfang, og að hann hafi engan annan tilgang en að veita eins mikla nautn og hægt er. Þetta er það sem kallað er sældarhyggja og jafnvel svall. Hún getur haft margar birtingarmyndir.
Sumir verða svo sjúklega uppteknir af því að halda líkamanum við, að allt sem kemur sálinni við þarf að láta í minni pokann. Aðrir reyna sífellt að breyta og lagfæra líkamann til að passa við það sem sálin vill tjá. Enn aðrir halda því fram að það sé í lagi að losa sig við og deyða líkamann þegar hann er orðinn of gamall og þreyttur til að verða nautninni að gagni. Aftur sýnir postulinn Páll okkur það, að svoleiðis hugsun sé bein afleiðing og reyndar augljós niðurstaða þess að afneita upprisunni.
Ef dauðir rísa ekki upp,
1 Kor 15:32b
etum þá og drekkum,
því að á morgun deyjum vér!
Upprisan
Skilningur ritningnarinnar er hins vegar sá að maðurinn samanstendur af bæði líkama og sál. Hvoru tveggja var frá sköpuninni ætlað að vera tengt saman eilíflega. Líkamlegur dauði er afleiðing upprunasyndarinnar í aldingarðinum. Eins og Guð varaði Adam við, kom dauðinn inn í heiminn þegar hann át af skilningstrénu (1 Mós 2:17, sbr. Róm 5:12).
En Jesús lofar því líka að hann muni koma aftur og endurreisa það sem fallið er. Þeir sem dánir eru í trúnni á Krist fá líkama sína aftur, og þá ódauðlega.