Skip to content

Schmalkald-greinar

Hér að neðan er að finna fyrri Schmalkald-greinar Marteins Lúthers í þýðingu Þorgils Hlyns Þorbergssonar, og eru þær birtar hér á síðunni með góðfúslegu leyfi hans. Þýðingin hefur verið prentuð, með nokkrum breytingum, í eftirfarndi riti: Marteinn Lúther, Úrval rita 2 1524-1545, Gunnar Kristjánsson aðalþýðandi, Arnfríður Guðmundsdóttir, Gunnar J. Gunnarsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson ritstjórn. (Reykjavík: Skálholtsútgáfan), 2018.

Formáli dr. Marteins Lúther

Páll páfi, hinn þriðji að nafninu til, kallaði saman þing, sem halda átti í Mantúa um hvítasunnuna í fyrra. Hann flutti það síðan frá Mantúa, þannig að ekki er enn vitað, hvar hann vill eða getur haldið það. Hvað oss varðar, hljótum vér að búa oss undir það, að boða komu vora á þingið einnig eða mæta ekki til þess, án þess að boða komu vora þangað. Af þessu tilefni var mér falið að semja og setja saman greinar um kenningu vora, ef vera skyldi að til þessarar umræðu kæmi. Þær koma inn á það, á hvaða sviðum eða hvernig vér vildum eða gætum komið til móts við páfavaldið og hvaða atriði vér hefðum endanlega hugsað oss að halda oss fast við og hvika hvergi frá þeim.

Í samræmi við það hef ég sett saman eftirfarandi greinar og afhent flokki vorum. Vér höfum einnig tekið við þeim og erum einhuga um að viðurkenna þær; ef páfinn og hans nótar vildu nú einu sinni gerast svo djarfir að að halda rétt og frjálst þing í eindrægni og sannleika, án þess að ljúga og svíkjast um, eins og honum ber skylda til. Það ætti — eins og ákveðið hefur verið — að afhenda þær opinberlega og leggja þær fram sem játningu trúar vorrar. Rómverska hirðin hræðist hins vegar frjálst þing eins og heitan eldinn og flýr ljósið eins og fætur toga, rétt eins og þeir sem fylgja henni að málum, en hafa öðlast von. Þó svo að hann léti sér eitt þing í léttu rúmi liggja, myndi hann þegja yfir því að hafa hætt við það. Þannig lenda þeir sannarlega í klípu og eru ekki síður hnuggnir yfir því. Þeir veita því athygli, að páfinn hefur misst sjónar af kristindómnum og vill sjá allar sálir útskúfast. Það er rétt eins og hann væri fús til þess að bæta ráð sitt og síns fólks örlítið og setja harðstjórn sinni mörk.

Þrátt fyrir það hef ég nú látið prenta þessar greinar opinberlega þennan dag, fari nú svo, að ég eigi að deyja áður en þinginu verður komið á. Ég er þess fullviss og vænti þess, að þetta illþýði, sem flýr ljósið og forðast dagsbirtuna, hefur orðið sér til háborinnar skammar fyrir það athæfi sitt að ýta þinginu út af borðinu og koma í veg fyrir að það yrði haldið. Ég vil að þau, sem verða á lífi eftir minn dag, geti sýnt þennan vitnisburð minn og játningu mína, auk annarra játninga, sem ég hef þegar látið frá mér fara og sem ég hef hingað til haldið mig við og mun framvegis gera, ef Guð gefur náð til þess. Hvað á ég að segja? Yfir hverju á ég að kvarta? Ég er enn á lífi, skrifa, prédika og les daglega, og samt er svona eitrað fólk til, sem dirfist að snúa beinlínis út úr því sem ég skrifa og kenni. Að vísu viðgengst það ekki aðeins á meðal andstæðinga, heldur er þar einnig að finna svarta sauði, sem vilja tilheyra oss. Jafnframt sýna þeir mér það og láta mig heyra það, þótt þeir viti, að kenning mín er önnur. Þannig vilja þeir fegra starf mitt með eitri og afvegaleiða vesalings fólkið í mínu nafni. Hvernig ætli þetta verði á komandi tíð, eftir andlát mitt?

Já, ætti mér að bera skylda til að andmæla öllu, á meðan mín nýtur enn við? Já, hvernig ætti ég einn annars að halda aftur af öllum kjöftum djöfulsins? Einkum hinum eitruðu, eins og þeir eru allir, sem láta sér ekki segjast og vilja fylgjast með því sem vér skrifum, heldur geta þeir fengist við það af kappi að snúa út úr sérhverjum bókstaf orða vorra og svívirða þau? Þessu læt ég djöflinum eftir að svara, eða að endingu reiði Guðs, sem þeir verðskulda. Mér verður oft hugsað til hins góða Gersons[1], sem var í vafa um það, hvort opinbera ætti góð málefni með skriflegum hætti. Ef það er ekki gert, verða margar sálir vanræktar, sem hægt væri að bjarga. Verði það hins vegar gert, þá er djöfullinn mættur með óteljandi, eitruðum, illum kjöftum, sem eitra allt og snúa út úr öllu, svo að komið verði í veg fyrir að árangur náist. Það liggur ljóst fyrir, hvað þeir græða á þessu. Eftir að þeir hafa þannig borið ljúgvitni gegn oss á skammarlegan hátt og viljað halda fólkinu innan sinna raða með lygum, hefur Guð útvíkkað verksvið sitt. Hann hefur sífellt fækkað fólki innan þeirra raða, en fjölgað innan vorra vébanda. Hann hefur látið þá með lygum sínum verða sér til skammar og mun gera það áfram enn um sinn.

Ég verð að segja eina sögu: Hér í Wittenberg var doktor nokkur, sem sendur var frá Frakklandi. Hann skýrði oss opinberlega frá því, að komungur sinn væri þess fullviss, og meira en fullviss, að enga kirkju, engin yfirvöld, enga hjúskaparstétt væri að finna hjá oss. Allt væri þvert á móti í einum hrærigraut, eins og hjá kvikfénaði og hver og einn gerði það sem honum sýndist. Ímyndaðu þér þetta nú: Munum vér, frammi fyrir dómstóli Krists, á þeim degi líta upp til þess fólks, sem hefur talið þessum konungi og öðrum landsfeðrum trú um að þvílíkur uppspuni sé heilagur sannleikur? Kristur, drottinn og dómari vor allra, veit svo sannarlega, að þeir ljúga og hafa logið. Dóm sinn verða þeir sjálfir að heyra, svo mikið er víst.

Guð snúi þeim, sem snúa á, til iðrunar. Hinir munu líða eymd og kvöl um eilífð.

Og nú komum vér aftur að efninu: Mig langar svo sannarlega mjög gjarnan til þess að upplifa raunverulegt þing, því að þannig yrði mörgum málum bjargað og fólki hjálpað. Það er ekki eins og vér þurfum á slíku að halda. Kirkjur vorar eru aðeins fyrir Guðs náð með hið hreina orð og hina réttu notkun sakramentanna. Með úrskurði mismunandi stétta og réttum verkum hefur verið frætt og stjórnað á þann hátt, að vér fyrir vort leyti höfum ekki spurt neins um þing og í þessum atriðum vitum vér ekki til þess, að vænta megi nokkurra bóta af slíku þingi. Á hinn bóginn sjáum vér mörg prestaköll tóm og yfirgefin í biskupsdæmunum. Það getur níst hjartað. Þrátt fyrir þetta spyrja biskupar og kanúkar einskis um það, hvernig vesalings fólkinu reiðir af. Og vissulega er Kristur dauður fyrir því, og það á ekki að heyra talað um hann sín á milli um hann sem góða hirðinn með sauði sína. Mig hryllir við því og það vekur mér ugg í brjósti. Hann gæti þess vegna komið á englaþingi yfir Þýskalandi, sem svívirti oss á jörðu niðri eins og Sódómu og Gómorru, vegna þess að vér hæðumst að því sem hans er með þinginu á glæpsamlegan hátt.

Auk slíkra bráðnauðsynlegra mála innan kirkjunnar þyrfti að endurbæta óteljandi mikilvæg málefni innan veraldlegra stétta. Þar er um að ræða óeiningu á milli fursta og stétta. Okur og ágirnd breiðast út eins og eldur í sinu og fyrirfinnast formlega innan réttarins. Sjálfræði og agaleysi, dramb í klæðaburði, át og leikir, glys ásamt hvers kyns ódyggðum og illsku, óhlýðni undirmanna, vinnuhjúa og daglaunamanna, féflettingu allra handverksmanna og einnig bænda — allt sem nöfnum tjáir að nefna — hafa tröllriðið öllu, svo að hvorki tíu þing né tuttugu ríkisdagar megna að færa ástandið aftur til betri vegar. Ef tekist yrði á um þessi viðfangsefni andlegra og veraldlegra stétta, sem öll eru Guði á móti skapi, á þingi, ætti maður svo fullt í fangi með að koma því öllu í verk, að slíkir barnaleikir og fíflagangur gleymdust, eins og lengd ölbu, prestaskrúða, stærð krúnuraksturs, breidd mittislinda, höfuðföt eða bagla biskups og kardínála og slík látalæti. Hefðum vér nú aðeins komið á skikkan og skipan Guðs í andlegu og veraldlegu tilliti, þá myndum vér finna nægan tíma til þess að bæta mataræði, fatnað, krúnurakstur og messuskrúða. Ef vér hins vegar svelgjum slíka úlfalda og síum mýflugurnar,[2] látum bjálkana standa en viljum laga flísina,[3] þá getum vér einnig alveg eins verið ánægð með þingið.

Af þeim sökum hef ég sett saman fáeinar greinar. Þar að auki höfum vér svo margar skipanir frá Guði um það, sem varðar kirkjuna, yfirvöldin og heimilið, að vér náum aldrei að uppfylla þær. Hvað á slíkt að þýða eða hvernig hjálpar það, ef brýnt er að semja um enn fleiri deilumál og setningar á þingi, á sama tíma og þegar þau meginatriði, sem Guð býður, eru ekki virt og þeim hlýtt? Það er rétt eins og hann þyrfti að virða skrípaleik vorn fyrir það, að vér troðum alvarleg boðorð hans undir fótum vorum! En syndir vorar hvíla þungt á oss og koma í veg fyrir að Guð verði oss náðugur. En vissulega gerum vér heldur enga iðrun og viljum ennfremur verjast öllum voða. Æ, kæri Drottinn Jesús Kristur, haltu sjálfur þing og leystu lýð þinn fyrir dýrðlega endurkomu þína! Páfinn og hans nótar eru alveg glataðir. Þeir vilja ekkert af þér vita; hjálpa þú oss aumum og voluðum, oss sem andvörpum til þín og leitum í alvöru þeirrar náðar, sem þú hefur gefið oss fyrir Heilagan anda þinn, sem með þér og Föðurnum lifir og ríkir, lofaður að eilífu. Amen.

Fyrsti hluti: [Um guðlega hátign]

Hann fjallar um hinar háu greinar hinnar guðlegu hátignar:

1. Faðir, Sonur og Heilagur andi eru þrjár ólíkar persónur í einni guðlegri veru og einn Guð að eðli til, sem skapað hefur himin og jörð o.s.frv.

2. Faðirinn varð til af engu, Sonurinn er fæddur af Föðurnum og Heilagur andi gengur út af Föður og Syni;

3. Ekki varð Faðirinn maður og ekki Heilagur andi, heldur Sonurinn.

4. Sonurinn varð maður á þann hátt að hann var getinn af Heilögum anda án tilverknaðar manns og fæddist af hinni hreinu og heilögu Maríu mey. Því næst var hann píndur, dáinn, og grafinn. Hann steig niður til Heljar, reis upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs og mun koma aftur að dæma lifendur og dauða o.s.frv., eins og kennt er í postullegu trúarjátningunni og nánar farið yfir í Aþanasíusarjátningunni og almennum barnalærdómi.

Um þessar greinar er hvorki þráttað né deilt, því að vér játum þær frá báðum hliðum. Af þeim sökum er nú engin þörf á því að fjalla nánar um þær.

Annar hluti [Embætti og verk Jesú Krists]

Hann fjallar um þær greinar, sem varða embæti og verk Jesú Krists, eða endurlausn vora:

Hér er fyrsta og æðsta greinin

Jesús Kristur, Guð vor og Drottinn, dó vegna synda vorra og reis upp vegna réttlætingar vorrar.[4] Hann einn er Guðs lamb, sem ber synd heimsins,[5] og Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum.[6] Eins segir: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og þeir réttlætast án verðskuldunar af náð hans fyrir endurlausnina, sem er í Kristi Jesú. Guð setti hann fram, að hann með blóði sínu væri sáttarfórn þeim sem trúa“ o.s.frv.[7]

Þar sem nú verður að trúa þessu, en samt er ekki hægt að öðlast nokkurn skilning á því fyrir verk, lög eða verðskuldun, þá er það eitt víst og alveg ljóst, að þessi trú ein réttlætir okkur eins og heilagur Páll postuli segir í Rómverjabréfinu: „Vér ályktum því, að maðurinn réttlætist af trú án lögmálsverka.“[8] Ennfremur: „…til þess að auglýsa réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann sé sjálfur réttlátur og réttlæti þann, sem trúir á Jesú.“[9]

Enginn getur vikið sér undan eða sökkt sér niður í þessa grein, ef himinn og jörð ferst eða hvað annað sem ekki fær staðist. Pétur postuli segir: „Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss“[10] og í spádómsbók Jesaja stendur skrifað: „…fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.“[11]

Á þessari grein er allt grundvallað, sem vér kennum gegn páfanum, gegn djöflinum og heiminum og lifum samkvæmt því. Því þurfum vér að að vera alveg viss um þetta og megum ekki efast um það. Að öðrum kosti er allt glatað og páfinn, djöfullinn og allt halda velli og ræna oss sigri og rétti.

Önnur grein [Messan]

Messan hlýtur að vera mesta og hræðilegasta ódæðið innan páfadæmisins, því að hún gengur beinlínis og rækilega í berhögg við ofannefnda grein, og í þokkabót tekur hún annars konar skurðgoðadýrkun páfa fram sem hin mesta og besta. Því er nefnilega haldið fram, að slík messa hjálpi fólkinu með fórnum sínum eða verkum, jafnvel þótt illvirkjar framkvæmi hana, bæði hér í jarðnesku lífi og þarna í hreinsunareldinum. Það á og verður aðeins lamb Guðs að gera, eins og á hefur komið fram. Ekkert verður heldur slegið af nokkru í þessari grein eða undanskilið í þessari grein. Í fyrstu greininni er slíkt ekki leyft.

Og ef um einhverja skynsama fylgismenn páfa væri að ræða, þá væri hægt að ræða við þá á rólegum og vingjarnlegum nótum um það, hvers vegna þeir eru svo strangir á því að halda fast við messuna. Hún er aðeins uppfinning manna, sem Guð hefur ekki komið á. Allar uppfinningar mannanna má fella niður, eins og Kristur segir í Matteusarguðspjalli: „Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“[12]

Í öðru lagi er hún óþarfi, sem vel má sleppa án synda og háska.

Í þriðja lagi er hægt að fá sakramentið á mun betri og heilnæmari hátt, já, aðeins á heilnæman hátt samkvæmt innsetningu Krists. Hvað í ósköpunum á það þá að þýða að vilja troða tilbúinni og óþarfri athöfn inn í eymd og neyð, þegar vel er hægt að fá sakramentið á mun heilnæmari hátt?

Það á að láta fólkið prédika opinberlega um það, að messan er mannlegur hégómi sem skammlaust mætti missa sín og að enginn verði fordæmdur, sem lætur hana framhjá sér fara. Hins vegar getur maður öðlast sælu á betri hátt án þess að sækja messu. Hvaða máli skiptir það, þótt messan falli ekki sjálfkrafa niður, ekki bara hjá því mæta fólki, heldur einnig hjá öllum frómum, kristnum, skynsömum, guðhræddum hjörtum? Hversu miklu fremur ætti það ekki að gerast, ef það myndi heyrast, að hún væri hættuleg, því að hún er upplogin uppfinning, án Guðs orðs og vilja!

Í fjórða lagi: Eftir að svo óteljandi, óumræðileg atvik um misnotkun hefur átt sér stað um allan heiminn, þar sem messan gengur kaupum og sölum, ætti með réttu að sleppa henni, til þess umfram allt að verjast þessari misnotkun, jafnvel þótt hún byði upp á eitthvað gott eða nytsamlegt út af fyrir sig. Það ætti þvert á móti að sleppa henni, til þess að koma í veg fyrir slíka misnotkun fyrir fullt og allt. Hún er gjörsamlega óþörf, einskis nýt og hættuleg. Það má taka allt með á nauðsynlegri, nytsamlegri og öruggari hátt án messunnar!

Í fimmta lagi: Nú er messan hins vegar vissulega, eins og sagt er í mælisnúrunni og öllum bókum, ekkert annað en mannanna verk — meira að segja verk illvirkja — og hún getur ekki verið neitt annað. Í henni vill einhver útvega sjálfum sér og öðrum sáttargjörð við Guð, ávinna sér fyrirgefningu syndanna og náð og verðskulda slíkt — því að í þessu skyni er messan haldin, þegar best lætur. Hvað skyldu þeir annars vilja? Það stríðir öldungis gegn höfuðgreininni, og það er tekið fram, að enginn messuþjónn með verkum sínum, hvort sem hann er vondur eða guðhræddur, ber syndir vorar, heldur er það Guðs lamb og sonur Guðs.

Og ef einhver ætlaði að telja sig réttlættan, myndi hann vilja afla sér sálubótar með sakramentinu eða ganga til altaris, þá dugir það ekki eitt og sér. Ef hann vill í raun ganga til altaris, þá gerir hann það á öruggastan og bestan hátt í sakramentinu sem fæst samkvæmt innsetningu Krists. Að ganga til altaris sjálfum sér til framdráttar er hins vegar hugarburður manna, sem er óöruggur, óþarfur og í þokkabót bannaður. Hann veit heldur ekki, hvað hann er að baka sér, á meðan hann fylgir röngum hugarórum og uppfinningum mannsins án Guðs orðs. Þannig væri það á sama hátt ekki rétt, þótt allt annað væri í lagi, ef einhver myndi vilja nota sameiginlegt sakramenti kirkjunnar sjálfum sér til sálubótar og þannig spila með samfélag kirkjunnar, án Guðs orðs, eftir eigin geðþótta.

Þessi grein um messuna verður kjarnaatriði á þinginu. Ef það væri mögulegt, að hún léti oss eftir allar aðrar greinar, þá gæti hún ekki látið oss eftir þessa grein. Campegius í Ágsborg sagði vissulega, að frekar vildi hann láta skera sig í bita en að sleppa messunni. Á sama hátt myndi ég líka með hjálp Guðs frekar láta brenna mig til ösku en að viðurkenna að messuþjónn með verki sínu, hvort heldur sem hann er góður eða slæmur, teldi sig vera jafnoka eða ofjarl Drottins míns og frelsara Jesú Krists. Þannig erum og verðum vér um eilífð sundruð og hvert á móti öðru. Svo sannarlega finna þeir fyrir því: Þegar messan fellur niður, þá liggur páfadæmið í roti. Áður en þeir láta slíkt viðgangast, drepa þeir oss öll, ef þeir megna það.

Auk þessa alls hefur þessi langhundur, messan, valdið miklum óþrifnaði og óværu vegna skurðgoðadýrkunar af ýmsum toga:

Í fyrsta lagi er það hreinsunareldurinn. Þar hefur verið komið á verslun með hreinsunareldinn með sálumessum, næturvökum, sjöunda deginum, þrítugasta deginum eftir útför og hinni árlegu erfisdrykkju, og loks með sameiginlegri viku, allra sálna messu og laugun sálarinnar, svo að messan verður brátt aðeins haldin fyrir hin látnu, á meðan Kristur hefur aðeins stofnað til sakramentanna fyrir lifandi fólk. Af þeim sökum er hreinsunareldurinn, ásamt öllum þeim veisluhöldum, guðsþjónustum og viðskiptabrölti, sem slíku er samfara, ekkert annað en sjónhverfingar djöfulsins. Sömuleiðis gengur það í berhögg við höfuðgreinina, þar sem aðeins Kristur á að hjálpa sálunum, en ekki mannanna verk. Hvað svo sem því líður er oss ekkert skipað fyrir af hinum látnu eða bannað; þess vegna er auðvelt að láta slíkt lönd og leið, einnig þó svo að hún sé hvorki villa né skuðgoðadýrkun. Fylgismenn páfa vísa hér í Ágústínus og nokkra kirkjufeður, sem eiga að hafa skrifað um hreinsunareldinn og telja, að vér sjáum ekki hvert eða í hvaða skilningi þeir sækja slíkan framburð. Ágústínus kirkjufaðir skrifar hvergi um það að til sé hreinsunareldur. Hann hefur heldur engan ritningarstað því til staðfestingar, heldur lætur hann þeirri spurningu ósvarað. Hann segir aðeins, að móðir sín hafi viljað, að við sín yrði minnst við altarissakramentið. Allt þetta er nú sannarlega ekkert annað en mannlegur, frómur ákafi nokkurra persóna, sem ekki koma á neinni trúargrein, sem Guði einum ber. En páfavinirnir okkar klæða slíkar mannasetningar í þann búning, að maður eigi að trúa hinni skammarlegu, svívirðilegu, bannsettu markaðsstarfsemi með árlegum sálumessum, sem bjóða þeim upp á sálumessu, sem fórnað yrði fyrir hreinsunareldinn. Ekki munu þeir vísa mikið lengur í Ágústínus með slíkum hætti. Þegar þeir hafa nú einu sinni komið á slíkum, árlegum markaði með messu fyrir hreinsunareldinn, sem heilagur Ágústínus hefði ekki einu sinni látið sig dreyma um, þá myndum við tala við þá um það, hvort það orð heilags Ágústínusar, sem á sér enga stoð í Ritningunni, myndi duga til þess að hinum deyjandi yrði hugsað til sakramentanna. Það skiptir engu máli, hvort trúargrein verður til úr verkum eða orðum hinna heilögu feðra. Annars þyrfti það einnig að verða trúargrein, sem þeir hafa átt fyrir fæði og klæði, hús o.s.frv., eins og gert hefur verið með tilbeiðslu helgra dóma. Þetta þýðir: Guðs orð á að setja fram trúargrein, og enginn annar, ekki einu sinni engill.

Í öðru lagi hefur það orðið afleiðing þeirrar óhæfu, sem hinir illu andar hafa valdið, þar sem þeir hafa birst sem sálir manna og heimtað messur, næturvökur, pílagrímsferðir og aðrar ölmusur, og þannig logið og svikið, að ekki verður með orðum lýst. Það höfum við öll tekið gilt sem trúargrein og þurft að lifa samkvæmt því. Meira að segja páfinn hefur staðfest þetta, rétt eins og messuna og alla aðra viðurstyggð. Hér dugir heldur engin linkind eða eftirgjöf.

Í þriðja lagi eru það pílagrímsferðirnar. Auk þeirra höfum við sótt messur og leitað og fyrirgefningar syndanna og náðar Guðs. Messan hefur tekið við þessu öllu. Nú er það alveg á hreinu, að slíkar pílagrímsferðir bjóða okkur ekkert án íhlutunar orðs Guðs; þær eru heldur ekki nauðsynlegar, því að við getum auðveldlega eignast það með betri hætti og gætum sleppt þeim án allra synda og allrar hættu. Hvers vegna vanrækjum við okkar eigin prest, Orð Guðs, eiginkonu og barn o.s.frv., þrátt fyrir að þau séu okkur nauðsynleg og standi til boða, og sækjumst eftir hinni óþörfu, vafasömu, hættulegu villu djöfulsins? Það er aðeins vegna þess að djöfullinn hefur náð tökum á páfanum, þannig að hann hefur mælt með henni og staðfest hana, svo að fólkið rekur vissulega býsna oft af leið Krists í sínum eigin verkum og ætti að teljast til heiðingja! Þetta er vissulega það versta við þetta, burtséð frá því hvort það sé óþarft, bannað, óráðlegt og óöruggt og þaðan af síður hættulegt. Um þetta á heldur engin linkind eða eftirgjöf við o.s.frv. Sé það prédikað, að það sé óþarft og í ofanálag hættulegt, þá hljóta menn að sjá, hvað verður úr pílagrímsferðunum.

Í fjórða lagi: Bræðralagið. Þar hafa klaustrin og stiftin, og meira að segja prestaköllin lýst sjálfum sér í reglulegum og heiðarlegum kaupsamningi með messum, góðum verkum o.s.frv. á gagnkvæman hátt, bæði fyrir lífs og liðnum. Þetta eitt og sér er ekki aðeins mannlegur hégómi án Guðs orðs, algjörlega óþarft og bannað, heldur brýtur það sömuleiðis í bága við fyrstu grein endurlausnarinnar. Þess vegna má ekki láta það á nokkurn hátt líðast.

Í fimmta lagi: Tilbeiðsla helgra dóma. Í henni er nú þegar ýmsar alkunnar lygar og heimskulegar blekkingar með hunda- og hestabeinum. Það hefði fyrir löngu átt að fordæma hana vegna þessa voðaverks, sem er aðhlátursefni djöfulsins, jafnvel þótt eitthvað gott hefði komið út úr því. Af þeim sökum er það á sama hátt nokkuð sem án Guðs orðs er hvorki boðið né ráðlagt, gjörsamlega óþarft og gagnslaust. Það versta er þó, að hún hefur orðið að valda því, eins og messan o.s.frv., aflát og fyrirgefning syndanna, að svo virtist sem hún væri gott verk og guðsþjónusta.

Í sjötta lagi: Þessu tilheyrir einnig hið ástkæra aflát, sem veitist bæði lífs og liðnum, þó gegn gjaldi. Þar selur hinn ljóti Júdas ellegar páfinn það sem Kristi ber ásamt hinu, sem öllum heilögum og allri kirkjunni ber umfram það o.s.frv. Allt þetta á ekki að líðast; og að vísu er það á sama hátt ekki aðeins einskis nýtt án Guðs orðs, óþarft og bannað, heldur stríðir það gegn fyrstu grein. Það sem Kristur verðskuldar fæst ekki fyrir verk vor eða peninga vora, heldur fyrir trú sem fæst fyrir náð, án allra fjármuna og verðskuldunar; það stendur ekki til boða fyrir umboð páfaembættisins, heldur fyrir prédikun eða Guðs orð.

Ákall hinna heilögu er einnig hluti hinnar andkristilegu misnotkunar; hún stríðir gegn fyrstu megingreininni og gerir skilninginn á Kristi að engu. Það er einnig bannað og óráðlegt; auk þess á það sér enga stoð í Ritningunni, og við getum þúsund sinnum betur haldið okkur við Krist, jafnvel þótt sérhver þörf væri dýrmætur varningur, sem hún er þó ekki.

Að vísu biðja englarnir á himnum fyrir okkur, eins og Kristur sjálfur gerir einnig; á sama hátt gera dýrlingarnir það líka á jörðinni eða ef til vill einnig á himnum. En af því er ekki hægt að draga ályktanir, við þyrftum að ákalla englana og dýrlingana, tilbiðja þá, fasta þeim til dýrðar, tigna þá, halda þeim messur, fórna, stofna til kirkna, altara og guðsþjónusta og þjóna þeim á allan annan hátt, og leita liðsinnis þeirra í neyð og tileinka þeim alls kyns aðstoð. Auk þess þarf að eigna hverjum um sig hvert einstakt viðvik, eins og fylgjendur páfans kenna og gera. Það er skurðgoðadýrkun, því slíkur heiður heyrir Guði einum til. Þú getur vissulega beðið fyrir mér sem kristinn maður og heilagur á jörðu, ekki aðeins í tiltekinni neyð, heldur í allri neyð. En ég ætti ekki að tilbiðja þig og ákalla þess vegna, og fagna þér til dýrðar, fasta, fórna, halda messu og setja trú mína á þig, til þess að öðlast sælu. Ég get líka heiðrað þig með öðrum hætti, elskað og þakkað þér í Kristi. Fyrst þegar þessari skurðgoðadýrkun engla og látinna dýrlinga verður komið fyrir kattarnef í eitt skipti fyrir öll, þá verður önnur dýrkun hættulaus, já, brátt gleymd og grafin. Þegar hvorki verður hægt að treysta á líkamlegt né andlegt gagn og aðstoð, verða dýrlingarnir látnir óáreittir í gröfum sínum svo sem á himni. Enginn mun hugsa mikið til þeirra án tilgangs eða hreinnar ástar, heiðra þá og virða.

Og í stuttu máli, hvað messan er, hvernig hún er samsett og hvaða þætti hún felur í sér, getum vér ekki liðið og hljótum að fordæma það, svo að vér getum haldið hinu hreina sakramenti samkvæmt innsetningu Krists hreinu og ómenguðu, eins og það er notað og við því er tekið í trúnni.

Þriðja grein [Stiftin og klaustrin]

Stiftin og klaustrin, sem stofnsett voru í góðum ásetningi fyrr á tímum, til þess að ala upp lærða menn og siðsama kvenkosti, ættu tvímælalaust að snúa aftur til þessa markmiðs. Fyrir þau ætti að vera hægt að fá presta, prédikara og aðra kirkjunnar þjóna, og ekki ekki síður fólk, sem nauðsynlegt er til þess að fara með veraldlega stjórn í borgum og löndum, og sömuleiðis vel uppaldar ungfrúr sem yrðu húsmæður og ráðskonur o.s.frv.

Ef stifti og klaustur þjóna ekki þessum tilgangi, mætti leggja þau í eyði eða rífa þau niður; það er betra en að þau á grundvelli þeirrar guðsþjónustu, sem er guðlast og mannlegur uppspuni sem talinn er betri en venjulegt kristnihald og þau embætti og þær stöður sem Guð hefur skipað. Þetta brýtur einnig í bága við fyrstu höfuðgreinina, um endurlausn Jesú Krists. Auk þess eru þau líka, eins og allar aðrar uppfinningar mannanna, bönnuð, óþörf og gagnslaus; þannig gera þeir sér háskalegt og fánýtt ómak, eins og spámennirnir nefna slíka guðsþjónustu Aven, þ.e. „ómak“.

Fjórða grein [Páfinn]

Páfinn er ekki höfuð alls kristindómsins samkvæmt guðlegum rétti eða á grundvelli Guðs orðs — því þar kemur aðeins einn til sögunnar, sem heitir Jesús Kristur — heldur er hann aðeins biskup ellegar prestur kirknanna í Róm og þeirra, sem af fúsum og frjálsum vilja eða á grundvelli mannlegrar skipanar — þ.e. veraldlegra yfirvalda — hafa falið honum það hlutverk, ekki svo að þau verði honum undirgefin sem herra sínum, haldur að hann standi þeim við hlið sem bróðir og vinur kristinna manna, eins og hin gömlu kirkjuþing og tími heilags Kýpríanusar færa sönnur á. Hins vegar þorir enginn biskup, sem nú er á dögum, að kalla páfann „bróður“, heldur verður sá hinn sami að kalla hann sinn „allra náðugasta herra“, jafnvel þegar hann sjálfur er konungur eða keisari. Það viljum vér ekki, það skulum vér ekki og það getum vér ekki lagt á samvisku vora að gera. Sérhver sá, sem það vill hins vegar gera, geri það án vorrar íhlutunar.

Þetta hefur það í för með sér, að allt það, sem páfinn með þessu ranga, guðlausa, svívirðilega, hrokafulla valdi sínu hefur gert og tekið sér fyrir hendur, sem hefur ekki verið annað en djöfulleg atvik og málefni og eru enn — og þá er það undanskilið, sem varðar tiltekið valdsvið hans, þar sem Guð kemur vissulega ýmsu góðu til leiðar hjá fólkinu fyrir tilstilli einræðisherra og illmenna — sem er að spilla allri heilagri, kristinni kirkju og eyðileggja fyrstu höfuðgreinina um endurlausnina í Jesú Kristi.

Allar búllur hans og bækur eru fyrir hendi, þar sem hann öskrar eins og ljón — eins og engillinn setur það fram í Opinberunarbókinni[13] — að enginn kristinn maður geti orðið sæll, því að hann sé honum hlýðinn og undirgefinn í öllum hlutum, í því sem hann vill, í því sem hann segir, í því sem hann gerir. Þar sem ekki er um annað að ræða, er þetta sagt: „Jafnvel þótt þú trúir á Krist og eigir allt þitt undir honum, sem nauðsynlegt er til sælu, þá er það samt ekki neitt og ber engan árangur, þegar þú hefur mig ekki sem guð þinn og ert mér undirgefinn og hlýðinn.“ Þá er augljóst, að heilög kirkja hefur verið án páfa í að minnsta kosti rösklega fimm hundruð ár og allt til þessa dags hafa gríska kirkjan og kirkjur annarra tungumála ekki lotið páfanum og gera ekki enn. Þannig er þetta, eins og oft hefur komð fram, mannlegur uppspuni, sem er bannaður, óþarfur og ástæðulaus; því að heilög, kristin kirkja fær vel staðist án slíks foringja og væri ugglaust betur sett, ef slíkur foringi kæmist ekki til valda fyrir tilstilli djöfulsins. Páfadæmið kemur kirkjunni ekki að neinu gagni, því að það elur ekki af sér neitt kristilegt embætti. Því hlýtur kirkjan að vera til staðar og fá staðist án páfans.

Ég set dæmið þannig upp, að páfinn vilji afsala sér æðstu stöðu sinni samkvæmt guðlegum rétti eða samkvæmt boði Guðs orðs, en til þess að eining kristninnar standist þeim mun betur sértrúarflokka og villutrú, þyrfti foringi að vera til staðar, sem allir aðrir myndu lúta. Slíkur foringi yrði nú valinn af mönnum, og það væri því á mannlegu valdi að taka ákvörðun um að breyta þessu leiðtogaembætti og leggja það af. Einmitt þannig fór kirkjuþingið í Konstantínópel með páfana, það rak þrjá úr embætti og valdi þann fjórða. Ég set nú dæmið þannig upp — segi ég — að páfinn í Róm vilji afsala sér embætti sínu og taka því, sem er samt ómögulegt, því að hann þyrfti þá að umsnúa allri sinni stjórn og stöðu ásamt öllum réttindum sínum og bókum og láta eyðileggja þær. Í stuttu máli, það getur hann ekki gert.

Samt sem áður yrði kristinni trú engin hjálp í því og miklu fleiri sértrúarhópar yrðu til en nokkru sinni fyrr. Þar sem engin þörf væri á að vera undirgefinn slíkum foringja samkvæmt skipun Guðs, heldur samkvæmt góðum, mannlegum vilja, veittist það afar léttvægt og brátt yrði litið niður á það og loks yrðu engir meðlimir eftir. Það þyrfti ekki að vera í Róm eða á einhverjum öðrum, ákveðnum stað, heldur í sérhverri þeirri kirkju, sem Guð hefði gefið slíkum manni, sem hún er ætluð. Ó, það yrði margorð, óútkljáð tilhögun.

Af þeim sökum er ekki hægt að stjórna kirkjunni betur og halda henni við en þar sem vér öll lifum undir stjórn eins leiðtoga, Krists, og biskuparnir sem með skírskotun til embættis síns eru jafnir, enda þótt þeir séu ójafnir með skírskotun til gjafa,[14] þar sem ákveðið er að þeir séu samhuga í kenningu, trú, sakramentum, bænum og kærleiksverkum. Þannig skrifar hinn heilagi Híerónýmus, að prestarnir hafi allir stjórnað kirkjunni í Alexandríu á sama hátt og postularnir og síðan allir biskuparnir í allri kristni gerðu einnig, þar til páfinn sýndi þeim öllum í tvo heimana.

Þessi kafli sýnir svo ekki verður um villst, að páfinn er hinn rétti endakristur, þ.e. andkristur, sem hefur tekið sér æðri stöðu en Kristi ber og talið sig yfir hann hafinn, því að hann vill ekki að kristnir menn öðlist sælu án valds síns, sem þó er ekki neitt, þar sem Guð hefur hvorki skipað það né boðið. Það kallast í raun „að setja sig á móti Guði og rísa gegn öllu því, sem kallast Guð“ eins og Páll postuli segir í síðara Þessalónikubréfi.[15] Þetta gera þó hvorki Tyrkinn né tatarinn, þó svo að þeir teljist einnig til óvina kristinna manna, heldur taka þeir trú á Krist, sem það vilja, og krefjast reikningsskila og hlýðni af kristnu fólki.

En páfinn vill ekki taka trú, heldur talar hann um það, að menn eigi að vera honum hlýðnir og þá öðlist þeir sælu. Það viljum vér ekki gera, þótt vér þyrftum að láta lífið af þeim sökum í nafni Guðs. Þetta kemur allt til út af því, að samkvæmt guðlegum rétti hefur hann viljað vera æðsti maður kristinnar kirkju. Þess vegna hefur hann gert sjálfan sig Kristi jafnan og talið sig yfir Krist hafinn, litið á sig sem leiðtogann (höfuðið), síðan herra kirkjunnar og loks alls heimsins og beinlínis látið tigna sig sem jarðneskan guð, þar til hann bauð að englarnir í himnaríki yrðu sér einnig undirgefnir.

Og þegar kenning páfans er skilin að frá Heilagri ritningu eða haldið gegn henni eða sett fram honum til höfuðs, er alveg ljóst, að kenning páfa er í besta falli tekin úr heiðnu, keisaralegu réttarfari, og kennir veraldleg málaferli og dóma, eins og dómsúrskurðir hans bera vott um. Síðan er kennt um helgisiði kirkjunnar, klæðaburð, fæði, persónur og bernskubrek, endalausa hugaróra og bjánagang, en umfram allt ekkert um Krist, trúna og boðorð Guðs.

Loks er það ennfremur ekkert annað en hreinræktað verk djöfulsins, þar sem hann fer með lygar um messuna, hreinsunareldinn, munkalifnaðinn, eigin verk og guðsþjónustuna — það sem hið rétta páfadæmi kennir um Guð og gegn honum fordæmir alla þá kristnu menn, deyðir þá og þjakar, sem ekki upphefja slíka viðurstyggð öðru fremur og heiðra hana. Að svo litlu leyti sem vér af þeim sökum getum tilbeðið djöfulinn sem drottin eða guð, getum vér einnig þaðan af síður liðið það, að postuli hans, páfinn eða andkristur, taki við stjórnartaumunum sem leiðtogi eða drottinn. Lygar og morð eru eiginlega stjórntæki hans, líkama og sálu til eilífrar spillingar, eins og ég hef sýnt fram á í mörgum bókum.

Með þessum fjórum greinum hafa þeir nóg til þess að fordæma á þinginu, því að þeir hvorki geta né vilja ganga að hinu smæsta atriði einnar greinar. Vér megum vera þess fullviss og setja von vora á það, að Kristur, Drottinn vor, hafi ráðist á andstæðing sinn og komið honum fyrir kattarnef, bæði með Anda sínum og endurkomu.[16] Amen.

Á kirkjuþingi munum vér ekki standa frammi fyrir keisaranum eða veraldlegum yfirvöldum — eins og í Ágsborg, sem sent hefur út náðarsamlegt boð og veitt af gæsku málflutningi vorum áheyrn, heldur munum vér standa frammi fyrir sjálfum páfanum og djöflinum, sem ekki hlýðir á oss, heldur fordæmir oss þegar í stað, myrðir og ætlar sér að neyða oss til skurðgoðadýrkunar. Af þeim sökum megum vér hér ekki kyssa fætur hans eða segja: „Þér eruð minn náðugi herra,“ heldur eins og engillinn sagði við djöfulinn samkvæmt Sakaría: „Drottinn ávíti þig, Satan.“[17]

Þriðji hluti [Greinar sem vér getum rætt um]

Eftirfarandi kafla eða grein getum vér rætt um við lærða menn, skynsama eða vor á milli, því að páfinn og ríki hans bregðast ekki mikið við því, því að ekki er nokkur samviska til hjá þeim, heldur kemst ekkert annað að hjá þeim en aðeins peningar, heiður og völd.

Syndirnar

Hér verðum vér að játa, eins og Páll postuli segir,[18] að syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann, Adam, og fyrir óhlýðni hans urðu allir menn syndarar og eru jafnframt dauðanum og djöflinum undirgefnir. Það nefnist erfðasynd eða höfuðsynd.

Afleiðingar þessarar syndar eru samkvæmt því hin illu verk, sem óheimil eru í boðorðunum tíu. eins og vantrú, villutrú, skurðgoðadýrkun, vanvirðing við Guð, frekja, efi, blinda — í stuttu máli: Að þekkja ekki Guð eða virða hann ekki, því næst að ljúga, sverja við nafn Guðs, biðja ekki, ákalla ekki Guð, virða ekki Guðs orð eða hlýðnast foreldrum sínum, myrða, ástunda saurlifnað, stela, svíkja o.s.frv.

Þessi erfðasynd er svo djúpstæð, ill spilling náttúrunnar, að hún viðurkennir ekki skynsemina, heldur þarf að trúa henni sem opinberun Heilagrar ritningar.[19] Þannig er það bæði villa og blekking, sem skólaspekingar hafa kennt:

  1. Eftir syndafall Adams hefur náttúrulegt eðli mannsins haldist óspillt. Maðurinn hefur frá náttúrunnar hendi öðlast skynsemi og góðan vilja, rétt eins og heimspekingar kenna.
  2. Maðurinn hefur frjálsan vilja til þess að gera góðverk og láta það ógert að fremja ill verk, og öfugt; að fremja ill verk og láta það ógert að gera góðverk.
  3. Maðurinn getur í eðlilegum mætti framkvæmt og haldið öll boðorð Guðs.
  4. Hann getur í eðlilegum mætti elskað Guð umfram allt annað og náunga sinn eins og sjálfan sig.
  5. Þegar maðurinn gerir eins og fyrir hann er lagt, veitir Guð honum vissulega náð sína.
  6. Þegar hann vill neyta altarissakramentisins, er hinn mæti ásetningur að gera gott ekki nauðsynlegur, heldur nægir það, að hann hafi ekki þann slæma ásetning í huga að syndga; svo ágætt er eðlið og sakramentið áhrifaríkt.
  7. Ekki á það sér neina stoð í Ritningunni, að Heilagur andi sé í náð sinni nauðsynlegur til góðs verks.

Slíkur og þvílíkur fjöldi greina er tilkominn út frá skilningsleysi og fávisku, bæði um syndina og um Krist, frelsara vorn. Það eru hundheiðnar kenningar, sem vér getum ekki liðið. Ef þessar kenningar ættu nú að vera réttar, hefði Kristur dáið til einskis, því að þá væru engin mein eða syndir í manninum sem hann þyrfti að deyja fyrir; eða hann hefði aðeins dáið fyrir líkamann, en ekki líka fyrir sálina, því að sálin er heil og aðeins líkaminn tilheyrir dauðanum.

Lögmálið

Hér trúum vér því, að lögmál Guðs sé umfram allt gefið, til þess að refsa fyrir syndina með því að hóta og fæla frá henni og til þess að greiða fyrir þeirri náð og velþóknun sem oss er heitið og stendur til boða. En þetta allt kemur til vegna þeirrar illsku, sem syndin hefur virkjað í mönnum til illra verka, því að þeir verða verri, að svo miklu leyti sem lögmálið er þeim fjandsamlegt. Stafar það af því að það bannar þeim það, sem þá fýsir að gera, en leyfir þeim það, sem þeir vilja síður gera. Þess vegna brjóta þeir nú meira gegn lögmálinu en áður, á meðan þeir geta komist upp með það. Hér er átt við siðlausu illmennin, sem gera það sem illt er, eins oft og þeim gefst tækifæri til þess.

Hinir verða blindir og ósvífnir. Þeir ímynda sér, að þeir haldi lögmálið og geti haldið það í eðlilegum mætti, eins og einmitt er vísað í skólaspekingana hér að ofan. Þannig koma hræsnararnir og falsdýrlingarnir til sögunnar.

En göfugasta verkefni eða framkvæmd lögmálsins felst í því, að það geri erfðasyndina opinbera ásamt afleiðingum hennar og sýni manninum, hversu djúpt eðli hans er sokkið og gjörspillt. Lögmálið verður því að segja honum, að hann hefur ekki enn heiðrað neinn guð, sem sagt tignað framandi guði, og því hafði hann áður ekki getað trúað, nema fyrir tilstilli lögmálsins. Fyrir það verður hann styggur, auðmýktur, huglaus, örvæntingarfullur og vill gjarnan, að sér verði hjálpað. Hann veit beinlínis ekki, hvar hann verður fjandsamlegur Guði og tekur að mögla o.s.frv. Í 4. kapítula Rómverjabréfsins er sagt: „Lögmálið vekur reiði“[20] og í 5. kapítula stendur: „En hér við bættist svo lögmálið, til þess að misgjörðin yrði meiri“.[21]

Iðrunin

„Reiði Guðs opinberast af himni“[22] rétt eins og segir í 3. kapítula Rómverjabréfsins; „…allur heimurinn verði sekur fyrir Guði, með því að enginn lifandi maður réttlætist fyrir honum“[23] og Kristur greinir frá í Jóhannesarguðspjalli: „Þegar hann [þ.e. Heilagur andi] kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur“.[24]

Nú er þetta elding Guðs, sem hann tortímir með jafnt alþekktum syndurum sem og falsdýrlingum. Hann lætur engan komast upp með neitt og vekur upp hræðslu og hugleysi á meðal þeirra. Það er hamarinn, sem Jeremía segir að sé „eins og hamar, sem sundurmolar klettana“[25]. Þetta er ekki „activa contritio“, þ.e. uppgerð iðrun, heldur „passiva contritio“, sem felst í því að iðrast af hjartans rót, þola dauðann og finna fyrir honum.

Og það merkir þá að hefja rétta iðrun. Og maðurinn þarf að heyra dóm á borð við þennan: „Það gildir einu um ykkur alla, hvort sem þið eruð alþekktir syndarar eða dýrlingar. Þið þurfið allir að verða öðruvísi og breyta öðruvísi en þið eruð og breytið núna. Þið getið virst eins stórir, vitrir, voldugir og heilagir og þið viljið, hér er enginn réttlátur“ o.s.frv.

En við þetta verkefni lögmálsins bætir Nýja testamentið strax huggunarfyrirheiti náðarinnar fyrir fagnaðarerindið, sem maður verður að trúa. Í Markúsarguðspjalli segir Kristur: „Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu,“[26] það þýðir: „Verið og breytið öðruvísi, og trúið fyrirheiti mínu.“ Og frammi fyrir honum er Jóhannes nefndur iðrunarprédikari, vissulega til fyrirgefningar synda.[27] Það merkir, að hann ætti að ákæra þá alla og gera að syndurum, svo að þeir vissu, hverjir þeir eru frammi fyrir Guði, og viðurkenndu sjálfa sig sem glataða menn. Þannig yrðu þeir búnir undir það að öðlast náðina og vænta fyrirgefningar syndanna frá honum og taka við henni. Kristur segir einnig sjálfur í Lúkasarguðspjalli; „að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda“.[28]

Þar sem hins vegar aðeins er um lögmálið eitt að ræða, án þess að þessari viðbót fagnaðarerindisins sé bætt við, bíða dauði og helvíti, og maðurinn hlýtur að örvænta eins og Sál og Júdas,[29] eins og Páll postuli segir í 7. kapítula Rómverjabréfsins: „Og boðorðið, sem átti að verða til lífs, það reyndist mér vera til dauða“.[30]  Á hinn bóginn veitir fagnaðarerindið ekki aðeins einhvers konar huggun og fyrirgefningu, heldur Orðið, sakramentið og slíkt, eins og vér munum heyra, svo að hjá Guði er gnægð lausnar — eins og segir í Davíðssálmunum[31] — standi gegn hinu stóra fangelsi syndanna.

Nú þurfum vér hins vegar að bera saman hina röngu iðrun orðflækjumannanna við hina réttu iðrun, svo að vér öðlumst þeim mun betri skilning á hvoru tveggja.

Hin ranga iðrun fylgismanna páfans

Það hefur verið þeim ómögulegt að fræða um iðrunina á réttan hátt, því að þeir þekktu ekki hina réttu synd, þar sem þeir hafa ekki réttan skilning á erfðasyndinni — eins og að ofan greinir — heldur segja þeir, að náttúruleg, mannleg öfl séu ósködduð og óspillt. Hægt sé að fræða um skynsemina og því er hægt að fjalla á réttan hátt um viljann, svo að Guð veiti vissulega náð sína, ef maðurinn framkvæmir að svo miklu leyti sem honum er unnt samkvæmt frjálsum vilja sínum.

Þetta hlýtur að hafa í för með sér, að þeir gerðu aðeins iðrun fyrir drýgðar syndir, eins og illar hugsanir, sem þeir hefðu fallist á — því að illar hreyfingar, girndir og geðshræringar töldust ekki til synda — heldur ill orð, ill verk, sem hinn frjálsi vilji hefði getað látið eiga sig.

Og fyrir þessa iðrun er þrennt tekið fram: Eftirsjá, skriftir og yfirbót, ásamt þessu fyrirheiti og samþykki: Þegar maðurinn sýnir iðrun á réttan hátt, skriftar og gerir yfirbót, hefur hann verðskuldað fyrirgefningu og borgað syndir sínar frammi fyrir Guði. Þannig kenndu þeir fólkinu að treysta á sín eigin verk í iðrun sinni. Þaðan voru lýðnum boðaðar almennar skriftir frá prédikunarstólnum: „Varðveittu mig, Drottinn Guð, þyrmdu lífi mínu, þar til ég hef iðrast synda minna og bætt líf mitt.“

Hér myndi enginn minnast einu orði á Krist og trúna, heldur væri vonast til þess, að hægt væri að sigrast á syndinni og afmá hana frammi fyrir Guði með eigin verkum. Sömuleiðis ætti það einnig við um presta og munka, því að vér vildum sjálfir sporna við syndinni.

Með eftirsjánni kom eftirfarandi til: Þar sem enginn hefur áttað sig á sínum eigin syndum — einkum þeim, sem menn höfðu drýgt á heilu ári — gátu þeir bjargað sér á eftirfarandi hátt: Þegar ómeðvitaðar syndir urðu síðan meðvitaðar, þurfti að iðrast þeirra líka og skrifta o.s.frv.  Á meðan voru þeir faldir náð Guðs.

Þar sem enginn vissi, hversu mikil eftirsjáin þyrfti að vera, til þess að hún yrði Guði þóknanleg, veittu þeir auk þess eftirfarandi huggun: Þar sem enginn gat sýnt fullkomna iðrun,[32] átti að sýna ófullkomna iðrun,[33] sem ég vil kalla hálfa iðrun eða upphaf hennar. Sjálfir hafa þeir ekki allir skilið báðar þessar gerðir og vita nú heldur ekki ennþá hvað þær þýða, ekki frekar en ég. Þessi ófullkomna iðrun var því tekin sem fullkomin, þegar gengið var til skrifta.

Og þegar það gerðist, að einhver sagði til að mynda, að hann gæti ekki iðrast, hvað þá fundið fyrir leiða vegna synda sinna. eins og gæti átt við um hórdómslosta og hefnigirnd, spurðu þeir, hvort hann óskaði þess þá ekki eða vildi gjarnan, að hann fyndi til eftirsjár. Ef hann kvað „já“ við því — því að hver annar en djöfullinn sjálfur myndi segja „nei“, tóku þeir því sem iðrun og fyrirgáfu honum syndir hans fyrir svo gott verk. Heilagur Bernharður var tekinn sem dæmi um slíkan mann o.s.frv.

Hér má sjá, hversu reikul hin blinda skynsemi er í málefnum Guðs og leitar ímyndaðrar huggunar í sínum eigin verkum og getur hvorki leitt hugann að Kristi né trúnni. Þegar allt kemur til alls, er þessi iðrun tilbúin og uppgerð hugsun — úr eigin mætti án trúar og án réttrar vissu frá Kristi, þar sem vesalings syndararnir hugsuðu um girndina og hefndina. Stundum hefðu þeir betur hlegið en grátið, fyrir utan þá, sem annaðhvort skildu lögmálið réttilega eða sem djöfullinn hafði til einskis þjakað með hryggum anda. Annars hefur þessi eftirsjá verið hræsni og hefur ekki deytt syndafíknina. Þeir hlutu því að iðrast, en hefðu fremur syndgað enn frekar, hefði þeim gefist kostur á því.

Skriftirnar fólu eftirfarandi í sér: Hver og einn þurfti að telja upp allar syndir sínar, sem er ómögulegt að gera. Í því fólst píslarvætti. Ef hann gleymdi hins vegar einhverjum syndum, var honum fyrirgefið með því skilyrði, að hann þyrfti að skrifta fyrir hana, ef hún rifjaðist upp fyrir honum.

Af þeim sökum gat hann aldrei vitað, hvenær hann hafði hreinsað sig nægilega í skriftum sínum eða hvenær skriftunum átti að ljúka. Samt var hann ávíttur fyrir verk sín. Og honum var sagt, að því hreinni sem iðrun hans væri og því meira sem hann skammaðist sín og auðmýkti sjálfan sig frammi fyrir öldungunum, þeim mun fyrr   og fremur bætti hann fyrir syndirnar, því að með slíkri auðmýkt má ávinna sér vissa náð hjá Guði.

Hér var heldur um enga trú á Guð að ræða. Og fyrir kraft sýknunarinnar var honum ekkert sagt, heldur byggðist huggun hans á upptalningu synda hans og smáninni. Hins vegar er ekkert um slíka iðrun að segja, sem píslarvætti, níðingsverk og skurðgoðadýrkun hafa valdið.

Yfirbótin er ótvírætt langítarlegasti hlutinn, því að enginn maður gæti vitað, hversu mikið hann ætti að gera til að bæta fyrir hverja einustu synd, og því þegði hann yfir þeim öllum. Hér fundu þeir aðeins eina leið út; þar sem gera þyrfti lítið til yfirbótar og auðvelt væri að hverfa frá, eins og að fara fimm sinnum með Faðir vor, fasta í einn dag o.s.frv. Sú iðrun þeirra, sem eftir yrði, vísaði þeim í hreinsunareldinn.

Hér var nú heldur ekkert nema eymd og neyð. Nokkrir álitu, að þeir kæmust aldrei úr hreinsunareldinum, vegna þess að samkvæmt gömlum kirkjuréttarályktunum útheimti dauðasynd sjö ára iðrun. Samt studdist trúnaðartraustið einnig við yfirbótarverk okkar. Og trúnaðartraustið var algjörlega háð því, hvort yfirbótin gat fullkomnast.  Og hvorki væri þörf á trúnni né Kristi. En slíkt var ómögulegt. Ef einhver hefði nú gert iðrun í hundrað ár með þessum hætti, hefði hann samt ekkert við, hvenær hann hefði iðrast nóg. Það hefði í för með sér að gera sífellda iðrun en komast aldrei nokkurn tímann til iðrunar.

Hér kom nú páfastóllinn í Róm vesalings kirkjunni til hjálpar og bjó til aflátið. Í gegnum það fyrirgaf hann og lagði af yfirbótina, fyrst þá til sjö ára, hundrað ára o.s.frv. Og hann skipti því á milli kardínálanna og biskupanna, þannig að annar gæti veitt það til hundrað ára, hinn til hundrað daga. En hinu hélt hann fyrir sjálfan sig, hvort leggja ætti alla yfirbótina af.

Þegar peningar fóru nú að komast í spilið og verslun með búllur tók að gefa vel af sér, kom sú hugmynd fram að gera árið 1300 að fagnaðarári, á tímum Bonífacíusar VIII sem flutti hana til Rómar. Það hafði í för með sér uppgjöf allrar refsingar og sakar. Þá kom allur lýður hlaupandi, þar sem hann vildi gjarnan létta af sér hinni þungu óbærilegu byrði. Allir vildu þar með finna fjársjóð á jörðu og nema hann á brott. Páfinn brást skjótt við og hvert fagnaðarárið á fætur öðru varð til. En því meiri peninga sem hann gleypti, þeim mun meira dýpkaði gjáin hjá honum. Af þeim sökum sendi hann þá erindreka sinn víðs vegar um lönd, þar til allar kirkjur og öll heimili áttu urmul fagnaðarára. Að lokum tróð hann sjálfum sér í hreinsunareldinn við dauðastund. Fyrst voru það messugjörð og sálumessur og síðan aflát og fagnaðarár.

Loks urðu sálirnar svo ódýrar, að einn smáeyrir dugði til frelsunar.

Enn var engin hjálp af öllu þessu. Enda þótt páfinn hefði kennt fólkinu að hafa trú á þessu afláti og treysta sér, var líka ýmislegt í lausu lofti. Hann setti inn í búllu sína: „Hver sá, sem vill eiga hlutdeild í aflátinu eða fagnaðarárinu, skal iðrast og skrifta og láta fé af hendi rakna.“ Nú höfum við heyrt hér að ofan, að þessi iðrun og þessar skriftir skapa óvissu og eru hræsni. Á sama hátt vissi enginn, hvaða sálir voru í hreinsunareldinum. Og af þeim sem þar voru inni, vissi enginn, hverjir höfðu með réttu iðrast og skriftað. Síðan tók hann peningana, kom þeim undan og með aflátinu beiti hann valdi sínu gegn þeim verkum fólksins, sem enginn vissi um.

Þar sem enn voru einhverjir til, sem ekki könnuðust við slíkar misgjörðir með hugsunum, orðum og verkum — eins og ég og mínir líkar, sem vildu vera munkar og prestar í klaustrum og kirkjuhúsum. Vér vildum verjast illum hugsunum með föstum, vökum, bænum, messuhaldi, hörðum fatnaði og fletum og lögðum oss í alvöru og af alefli fram um að verða heilagir — og vissulega hafði arfgeng og meðfædd reiði haft áhrif á svefninn, eins og heilagur Ágústínus og Hieronymus viðurkenna einnig ásamt öðrum, hvert eðli hennar er. Hún hélt öllum aðskildum, hverjum frá öðrum, þannig að nokkrir væru svo heilagir, eins og vér kenndum, sem værum án synda fullir góðra verka, svo að vér, með þeim góðu verkum vorum, sem eftir yrðu, deildum himninum með þeim og seldum. Það er sannarlega satt, og því til staðfestu eru innsigli, bréf og dæmi fyrir hendi.

Þessir menn þörfnuðust ekki iðrunar. Hverju myndu þeir svo sem sjá eftir, þar sem þeir féllust ekki á illar hugsanir sínar? Fyrir hvað myndu þeir skrifta, þar sem þeir forðast illu verkin? Fyrir hvað vildu þeir gera yfirbót, þar sem þeir hefðu ekki sekir um neitt, þannig að þeir ásamt öðrum aumum syndurum gætu selt það sem eftir yrði af réttlætinu? Á meðal slíkra heilagra manna voru einnig Farísearnir og hinir skriftlærðu á tíma Krists.

Hér kemur hinn eldlegi engill Opinberunarbókar Jóhannesar[34] til sögunnar, prédikari hinnar réttu iðrunar, og lýstur þá alla þrumu er hann segir: „Gjörið iðrun!“[35] Þá hugsa hinir: „Vér höfum víst gjört iðrun. Þessir hugsa: „Vér þörfnumst engrar iðrunar.“ Jóhannes segir hins vegar: „Gjörið allir iðrun, í báðum hópum, því að þér eruð iðrist í raun einskis og þessir eru falsheilagir. Þér þarfnist allir, báðir hópar, fyrirgefningar syndanna, því að enginn yðar veit enn, hver hin rétta iðrun syndanna er, þegið yfir því, að þér gjörið iðrun fyrir þá eða þér viljið forðast þá. Enginn yðar er góður. Þér eruð fullir vantrúar, skilningsleysis og fávisku um Guð og vilja hans. Því að hann er viðstaddur, sem veitir gnægð þeirrar náðar á náð ofan, sem við þurfum að þiggja,[36] og enginn maður getur verið réttláttur frammi fyrir Guði án hennar. Ef þér viljið því gjöra iðrun, gjörið þá sanna iðrun. Iðrun yðar gerir það ekki. Og þér hræsnarar, sem þurfið engrar iðrunar við, þér nöðrukyn, hver hefur gefið yður öryggi fyrir því, að þér munuð flýja komandi reiði?[37]

Þannig prédikar einnig Páll postuli í Rómverjabréfinu og mælir: „Ekki er neinn réttlátur, ekki einn. Ekki er neinn vitur, ekki neinn sem leitar Guðs. Allir eru þeir fallnir frá, allir saman ófærir orðnir. Ekki er neinn sem auðsýnir gæsku, ekki einn einasti.“[38] Og í Postulasögunni segir: „Guð… boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum.“[39] „Allir hvarvetna,“ segir hann, enginn maður er undanskilinn.  Þessi iðrun kennir oss að þekkja syndina, einmitt þetta, að vér erum til einskis hæfir, ekkert gott heyrir oss til og að vér þurfum algjörlega að verða nýjar og öðruvísi manneskjur.

Þessi iðrun er hvorki margskipt né aumkunarverð eins og sú iðrun, sem fæst fyrir drýgðar syndir og hún skapar heldur enga óvissu, eins og hin, því að hún þrætir ekki um það, hvað synd er og hvað er ekki synd, heldur dregur hún allt saman  og segir: „Í oss er ekkert nema synd. Hversu lengi eigum vér að leita, deila niður og sundurgreina?“ Hér skapar eftirsjáin heldur enga óvissu. Ekkert er því til, sem vér getum gert gott úr til þess að borga fyrir syndirnar, heldur er það aðeins hrein og áreiðanleg örvænting vegna þess alls, sem vér erum, hugsum, mælum eða gerum o.s.frv.

Á sama hátt geta skriftirnar ekki verið rangar, skapað óvissu eða skipst í marga hluta, því að sérhver sá, sem játar, að í sér sé alls ekkert annað en synd, gerir sér grein fyrir öllum syndum, sleppir engri úr og gleymir heldur engri. Þannig getur yfuirbótin heldur ekki skapað neina óvissu, því að hún er ekki vafasamt, syndlegt verk vort, heldur þjáning og blóð hins syndlausa lambs Guðs, „sem burt ber synd heimsins.“[40]

Um þessa iðrun prédikar Jóhannes og síðan Kristur í fagnaðarerindinu og einnig vér. Með þessari iðrun leggjum vér páfann og allt, sem byggt er á verkum vorum, að velli. Það allt er reist á fallvöltum og fánýtum grunni, sem nefnist góð verk eða lögmál, jafnvel þótt um ekkert gott verk sé að ræða, heldur einvörðugu ill verk. Og jafnvel þótt enginn haldi lögmálið — eins og Kristur segir,[41] — heldur brjóta allir gegn því. Þess vegna er þessi grundvöllur ekkert annað en sviksamleg lygi og hræsni, þar sem hún er allra helgust og langfegurst.

Og þessi iðrun helst á meðal kristinna manna allt til dauða, því að hún berst ásamt þeim syndum, sem eftir eru í holdinu alla ævina á enda, eins og Páll postuli bendir á í Rómverjabréfinu,[42] að hann sjái annað lögmál í limum sínum sem hann berjist gegn o.s.frv. og það sé ekki fyrir eigin krafta, heldur gjöf Heilags anda, sem fæst vegna fyrirgefningar syndanna. Þessi gjöf hreinsar og sópar daglega þessum syndum út á hverjum degi og vinnur að því að gera manninn réttlátan, hreinan og heilagan.

Um þetta vita páfinn, guðfræðingarnir, lögvitringarnir eða nokkur annar maður ekkert, heldur er þetta fræðsla frá himnum, sem opinberast fyrir fagnaðarerindið og hinir heilögu á meðal guðlausra hljóta að kalla slíkt villutrú.

Svo gæti farið, að nokkrir sértrúarandar kæmu fram. Ef til vill er raunin sú nú þegar og ég ber þá sjálfur augum á uppreisnartímum, sem álíta, að allir þeir, sem tekið hafa við Andanum eða fyrirgefningu syndanna eða verði trúaðir, ef þeir syndga sjálfir eftir það, haldi þeir samt sem áður trúnni og slíkar syndir skaða þá ekki. Í kjölfar þess öskra þeir: „Gerðu það sem þú vilt. Ef þú trúir, verður það allt að engu, trúin upprætir allar syndir“ o.s.frv. og bæta því við, að ef einhver syndgar gegn trúnni og Andanum, hafi viðkomandi hvorki átt Andann né trúna með réttu. Fjöldi slíkra fávísra manna hefur verið uppi á undan mér, og ég óttast, að djöfullinn nái enn að hremma einhverja slíka.

Þess vegna er það nauðsynlegt að vita það og kenna, að þegar dýrlingar — óháð því, hvort þeir hafa enn erfðasyndina og finna fyrir henni — iðrast daglega vegna hennar og berjast á móti henni — falla þeir einhvern veginn opinberlega í synd — eins og Davíð drýgði hór, myrti og guðlastaði.[43]  Þá eru trúin og Andinn á bak og burt, því að Heilagur andi lætur syndina ekki deila og drottna yfir sér, svo að hún nái fram að ganga, heldur kemur hann í veg fyrir hana og varnar því að hún fái vilja sínum framgengt. Ef hún gerir hins vegar það sem henni sýnist, eru Heilagur andi og trúin ekki viðstödd, því að það er eins og Jóhannes guðspjallamaður segir: „Hver sem er af Guði fæddur, drýgir ekki synd… {og} …getur ekki syndgað.“[44] Og það er vissulega líka sannleikur, sem hinn sami Jóhannes skrifar: „Ef vér segjum: „Vér höfum ekki synd,“ þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss.“[45]

Fagnaðarerindið

Við komum nú aftur að fagnaðarerindinu, sem á vissan hátt veitir ekki aðeins ráð og hjálp gegn syndinni, því að Guð er óumræðilega ríkur í náð sinni: Í fyrsta lagi fyrir munnlegt Orð sitt, þar sem fyrirgefning syndanna er prédikuð öllum heimi. Það er hið eiginlega verkefni fagnaðarerindisins. Í öðru lagi er það fyrir skírnina, í þriðja lagi fyrir hið heilaga altarissakramenti, í fjórða lagi fyrir lyklavöldin og einnig fyrir hið gagnkvæma bræðrasamfélag og huggun. „Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir…“ o.s.frv.[46]

Skírnin

Skírnin er ekkert annað en Orð Guðs í vatni, sem fólgið er í innsetningu hans, eða — eins og Páll nefnir það í Efesusbréfinu „laug vatnsins í orði“[47]. Eins segir Ágústínus líka: „Orðið verður að efni, og þannig kemur sakramentið til.“ Og þess vegna tökum vð ekki undir með Tómasi frá Aquinó og prédikunarmunkunum, sem gleyma Orðinu — sem Guð stofnaði til — og segja, að Guð hafi glætt vatnið andlegum krafti, sem hreinsi syndirnar burt í gegnum vatnið. Við samsinnum heldur ekki Duns Scotus og berfættu munkunum, sem kenna að skírnin hreinsi syndirnar burt fyrir tilstilli hins guðlega vilja, þannig að þessi hreinsun eigi sér einungis stað fyrir vilja Guðs, en alls ekki fyrir orðið eða vatnið.

Barnaskírnin

Um barnaskírnina trúum vér, að börn eigi að bera til skírnar, því að þau tilheyra einnig hinni fyrirheitnu frelsun, sem komið hefur til fyrir Krist.[48] Og þeim á kirkjan að láta hana í té.

Altarissakramentið

Um altarissakramentið trúum vér, að brauð og vín í kvöldmáltíðinni sé hinn sanni líkami og hið sanna blóð Krists og ekki aðeins rétt hinum góðu, kristnum mönnum og þegið af þeim, heldur einnig hinum illu, kristnu mönnum.

Og ekki á að gefa sér aðeins eina mynd af því. Vér þörfumst ekki hinna hástemmdu vísinda, sem kenna oss, að önnur myndin geti verið jafngild þeim báðum, eins og falsspekingarnir og Konstansráðið kenna. Þó svo að það væri satt, að annað efnið yrði jafngilt þeim báðum, þá er annað efnið samt ekki öll skipanin og innsetningin, sem Kristur stofnaði til og skipaði. Og sérstaklega fordæmum vér og bölvum í Guðs nafni þeim, sem ekki aðeins vænrækja bæði efnin, heldur harðbanna þau, fordæma þau, bera róg um þau sem villutrú, og stilla sér þar með upp gegn og ofar Kristi, Drottni vorum og Guði o.s.frv.

Sé litið til ummyndunar efnanna, höfum vér alls ekkert álit á útúrsnúningum falsspekinnar, þar sem kennt er, að brauð og vín hafi yfirgefið eða tapað sinni náttúrulegu veru og hafi aðeins tekið á sig form og lit brauðsins, en sé ekki raunverulegt brauð, því að það er algjörlega samkvæmt Heilagri ritningu, að brauðið er þarna og verður svo, eins og Páll postuli segir sjálfur í Fyrra Korintubréfi: „Brauðið, sem vér brjótum,“[49] og á sama hátt: „eti síðan af brauðinu“.[50]

Lyklarnir

Lyklarnir eru embætti og völd, sem Kristur hefur gefið kirkjunni,[51] til þess að haldast í syndum eða frelsast undan þeim, ekki aðeins hinum grófu og þekktu syndum, heldur einnig hinum smásmugulegu og leyndu, sem Guð einn þekkir, eins og skrifað stendur í Davíðssálmunum: „En hver verður var við yfirsjónirnar?“[52] Og Páll kvartar sjálfur undan því í Rómverjabréfinu, að hann berjist í holdinu á móti „lögmáli syndarinnar“.[53] Það er því ekki á voru valdi, heldur er það aðeins undir Guði einum komið að skera úr um það, hvílíkar, hversu stórar og hversu margar syndirnar eru, eins og skrifað stendur í Davíðssálmunum: „Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.“[54] Og Páll segir líka í Fyrra Korintubréfi: „Ég er mér ekki neins ills meðvitandi, en með því er ég þó ekki sýknaður.“[55]

Skriftirnar

Vegna þess að sýknunin eða kraftur lyklanna er einnig hjálp og huggun gegn slæmri samvisku, sem grundvallaður er í fagnaðarerindinu fyrir Krist, sem sagt, sýknunina má fyrir enga muni láta fara forgörðum, sérstaklega vegna veikrar samvisku, einnig vegna unga, ómótaða fólksins, svo að það hlýði á kristilega kenningu og hljóti uppfræðslu í henni.

Upptalning syndanna ætti hins vegar að vera hverjum og einum frjáls, hvað viðkomandi vill eða vill ekki telja upp. Svo lengi sem vér erum í holdinu, munum vér ekki ljúga, þegar vér segjum: „Ég er aumur maður, fullur synda.“ Og í Rómverjabréfinu segir: „En ég sé annað lögmál í limum mínum…“ o.s.frv.[56] Þar sem sýknunin hjá hverjum og einum kemur frá lyklaembættunum, á enginn að svívirða þau, heldur meta þau mikils og láta sér annt um þau, eins og öll önnur embætti kristinnar kirkju.

Og í þessum atriðum, sem varða hið munnlega, ytra Orð, verðum við að hafa hugfast, að Guð gefur engum Anda sinn eða náð sína, nema með eða fyrir viðkomandi ytra Orð, svo að vér fáum varist gegn ákafamönnum, þ.e.a.s. sveimhugaöndum, sem hrósa sjálfum sér fyrir að eiga Andann, án Orðsins og frammi fyrir því. Þeir dæma það, teygja það og toga eftir sínum geðþótta, eins og Müntzer gerði og margir fleiri gera enn þann dag í dag, sem vilja vera skarpir dómarar á milli Andans og bókstafsins og vita ekki, hvað þeir segja eða hverju þeir halda fram. Páfadæmið er þar að auki ekkert annað en ákafahyggja, þar sem páfinn stærir sig: „Öll réttindi eru í skríni hjarta míns.“ Og það sem hann boðar og býður í kirkju sinni, á að vera andlegt og rétt, einnig þar sem það stríðir gegn Heilagri ritningu eða munnlega Orði eða snýst um það. Þetta er allt hinn gamli djöfull eða hinn gamli höggormur, sem einnig gerði Adam og Evu að ákafamönnum og leiddi þau frá hinu ytra Orði Guðs út í sveimhugahyggju og sjálfbirgingshátt. Og það gerði hann vissulega einnig fyrir önnur ytri Orð, á sama hátt og ákafahyggjumenn vorir svívirða hið ytra Orð og þegja samt ekki sjálfir, heldur fylla þeir heiminn af rausi sínu og skrifum, rétt eins og Andinn gæti ekki komið í gegnum Heilaga ritningu eða munnleg orð postulanna, heldur yrði hann að koma í gegnum ræðu þeirra og rit. Hvers vegna geyma þeir ekki heldur prédikun sína og rit sín, þar til Andinn sjálfur kemur í fólkið án rita þeirra og frammi fyrir þeim, eins og þeir hrósa sér af því, að hann sé kominn í þá án prédikunar Heilagrar ritningar? Hér er nú engu við þá orðræðu að bæta, við höfum fjallað nóg um það að öðru leyti.

Einnig þeir, sem trúa fyrir skírn eða taka trú í skírninni, hljóta að heyra það, sem stendur í Markúsarguðspjalli, fyrir hið ytra, undangengna Orð, rétt eins og hinir gömlu, þegar þeir komast til sjálfra sín, einnig þegar þeir voru fyrst í stað vantrúaðir og höfðu barist í tíu ár við Andann og skírnina: „Sá sem trúir og skírist, mun hólpinn verða.“[57] Og Kornelíus í Postulasögunni hafði lengi heyrt um þann Messías, er koma skyldi, hjá Gyðingunum, þar sem hann var réttlátur frammi fyrir Guði og bæn hans og ölmusugjafir í þeirri trú voru honum þægilegar — eins og Lúkas sagði í Postulasögunni: „Hann var trúmaður og dýrkaði Guð.“[58] Og án þess að hafa heyrt þetta undangengna Orð gat hann hvorki verið trúaður né réttlátur. En Pétur postuli þurfti að opinbera honum, að Messías — er hann hafði fram að því og þar eftir trúað — væri nú kominn, svo að trú hans á þann Messías, sem ætti eftir að koma, héldi honum ekki föngnum hjá hinum þverúðugu, vantrúuðu Gyðingum. Hann vissi hins vegar, að hann myndi nú öðlast sælu fyrir tilstilli Messíasar, sem nú væri kominn og hann mætti hvorki afneita honum eða ofsækja hann ásamt Gyðingunum o.s.frv.

Í stuttu máli: Ákafinn er áskapaður Adam og börnum hans frá upphafi allt til heimsins enda. Hann er þeim öllum gefinn og innrættur sem eitur gömlum drekum og er afsprengi, kraftur og vald allrar villutrúar — einnig páfadæmisins og Múhameðs. Þess vegna verðum vér og þurfum að halda oss fast við það, að Guð muni ekki meðhöndla oss á annan hátt en fyrir sitt ytra Orð og sakramenti. Hins vegar er það allt djöfullinn, sem hrósað er af andanum án þessa Orðs og sakramentis. Guð vildi líka birtast Móse fyrst í gegnum hinn logandi runna og hið munnlega Orð.[59] Og enginn spámaður, hvorki Elía né Elísa, hafa þar að auki eða án boðorðanna tíu haldið sig við Andann. Og Jóhannes skírari tók hvorki við hinu undangengna orði frá Gabríel[60] né heldur tók hann viðbragð án þess að heyra rödd Maríu í móðurlífi sínu[61]. Og Pétur postuli segir í síðara bréfi sínu: „Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“[62] En án hinna ytri orða voru þeir ekki heilagir, mun síður hefði Heilagur andi knúið þá sem vanheilaga menn til þess að tala. Hann segir þá hafa verið heilaga, þar sem Heilagur andi talaði í gegnum þá.

Bannfæring

Hin mikla bannfæring, sem páfinn nefnir svo, álítum vér vera hreina, veraldlega refsingu og kemur oss kirkjunnar þjónum ekki við. En sú litla, það er að segja hin rétta, kristilega bannfæring, felur í sér að hleypa ekki hinum alkunnu, harðsvíruðu syndurum að sakramentunum eða annars konar samfélögum í kirkjunum, fyrr en þeir bæta ráð sitt og forðast syndirnar. Og prédikararnir eiga með andlegri refsingu sinni samkvæmt því ekki að rugla þessari bannfæringu saman við veraldlega refsingu.

Vígsla og köllun

Ef biskuparnir vildu kallast sannir og taka við kirkjunum og fagnaðarerindinu, þá væri hægt vegna kærleikans og einingarinnar, en samt ekki endilega vegna nauðungar, að játa, að þeir hafi vígt og fermt oss og prédikara vora, með því þó að afmá allt svindl og öll falsverk ókristilegs rekstrar og siðareglna. Þeir eru nú hins vegar engir sannir biskupar eða vilja ekki heldur vera það, heldur veraldlegir drottnarar og furstar, sem hvorki prédika né kenna, hvorki skíra né taka til altaris, né vilja heldur sinna nokkru verki eða embætti kirkjunnar. Þar að auki ofsækja þeir og fordæma þá, sem sinna þessu embætti. Samt má kirkjan ekki vera án þjóna, þeirra vegna.

Af þeim sökum viljum vér og skulum vér — eins og gömlu fyrirmyndirnar í kirkjunum og Faðirinn kenna oss — sjálfir vígja dugmikla menn til þessa embættis. Og þeir megna ekki að banna oss það eða varna oss þess, heldur ekki samkvæmt sínum eigin réttindum, því að samkvæmt réttindum þeirra eru þeir sem vígðir eru, jafnvel af villutrúarmönnum, gjaldgengir og þannig á það að vera. Rétt eins og hinn heilagi Hierónýmus skrifar frá kirkjunni í Alexandríu að í fyrstunni var henni stjórnað án biskupa sameiginlega af prestum og prédikurum.

Hjónaband presta

Þeir[63] hafa hvorki heimild né rétt til þess að banna hjónaband og íþyngja guðlegri stétt prestanna með eilífu skírlífi. Hins vegar hafa þeir tekið á því, eins og hinir andkristnu, harðráðu, svívirðilegu þorparar, þar sem þeir nota alls kyns hræðilegar, skelfilegar, óteljandi syndir óskírlífisins sem ástæður, sem þeir ástunda. Að svo litlu leyti sem oss eða þeim er gefið vald til, að gera konu úr karli eða karl úr konu, eða afnema kynjamismun, hafa þeir á sama hátt haft vald til þess að skilja í sundur eða banna þessa sköpun Guðs, þannig að þau megi ekki á heiðarlegan hátt sem hjón búa hvort hjá öðru. Af þeim sökum viljum vér ekki fallast á óþægilegt einlífi þeirra, hvað þá þola það, heldur hafa hjónabandið frjálst, eins og Guð skipaði fyrir og stofnsetti það. Og vér viljum heldur ekki slíta sundur verk hans né hindra þau, því að Páll postuli segir: „Andinn segir berlega, að á síðari tímum muni sumir ganga af trúnni og gefa sig að villuöndum og lærdómum illra anda.“[64]

Kirkjan

Vér föllumst ekki á það, að þeir[65] séu kirkjan, og það eru þeir heldur ekki. Og vér viljum heldur ekki heyra, hvað þeir boða eða banna í nafni kirkjunnar. Og Guði sé lof, þetta veit sérhvert sjö ára barn, hvað kirkjan er, nefnilega hin heilögu, trúuðu, þar sem „sauðirnir heyra raust hans.“[66] Þannig biðja því börnin: „Ég trúi á heilaga, almenna[67] kirkju.“ Þessi heilagleiki felur ekki í sér rykkilín, krúnurakstur, síða kufla og aðrir helgisiðir þeirra, sem þeir hafa skáldað út frá Heilagri ritningu, heldur í Orði Guðs og réttri trú.

Hvernig maður réttlætist frammi fyrir Guði og um góðu verkin

Því, sem ég hef hingað til staðfastlega kennt, hyggst ég ekki breyta, nefnilega, að vér „með trúnni“,[68] eins og Pétur postuli segir í Postulasögunni, öðlumst annað, nýtt, hreint hjarta og Guð vill halda oss algjörlega réttlátum og heilögum vegna Krists, meðalgangara vors, og heldur oss einnig þannig. Þó svo að syndin sé ekki alveg á bak og burt eða dauð í holdinu, vill hann samt hvorki taka hana með í reikninginn né vita af henni.

Og í kjölfar þessarar trúar, endurnýjunar og fyrirgefningar syndanna sigla síðan góð verk. Og jafnvel það sem af þessu er enn syndugt eða skortir, á heldur ekki að taka með sem synd eða skort, fyrir sakir hins sama Krists, heldur á allur maðurinn, bæði samkvæmt persónu sinni og verkum, að kallast og vera réttlátur og heilagur fyrir einskæra náð og miskunn í Kristi, sem úthellist og breiðist yfir oss, Af þeim sökum getum vér ekki hrósað verðskuldun verka vorra nógsamlega, án þess að líta á þau sem náð og miskunn, heldur — eins og skrifað stendur: „Sá, sem hrósar sér, hrósi sér í Drottni.“[69] Það er að segja, af því að hann á náðugan Guð, er allt gott. Í ofanálag segjum vér, að trúin sé röng og ekki rétt, ef engin góð verk fylgja.

Klausturheitið

Vegna þess að klausturheitið stríðir beinlínis gegn hinni fyrstu höfuðgrein, eiga þeir blátt áfram að láta það eiga sig. Við þá segir Kristur: „Ég er Kristur“[70] o.s.frv. Sá sem gengst undir klausturheit, trúir því að hann eigi betra líf en hinn venjulegi kristni maður. Og hann vill vegna verka sinna ekki aðeins hjálpa sjálfum sér, heldur einnig öðrum, til himins, þ.e.a.s. afneita Kristi o.s.frv. Og þeir hrósa sér af honum Tómasi sínum sem segir að klausturheitið sé eins og skírnin.[71]

Mannasetningarnar

Það sem fylgismenn páfa segja, að mannasetningar gagnist til fyrirgefningar syndanna eða verðskuldi sælu, er ókristilegt og bölvað, eins og Kristur segir: „Til einskis dýrka þeir mig, en þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar“[72] alveg eins og í Títusarbréfinu: „…sem fráhverfir eru sannleikanum.“[73] Á sama hátt er það heldur ekki rétt, sem þeir segja, að það sé dauðasynd að brjóta slíkar mannasetningar.

Þessar eru þær greinar sem ég verð að halda mig við og mun leggja allt í sölurnar  þar til ég dey, sé það Guðs vilji. Og ég veit ekki til þess að ég breyti nokkru eða gefi nokkuð eftir.  Vilji hins vegar einhver gefa nokkuð eftir, á hann það við samvisku sína. Að lokum er drellir[74] páfans sneisafullur af bjánalegum greinum á borð við kirkjuvígslur, klukknaskírnir, skírnir altarissteina og beiðni guðfeðgina um, að þau leggi sitt af mörkum o.s.frv. Þessi skírn er hinni heilögu skírn til háborinnar skammar og háðungar, þannig að enginn maður má þola hana. Síðan er það vígsla ljósa, pálma, flatkakna, róta, hafra o.s.frv. sem vissulega er hvorki vígt né hægt að tala um slíkt, heldur er aðeins háð og svik. Og þær sjónhverfingar eru óteljandi margar, sem vér felum þeim að biðja til Guðs síns og sjálfra sín, þar til þeir þreytast á því. Vér skiptum oss ekki af slíku.


  • [1] Gerson var evangelískur guðfræðingur sem starfaði í París.
  • [2] Mt 23.24
  • [3] Mt 7.3nn
  • [4] Rm 4.25
  • [5] Jh 1.29
  • [6] Jes 53.6
  • [7] Rm 3.23-25
  • [8] Rm 3.28
  • [9] Rm 3.26
  • [10] P 4.12
  • [11] Jes 53.5
  • [12] Mt 15.9
  • [13] Opb 10.3
  • [14] 1Kor 12.4-10; Rm 12.6-8
  • [15] 2Þ 2.4
  • [16] 2Þ 2.8
  • [17] Sk 3.2
  • [18] Rm 5.12
  • [19] Sjá hér Sl 51.7; Rm 5.12-21; 2M 33.20; 1M 3.6-19
  • [20] Rm 4.15
  • [21] Rm 5.20
  • [22] Rm 1.18
  • [23] Rm 3.19-20
  • [24] Jh 16.8
  • [25] Jer 23.29
  • [26] Mk 1.15
  • [27] Mk 1.4
  • [28] Lk 24.47
  • [29] Sbr. 1S 28.20; 1S 31.4; Mt 27.3-5
  • [30] Rm 7.10
  • [31] Sl 130.7
  • [32] Á latínu contritio
  • [33] Á latínu attritio
  • [34] Opb 10.1
  • [35] Mt 3.2
  • [36] Jh 1.16
  • [37] Mt 3.7
  • [38] Rm 3.10-12
  • [39] (með öðrum orðum; gjöra iðrun), P 17.30
  • [40] Jh 1.29
  • [41] Jh 7.19
  • [42] Rm 7.23, 8.2
  • [43] 2Sam 11. kap,
  • [44] 1Jh 3.9; 5.18
  • [45] 1Jh 1.8
  • [46] Mt 18.20
  • [47] Ef 5.26
  • [48] Mt 19.14
  • [49] 1Kor 10.16
  • [50] 1Kor 11.28
  • [51] Mt 16.19; 18.18
  • [52] Sl 19.13
  • [53] Rm 7.23
  • [54] Sl 143.2
  • [55] 1Kor 4.4
  • [56] Rm 7.23
  • [57] Mk 16.16
  • [58] P 10.2
  • [59] 2M 3.2; 4.1-17
  • [60] Lk 1.13-20
  • [61] Lk 1.41
  • [62] 2Pt 1.21
  • [63] Þ.e. fylgismenn páfa.
  • [64] 1Tm 4.1
  • [65] Enn er vísað til fylgismanna páfa.
  • [66] Jh 10.3
  • [67] réttara; kristilega
  • [68] P 15.9
  • [69] 1Kor 1.31; 2Kor 10.17
  • [70] Mt 24.5
  • [71] Í enskri þýðingu er bætt við: Slíkt er guðlast.
  • [72] Mt 15.9
  • [73] Tt 1.14
  • [74] Drellir merkir stór og klunnalegur poki eða skjóða. Bein þýðing er eiginlega     „sjónhverfingapoki“ (Gaukelsack).