Skip to content

Skriftir

Almennar skriftir fara fram í messu í stað syndajátningar. Prestur kynnir þá skriftir og hvetur til syndajátnignar með skrifaræðu.

Einkaskriftir geta farið fram eftir sálgæsluviðtal, eða einar og sér. Prestur hefur samkvæmt vígslu sinni fulltingi til að heyra skriftir, og ber honum alger þagnarskylda. Sá sem játar syndir sínar, krýpur eða situr við hlið prests. Skriftir hefjast þá með signingu.

Til undirbúnings getur sá sem játar syndir sínar lesið boðorðin tíu, einn iðrunarsálmanna (6, 32, 51, 102, 130 eða 143) eða skriftarspegil.

S: Söfnuður eða sá sem skriftar, P: Prestur, A: Allir..

Undirbúningur og syndajátning

Davíðssálmur

Söfnuður með víxllestri eða sá sem játar syndir sínar:

I: Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.

II: Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það,
og alla vegu mína gjörþekkir þú.

I: Því að eigi er það orð á tungu minni,
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls. . . .

II: Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt,
rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar,

I+II: og sjá þú, hvort ég geng á glötunarvegi,
og leið mig hinn eilífa veg. (Sálm 139:1–4, 23–24)

Syndajátning

P: Ef vér segjum: „Vér höfum ekki synd,“ þá svíkjum vér sjálfa oss og sannleikurinn er ekki í oss. (1 Jóh 1:8)

A: Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti. (1 Jóh 1:9)

P: Játum saman syndir vorar

A: Drottinn Guð. Í ljósi sannleika þín sé ég og viðurkenni,
að ég hef margvíslega syndgað
í hugsunum, orðum og gjörðum.
Þig skyldi ég elska yfir annað fram,
en ég hef elskað sjálfan mig meira en þig.
Þú kallaðir mig fram til þinnar þjónustu og treystir mér,
en ég hef brugðist trúnaði þínum.
Þú gafst mér náunga minn,
að ég elskaði hann eins og sjálfan mig.
Honum hef ég einnig brugðist
í sjálfsdýrkun og hjartakulda.
Því kem ég til þín
og viðurkenni sekt mína og synd.

Þögn til íhugunar og bænar

Einkaskriftir

Við einkaskriftir getur sá sem játar syndir sínar talið upp þær sérstöku syndir sem þyngja samviskuna:

Sérstaklega játa ég fyrir augliti þínu. . .

Hinar sérstöku syndir eru taldar upp, og því næst segir sá sem játar

Ég treysti á náð þína og miskunn og bið þig sakir Jesú Krists að fyrirgefa mér þessar syndir og sérhvað eina, er ég er sekur um.

Eftir syndajátninguna

A: Dæm mig, Drottinn, en varpa mér ekki frá þér. Ég þekki ekkert annað skjól en miskunn þína sakir Jesú Krists, frelsara míns. Amen.

Útskýringar

Syndaaflausn

P: Tökum undir bæn Davíðs í Sálmunum:

I: Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð,
og veit mér nýjan, stöðugan anda.

II: Varpa mér ekki burt frá augliti þínu
og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

I+II: Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis
og styð mig með fúsleiks anda, Amen (Sálm 51:12-14)

P: Jesús Kristur segir: Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni. Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim. (Matt 18:18-19)

P: Trúir þú, að fyrirgefning mín sé fyrirgefning Guðs?

S:

Viðstaddir ganga að gráðunum og krjúpa. Presturinn leggur hönd yfir hvern og einn og mælir um leið:

P: Guð sé þér náðugur og styrki trú þína. Eftir skipun Drottins vors Jesú Krists fyrirgef ég þér syndir þínar í nafni Guðs Föður, Sonar og Heilags Anda. Amen.

S: Amen

Prestur getur lesið ýmsa ritningarlestra til huggunar þeirra, sem finna til þungrar sektar í samvisku sinni eða eru hryggir og hugsjúkir. Við einkaskriftir má ljúka með bæn og bæn Drottins og blessun. Við almennar skriftir í guðsþjónustu heldur messan áfram með miskunnarbæn.

P: Friður sé með þér/yður

Útskýringar