Skip to content

Vegurinn, Sannleikurinn og Lífið

Fyrri ritningarlestur: Sálm 126

‌Það er í raun alveg óskiljanlegt að Biblían skuli hafa sína egin sálmabók, og samt sem áður höfum við enga virka hefð fyrir því að syngja þessa sálma og læra þá utanað. En til þess eru þeir. Til að kunna þá. Til að sygja þá, raula þá við störfin sín, velta þeim fyrir sér, og læra af þeim. Sálmar Biblíunnar gefa okkur jafnvel orð til þess að ávarpa Drottinn þegar okkur vantar eigin orð. Margir þeirra tala líka eins og samfélag, og sálmur 126 er einmitt dæmi um það. Hann er kallaður helgigönguljóð því hann var skrifaður til þess að vera sunginn af pílagríumum á leið til Jerúsalem til að táka þátt í musterishátíðunum sem voru haldnar þrisvar á ári. Það eru hátíð ósýrðu brauðanna, þ.e.a.s páskar, hátíð viknanna, sem við köllum hvítasunnu og síðan laufskálahátíðin, sem er seint á hausti.

‌1 Helgigönguljóð. Þegar Drottinn sneri við hag Síonar, þá var sem oss dreymdi.2 Þá fylltist munnur vor hlátri, og tungur vorar fögnuði. Þá sögðu menn meðal þjóðanna: „Mikla hluti hefir Drottinn gjört við þá.“3 Drottinn hefir gjört mikla hluti við oss, vér vorum glaðir. 4 Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.6 Grátandi fara menn og bera sæðið til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.

Sálm 126

‌Þannig hljóðar hið heilaga orð. Guði sé þakkargjörð.

‌Það er augljóst að þessi sálmur hefur að geyma sameiginlegar miningar Ísraelsþjóðar, sem og skilning á því hvað það þýðir að vera lýður Drottins. (Gen 12:1) Það var hann sem kallaði Abraham til að verða ættfaðir þjóðarinnar. Það var hann sem frelsaði þjóð sína úr þrælknun og ánauð í Egyptalandi, og hann kennir sig sérstaklega við þennan atburð. Þeir sem hafa lesið gamla testamentið þekkja vel ávarpið: (Exo 20:1) “Ég er Drottin Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.” Þjóðin fær síðan fyrirheitna landið aftur, en þarf nú að berjast fyrir því, og það endar á því að taka mjög langan tíma. (2 Sam 5:6) Jafnvel Davíð konungur þarf að berjast, og tekur hann vígi á fjallshrygg sem heitir Síon. Þar byggir hann Davíðsborg, og í dag þekkjum við það sem hluta Jerúsalem. (KORT) Aftast í Biblíunni þinni eru nokkur kort, og meðal annars teikning af Jerúsaslem á tíma Jesú. Þar er teiknaður inn svona botnlangi suður af musterinu, og það er þetta sem er Davíðsborgin. Þá gefur að skilja að musterið var sett rétt fyrir ofan borgina.

‌Síon er þessi hryggur þar sem borgin og musterið er. Nafnið Síon merkir þess vegna líka Jerúsalem og Musterið, og táknar nærveru Guðs hjá lýð sínum.‌

‌Þegar sálmurinn byrjar á því að segja að Guð hafi snúið hag Síonar, þá liggur beint við að hugsa til baka til herleiðingarinnar. Jerúsalem var lögð í rúst, múrarnir brotnir og musterið brennt til kaldra kola. Það leit út fyrir að óvinir Guðs hefðu sigrað. En Guð snéri hag Síonar við og leiddi þjóð sína aftur úr ánauð. Borgin og musterið voru endurreist.

‌Þannig er Drottinn. Han er sá sem gerir mikla hluti og frelsar úr ánauð. Hann gerði það í Egyptalandi, í Babylon og á Síon í Jerúsalem. Þetta er auðvitað líka spádómur um Krist. Aftur leit út fyrir að óvinur Guðs hefði sigrað — ekki síst þegar Jesús var líflátinn á krossinum. En Drottinn snéri við hag Síonar, ennig þá, og vísaði veg gegnum dauðan og aftur til lífsins.

‌Þess vegna getum við aftur og aftur sungið þennan sálm í þeirri helgigöngu sem lífið með Jesú er. Jafnvel í mótlæti og þjáningum segjum við:‌ „… Snú við hag vorum, Drottinn, eins og þú gjörir við lækina í Suðurlandinu.5 Þeir sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng.“

‌Síðari ritningarlestur: 2 Kor 4:14

‌Komið þið sæl aftur. Þetta er þátturinn undirbúningur fyrir Sunnudag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson, og við erum að fara yfir texta næstkomandi sunnudags, sem er 4. sunnudagur páskatímans. Síðari ritningarlestgur er að finna í síðara bréfi Páls postula til Korintumanna. Þetta er bréf sem er svolítið snúið að setja í sögulegt samhengi, en ég ætla að gera tilraun til þess.

‌Postulasagan segir okkur frá kristniboðsferðum Páls postula og förunauta hans. (Act 13:1) Í þrettánda kafla er sagt frá því hvernig kristniboðsþjónusta Páls hefst, í söfnuðinum í Antíokkíu í Sýrlandi. Þaðan ferðast hann í áföngum um núverandi Tyrkland og alla leið vestur til Grikklands. (Act 18:1) Það er þó ekki fyrr en í annari ferð að hann kemur til Korintu, prédikar fagnaðarerindið, menn taka trú og upp úr því myndast svo söfnuður. (Act 18:18) Síðan lýkur þessari ferð, Páll ferðast aftur til Antíókíu og alla leið til Jerúsalem. Einhverju síðar fer hann af stað í þriðju ferð. Páll ferðast aftur gegnum Galataland, og kemur að vesturströnd núverandi Tyrklands, í bænum Efesus. Þar er hann um tveggja ára skeið.‌

Á meðan þessu stendur, virðast hafa komið upp alls konar vandamál í söfnuðinum í Korintu. Meðal þeirra eru þrætur og flokkadrættir, jafnvel stéttaskipting og þar að auki allskonar ósiðlegt líferni. Ofan á það bætist að guðsþjónusturnar voru ruglingslegar, skipulagslausar og einkenndust jafnvel af valdabaráttu. Þegar Páll fréttir af stöðunni, skrifar hann fyst bréf til að leiðbeina söfnuðinum. Þetta bréf hefur glatast, en Páll minnist á það í fyrra Korintubréfi (1 Cor 5:9). Páli berst þá svarbréf frá Korintu, ásamt fleiri fréttum, og þá skrifar hann bréfið sem við köllum fyrra Korintubréf. Það tekst á við hin mörgu vandamál safnaðarins (1 Cor 16:5). Páll sendir líka samverksmann sinn, Tímóteus, til þeirra, til að leiðbeina þeim frekar. Því miður reynist þó hlutverkið Tímóteusi ofvaxið, og Páll ákveður að hann þurfi sjálfur að mæta á staðinn. En því miður fer staðan versnandi, og Páli gengur líka illa að leiðbeina þeim. Það virðast hafa verið sterkir leiðtogar á staðnum, sem voru Páli mjög óvinsamlegir. Páll endar á því að fara aftur til Efesus, og heldur síðan af stað til Makedóníu, eins og sagt er frá í 20. kafla Postulasögunnar, versum 1 og 2 (Act 20:1-2).

‌Eftir heimsóknina í Korintu skrifaði Páll bréf sem stundum er kallað tárabréfið (2 Cor 2:3), og annað korintubréf vísar til þess tvisvar. Sumir telja að þetta bréf sé í raun kaflar 10–13 í síðara korintubréfi, en það er þó ekki alveg ljóst. Hvort heldur sem er, var Páll svo harðorður í tárabréfinu, að hann sá um tíma eftir því að hafa sent það. (2 Cor 7:8) Það varð þó til blessunar. Títus, annar samverksmaður hans, skilaði bréfinu, og hélt síðan norður til að hitta Pál aftur í Makedóníu (2 Cor 7:5-6). Títus gat greint frá þeirri gleðifregn að Korintumenn höfðu iðrast, og horfið aftur til trúarninnar. Páll skrifar strax bréfið sem saman stendur af fystu níu köflum annars korintubréfs. Þeir bera þess merki að Páli sé mikið létt. Ef við notum orð sálmsins má segja að Páll hafi sáð með tárum en uppskorið með gleðisöng.

‌Harkan kemur þó aftur í kafla 10, eins ég ýjaði að áðan, og á því geta verið ýmsar skýringar. Kannski eru þessir kaflar þetta svokallaða tárabréf, kannski er hann að skrifa til þeirra sem enn ekki hafa iðrast, eða hugsanlega hafa aðstæður aftur breyst eftir að fyrri hlutinn var skrifaður.

‌Ritningarlesturinn er hinsvegar úr fyrri hlutanum, nánar tiltekið úr 4. kafla. Í þessum kafla minnist Páll á allar þær þjáningar og mótlæti sem hann, og samverksmenn hans, hafa þurft að líða, meðal annars af hendi ákveðinna manna í Korintu. Það hefði verið einfaldast að gefast bara upp, og stundum hefur orkan verið alveg á þrotum. En í öllu þessu mótlæti vita þeir samt að boðskapurinn sem þeir bera fram—Fagnaðarerindið—er kraftur Guðs. Í því felst vonin um upprisu holdsins á efsta degi, til heilagleika og eilífs lífs. Það er þessi von sem drífur þá áfram.

‌Við skulum að lokum lesa ritningarlesturinn, úr síðara Korintubréfi, kafla 4, versum 14–18:

‌14 Vér vitum, að hann, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja oss ásamt Jesú og leiða oss fram ásamt yður. 15 Allt er þetta yðar vegna, til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar. 16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður. 17 Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt. 18 Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.

2 Kor 4:14-18

‌Þannig hljóðmar hið heilaga orð. Dýrð sé þér Drottinn, því þú hefur orð eilífs lífs. Hvert annað ættum vér að fara.

‌Guðspjall

‌Komið þið sæl aftur. Þetta er þátturinn undirbúningur fyrir Sunnudag. Ég heiti Sakarías Ingólfsson, og við erum að fara yfir ritningarlestra og guðspjall næstkomandi sunnudags. Rétt fyrir síðasta hlé lásum við texta úr síðara Korintubréfi, kafla 4. Samband Páls postula við söfnuðinn í Korintu í Grikklandi, hafði markast af ýmsum raunum, rifrildi, og jafnvel af beinum fjandskap. Páll hafði ítrekað reynt að kenna þeim muninn á réttu og röngu, sem og fagnaðarerindið um dauða og upprisu Jesú Krists. Leiðtogar sem til dæmis vildu blessa bæði villukenningu og saurlífi, höfðu talað harkalega gegn honum, og fengið söfnuðinn með sér. Eina ástæðan fyrir því að Páll gafst ekki upp, var að hann þekkti mátt fagnaðarerindisins. Hann þekkti voinina um upprisu holdsins á efsta degi, til eilífs lífs með Kristi.

‌Eins er það fyrir alla aðra sem trúa á Krist og treysta honum. Þegar mótlætið mætir okkur, hvort sem það er okkar eigið mótlæti, í söfnuðinum eða í samfélaginu sem heild, þá bindum við vonir okkar við Jesú Krist. Það er okkar mesti fögnður og gleði þegar fjölskylda og vinir kynnast Jesú og taka trú á hann. En það fer ekki alltaf þannig, og þá er það Jesús sjálfur sem er gleði okkar og von.

‌En að guðspjallinu, sem við finnum í 14. kafla Jóhannesarguðspjalls. Hér er talað nánar um þessa von, sem síðar hélt Páli gangandi í öllu mótlætinu. Vonina sem við eigum í Jesú Kristi.

‌Textinn kemur úr kveðuræðu Krists, sem hefst í kafla 13 í Jóhannesarguðspjalli, þegar Jesús þvær fætur postula sinna, og sýnir þeim þar með að ríki Guðs byggist á kærleika, sem er tjáður í þjónustu við Guð og náungann. Sá kærleikur er rauður þráður gegnum alla kveðjuræðuna, sem lýkur í kafla 17. með fyrirbæn Krists fyrir okkur við Getsemane á Olíufjallinu. Í guðspjallinu talar Jesús um það hvernig hann þjónar okkur með dauða sínum og upprisu, og hvaða afleiðingar það hefur.

1 „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. 2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? 3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er. 4 Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér.“ 5 Tómas segir við hann: „Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?“ 6 Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig. 7 Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“ 8 Filippus segir við hann: „Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss.“ 9 Jesús svaraði: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: ,Sýn þú oss föðurinn’? 10 Trúir þú ekki, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. 11 Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér gerið það ekki, trúið þá vegna sjálfra verkanna.

Jóh 14:1–11

‌Þannig hljómar hið heilaga guðspjall. Lof sé þér Kristur.

‌Það sem Jesús segir okkur hér er í raun afar einfalt, og það jafnvel þótt við getum ekki skilð það til hlítar. Jesús segir okkur einfaldlega það að eina leiðin til þess að raunverulega þekkja Guð, er að þekkja hann. Enginn kemur til Guðs Föðurs nema fyrir Soninn, Jesú Krist. Hann er eina leiðin til hjálpræðis, og þess vegna er hann er vegurinn, sannleikurinn og lífið.‌

Hann er ekki bara okkar von, heldur okkar eina von. Hann var eina von Páls postula. Hann var meira að segja eina von sálmaskáldsins sem sagði að Guð hefði snúið hag Síonar. Það er engin önnur leið til hjálpræðis en fyrir trúna á Jesú Krist. Þess vegna hélt Páll svo fast í hann.

Við ljúkum á þeim nótum í dag: Jesús er okkar besta og einasta von. Hann lofar okkur því að hann sé leiðin til Guðs, og til eilífs lífs hjá honum. Hann lofar okkur því að hann muni reisa okkur að nýju á efsta degi. Þá getum við þolað allt mótlæti, og jafnvel hrörnun og dauða. Því hann er með okkur jafnvel þar, þegar við göngum gegnum hinn dimma dal dauðans. Þar er Kristur vegurinn, sannleikurinn — og lífið.