Skip to content

Um okkur

Að baki þessa verkefnis um að vekja athygli á játningarbundinni evangelísk-lúterskri krisni, sem og að hefja kirkjustarf á þeim grundvelli, er hópur Íslendinga og erlendra aðila. Við eigum sameiginlega trú á Jesú Krist, frelsara okkar, sem lét líf sitt á krossinum okkar vegna og fyrir okkur, og reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum.

Við viljum halda í lúterskan sið og hefðir, og á sama tíma halda í þann skilning að heilög ritning sé hið óskeikula orð Guðs, gefið til þess að kveikja trú á Krist, og gegnum hana veita aflausn syndanna og eilíft líf. Ekki eru til aðrar leiðir til hjálpræðis. Ágsborgarjátningin segir þess vegna í fimmtu grein: „Til þess að vér öðlumst þessa trú, er stofnað embætti til að kenna fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum, því að fyrir orðið og sakramentin eins og tæki er gefinn Heilagur andi, sem kemur til leiðar trúnni, þar sem og þegar Guði þóknast…“

Játningarrit

Við játum að hin spámannlegu og postullegu rit gamla og nýja testamentisins séu hin eina og sanna uppspretta allra kristilegra kenninga og sú regla og viðmið sem dæmir allar kenningar og kennara trúarinnar.

Því miður er raunin hinsvegar sú að margar mismunandi kenningar gera kröfu á því að eiga uppsprettu sína í heilagri ritningu. Gegnum aldirnar hafa mörg ágreiningsefni verið rædd, og í sumum tilvikum hefur kirkjan komist að samhljóðandi niðurstöðu. Sú niðurstaða hefur þá stundum verið tjáð í svokölluðum játningarritum.

Þau játningarrit sem við játum eru fyrst hin sömu og játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar, þ.e.

  • Postullega trúarjátningin
  • Níkeujátningin
  • Aþanasíusarjátningin
  • Ágsborgarjátningin
  • Fræði Lúters hin minni

Flestar lútherskar kirkjur í heiminum hafa hinsvegar fjögur önnur játningarrit til viðbótar. Við játum einnig þessi rit:

  • Játningarvörnin
  • Smalkaldgreinarnar með viðaukanum Tractatus de potestate papae
  • Fræði Lúters hin meiri
  • Samlyndisreglan

Öll þessi rit er að finna í Samlyndisbókinni svokölluðu. Í heild sinni hefur hún ekki komið út á íslensku, þótt mörg rit hennar hafi reyndar verið þýdd. Játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar er að finna í þýðingu Einars Sigurbjörnssonar í bókinni Kirkjan játar, ásamt skýringum hans. Fræðin hafa verið til í íslenskum þýðingum allt frá dögum siðbótarinnar. Sumar þeirra má nálgast á bækur.is (T.d. 1617, 1854.)

Játningarritin má lesa á ensku á bookofconcord.org. Þar er einnig að finna þýskan og latneskan frumtekxta.

Samstarfsaðilar

Verkefni þetta heyrir í fyrstu formlega undir Den Lutherske Kirke i Norge (www.lkn.no).

Meðal samstarfsaðila eru einstaklingar og söfnuðir innan American Association of Lutheran Churches (www.taalc.org), The Lutheran Church Missouri Synod (www.lcms.org), og annarra lúterskra kirkjudeilda. Við eigum einnig samstarf við Lutheran hour ministries (www.lhm.org).

Langtímamarkmið verkefnisins er að stofna játningarbundna lúterska fríkirkju á Íslandi sem staðið getur fyrir eigin starfi.

Prestur verkefnisins er Sakarías Ingólfsson, sem einnig þjónar sem Sóknarprestur Messíaskirkjunnar í Osló í Noregi. Sakarías ólst upp í Reykjavík, en hefur búið í Noregi frá því 2003. Veffang: sakarias.ingolfsson@lkn.no

Prestnám

Við viljum gjarnan komast í samband við unga menn sem vilja taka við köllun Drottins um að predíka Guðs orð og úthluta sakramentunum í þjónustu prests, annað hvort hjá okkur eða í samstarfskirkju. Prestsembætti er göfugt hlutverk sem Kristur hefur sjálfur stofnað í kirkju sinni. Prestnám okkar, Ad-Fontes, er viðbót við venjulegt guðfræðinám sem venjulega fer fram á kristniboðsskóla norska kristniboðssambandsins á Fjellhaug í Osló. Þáttakendur á Ad-Fontes fá reglulega þjálfun í textavinnu, námsferðir m.a. til Ísrael, starfsþjálfun í söfnuði og fara eitt ár í skiptinám á Concordia prestaskóla í Bandaríkjunum, annað hvort í St. Louis eða Ft. Wayne.

Vefsíðu á norsku er að finna á slóðinni www.ad-fontes.no.

Nánari upplýsingar er að finna hér.