Skip to content

Um páfans vald og forræði

Um páfans vald og forræði

[Vitnisburður Ritningarinnar]

1. Rómarbiskup kveðst, að guðdómlegum rétti, vera öllum biskupum og prestum æðri.

2. Svo bætir hann því við, að samkvæmt Guðs lögum hafi hann hvort tveggja sverðanna, þ.e. rétt til að skipa þjóðhöfðingja og setja þá af.

3. og í þriðja lagi segir hann að vegna sáluhjálparinnar sé nauðsynlegt að trúa þessu. Af þessum sökum telur Rómarbiskupinn sig vera staðgengil Krists á jörðu.

4. Vér lýsum því yfir að vér teljum þessar þrjár staðhæfingar vera rangar, óguðlegar, gerræðislegar og skaðlegar kirkjunni.

5. Til að útskýra þessa vissu vora, þá munum vér fyrst skilgreina hvað það er, sem þeir segja, að sé að vera ofar öllum biskupum að Guðs lögum. Þeir hafa þann skilning að páfinn sé biskup allra[1] og eins og þeir sjálfir segja: oecumenicum; þ.e. að allir biskupar og prestar um gervalla kristnina verði að sækja til hans vígslu og staðfestu. Hann hafi því rétt til að velja alla biskupa, vígja þá og staðfesta vígslu, svo og að svipta þá embætti.

6. Auk þessa tekur hann sér vald til þess að ákveða lög varðandi helgisiði guðsþjónustunnar, um eðlisbreytingu sakramentanna og um kenninguna. Hann vill að tilskipanir sínar, ákvarðanir og lög séu jafngild trúar játningunum eða Guðs boðum sem eru bindandi fyrir samviskuna, vegna þess að hann taki sér þetta vald í samræmi við Guðs lög. Þannig vill hann í raun setja sig ofar Guðs boðum. En það, sem er hræðilegast við þetta, er, að hann segir það vera nauðsynlegt til sáluhjálpar að trúa þessu öllu saman.

I

7. En fyrst skulum vér sýna með vitnisburði fagnaðarerindisins að Rómar biskup er ekki æðri öðrum biskupum og prestum samkvæmt Guðs lögum.

8. Í 22. kafla lúkasarguðspjalls[2] bannar Kristur klárlega að einn lærisveinanna hefji sig ofar hinum. Um þetta þráttuðu lærisveinarnir þegar Kristur hafði talað um þjáningar sínar; hver yrði fremstur þeirra og meira að segja hver yrði staðgengill Krists þegar hann væri farinn. Hér leiðréttir Kristur villu lærisveinanna og kennir þeim að enginn þeirra muni hafa vald eða tign ofar hinum, heldur verði þeir sendir sem jafningjar til hinnar sömu þjónustu við fagnaðarerindið. Þess vegna segir hann: Konungar þjóðanna drottna yfir þeim, en eigi sé svo yður farið, því að hver sem vill vera mestur á meðal yðar, hann sé þjónn yðar. Þessi andmæli Krists sýna að drottinvaldið[3] er óæskilegt. Í sömu þrætunni varðandi Guðsríkið kennir Kristur þeim það sama með því að setja drenghnokka mitt á meðal þeirra. Það gerði hann til að sýna að enginn þjónanna myndi hljóta forræði yfir neinum hinna, rétt eins og drengurinn tók sér ekkert forræði né sóttist eftir því.

II

9. Eins er það í Jóh 20 að Kristur sendir postulana án þess að gera greinarmun á þeim. En hann segir: Eins og Faðirinn sendi mig, þannig sendi ég yður.[4] Hann segist senda þá hvern og einn á sama hátt og hann sjálfur var sendur. Þess vegna fær hann engum forsvar eða vald yfir nokkrum hinna.

III

10. Í Galatabréfinu, 2. kafla,[5] tekur Páll af öll tvímæli um það að Pétur hvorki vígði hann né staðfesti köllun hans. Enda viðurkennir hann ekki að Pétur hafi slíkt vald að staðfestingar hans sé þörf. Í þessu máli berst hann af krafti gegn því að köllun hans sé komin undir kennivaldi Péturs. En ef Pétur hefði verið að Guðs lögum Páli æðri, hlyti Páll að hafa viðurkennt hann sem slíkan yfirboðara. Þess vegna segist Páll strax hafa farið að boða fagnaðarerindið án þess að ráðfæra sig við Pétur. Enn fremur segir hann: Mig varðar engu hvað þeir áður voru, sem í áliti eru. Guð fer ekki í manngreinarálit.[6] Og enn fremur: Þeir sem í áliti voru lögðu ekkert (frekara) fyrir mig.[7] Þar sem Páll vitnar greinilega um að hann hafi ekki leitað nokkurrar staðfestingar á köllun sinni hjá Pétri — ekki einu sinni þegar þeir hittust — þá kennir hann að kennivald til þjónustunnar[8] hvíli á orði Guðs. Því hafi Pétur ekki verið öðrum postulum æðri, né heldur ætti að sækja vígslu eða staðfestingu hennar eingöngu til Péturs.

IV

11. Í 1Kor 3[9] gerir Páll þjónana jafna og kennir að kirkjan sé æðri þjónunum. Þess vegna ætlar hann ekki Pétri neina tign eða drottinvald yfir kirkjunni eða öðrum þjónum hennar. Páll segir: Allt er yðar hvort heldur er Páll, Apollos eða Kefas.[10] Það er að segja: Hvorki Pétur né aðrir þjónar skulu taka sér drottinvald eða yfirráð yfir kirkjunni; þeir skulu ekki íþyngja kirkjunni með eigin kenningum. Ekkert kennivald hefur gildi umfram orðið. Ekki skal tefla fram kennivaldi Péturs gegn kennivaldi hinna postulanna. Það er eins og menn hafi hugsað með sér: Ef Pétri finnst eitthvað, og hann er æðstur postulanna, þá á Páli og hinum postulunum að sýnast hið sama. Páll hefur af Pétri þetta vald og hafnar því að kennivald hans megi sín meira en kennivald annarra (postula) eða kirkjunnar. Í 1Pét 5[11] segir: Þér skuluð eigi drottna yfir söfnuðunum.

[Vitnisburður sögunnar]

V

12. Á kirkjuþinginu í Níkeu var ákveðið að biskupinn í Alexandríu hefði umsjón með kirkjunum í austri, en Rómarbiskup með þeim sem heyrðu undir Róm,[12] þ.e. þeim sem væru í vesturhluta rómversku skattlandanna. Hér er í fyrsta sinn kveðið á um valdsvið Rómarbiskups og er það gert að mannlegum rétti, þ.e. með ákvörðun kirkjuþings. Og ef nú að Rómarbiskup væri að guðdómlegum rétti öðrum biskupum æðri, þá hefði kirkjuþinginu í Níkeu ekki leyfst að svipta hann nokkru valdi og flytja til alexandríubiskups. Þvert á móti hefðu allir biskuparnir í austurhlutanum þurft að sækja vígslu og staðfestingu til Rómarbiskups.

VI

13. Kirkjuþingið í níkeu ákvað einnig að söfnuðirnir skyldu velja sér biskup að viðstöddum einum eða fleiri biskupum úr nágrannabiskupsdæm um.

14. Þessi háttur var hafður á í vesturhlutanum og í latnesku kirkjunum eins og Cýpríanus og Ágústínus bera vitni um. En svo skrifar einmitt Cýpríanus í 4. bréfi sínu til Kornelíusar:

Þess vegna er nauðsynlegt að varðveita vandlega hina guðdómlegu hefð og postullega erfðavenju og halda því einnig hjá okkur, sem tíðkast að gera í svo til öllum löndum, en það er að þegar réttilega[13] skal halda vígsluathöfn, þá komi til fólksins, þar sem vígja skal tilsjónarmann, nokkrir biskupar úr þeim héruðum sem næst eru og biskupinn sé valinn að viðstöddu fólkinu, en það þekkir gjörla lífsferil hvers þeirra. Þetta sáum vér einnig gjört hjá oss þegar Sabíanus, kollegi vor, var vígður. Þannig hlaut hann biskupsembættið við almenna kosningu meðal bræðranna og að ráði biskupanna sem viðstaddir voru og með handayfirlagningu.

15. Þennan hátt kallar Cýpríanus guðdómlega hefð og postullega erfð og staðfestir að sé við haldið í svo til öllum löndum. Og þar sem hvorki var leitað eftir vígslu né staðfestingar hennar hjá Rómarbiskupi í stærstum hluta heimsins, bæði í grísku og rómversku kirkjunum, þá ætti að vera nægilega ljóst að kirkjurnar í þá daga veittu ekki Rómarbiskupi nein yfirráð eða drottinvald.

VII

16. Þess konar yfirráð eru óframkvæmanleg. Því að það er óframkvæmanlegt einum biskupi að hafa umsjón með öllum kirkjum jarðarinnar og fyrir söfnuði, sem staðsettir eru á ystu mörkum heimsbyggðarinnar, að sækja vígslu til eins biskups. En það er ljóst að kirkja Krists hefur dreifst um alla jarðarkringlu og nú um stundir eru margar kirkjur í austrinu sem hvorki biðja rómarbiskup um vígslu né staðfestingu. Og þar sem að þessi yfirráð eru óframkvæmanleg og hafa aldrei verið framkvæmd í reynd né heldur hafa kirkjurnar í stærstum hluta heims ekki viðurkennt þau, þá ætti að vera ljóst að til þeirra hefur ekki verið stofnað.[14]

VIII

17. Boðað var til margra hinna gömlu kirkjuþinga og þau haldin án þess að Rómarbiskup væri þar í forsæti. Þannig var um Níkeuþingið og mörg önnur. Þetta ber vott um að þá hafi kirkjan ekki  viðurkennt forræði eða yfirráð rómarbiskups.

IX

18. Híerónímus segir:[15]

Ef spurt er að kennivaldi, þá má heimurinn sín meir en borgin. Hvar svo sem biskupar hafa verið, hvort heldur í róm, Eugubium, Konstantínópel, Regíum eða Alexandríu, þá hafa þeir sömu  verðleika og sama prestsembætti. Vald vegna auðæfa eða læging vegna fátæktar upphefur annan en niðurlægir hinn.

X

19. Í bréfi sínu til patríarkans í alexandríu[16] bannar Gregoríus að láta kalla sig allsherjarbiskup[17] og í afrekaskrá sinni[18] segir hann að á kirkjuþinginu í Kalkedóníu hafi rómarbiskupi verið boðið að hafa með höndum forræði kirkjunnar en það hafi ekki verið þegið.

XI

20. Ennfremur: Hvernig getur páfinn verið að guðdómlegum rétti yfir alla kirkjuna settur, þegar valið er í höndum kirkjunnar og að smám saman hafi sú venja komist á að keisarinn hafi staðfest kosningu rómarbiskups?

21. Þar að auki var það Pókas keisari sem ákvað að rómarbiskupi skyldi fengið forræði kirkjunnar eftir langvarandi deilur Rómarbiskups og biskupsins í Konstantínópel um forræði kirkjunnar. Ef fornkirkjan hefði viðurkennt forræði páfans[19] í Róm hefði ekki verið hægt að hleypa þessari deilu af stað né hefði verið nokkur þörf á úrskurði keisarans.

[Svar við rökfærslu Rómar]

22. En nokkrir ritningarstaðir standa í vegi fyrir oss, það er að segja þú ert Pétur og á þessum kletti byggi ég kirkju mína. Einnig: Þér mun ég gefa lykla og gættu sauða minna og fleiri slíkir. Þar sem vér höfum fjallað vel og ýtarlega um þessi deilumál annars staðar í bókum vorum og að ómögulegt er að rekja það allt aftur hér, þá vísum vér til þeirra skrifa.[20] Viljum vér láta sem það allt hafi verið endurtekið. En stuttlega viljum vér svara því hvernig þessir staðir skuli ritskýrðir.

23. Í öllum þessum ritningargreinum er Pétur aðeins fulltrúi[21] alls postulahópsins, eins og greinilegt er af sjálfum textanum. Því að Kristur spyr ekki Pétur einan, heldur segir: Hvern segið þér mig vera? og varð andi það að hann notar eintölu er hann segir: Ég mun gefa þér lykla, og hvað sem þú bindur þá notar hann annars staðar fleirtölu: Hvað sem þér bindið og svo framvegis og í Jóhannesarguðspjalli segir: Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar og svo framvegis. Þessi orð votta að lyklarnir voru fengnir öllum postulunum jafnt og að allir postularnir voru sendir sem jafningjar.

24. Þar fyrir utan ber að viðurkenna að lyklarnir tilheyra ekki einni persónu, heldur kirkjunni, eins og mörg greinileg og traust rök bera vott um, vegna þess að þar sem Kristur talar um lyklana í Matt 18, þá bætir hann við: Hvar sem tveir eða þrír eru einhuga á jörðu. Í raun lét hann kirkjuna eina fá lykilinn án þess að hún gæti framselt hann, alveg eins og kirkjan ein hefur rétt köllunarinnar.[22] Af þessu leiðir að Pétur getur ekki verið annað en tákngervingur postulasamfélagsins. Þess vegna fengu þeir Pétri ekkert forsvar, ekkert hefðarsæti og ekkert drottinvald.

25. Hvað varðar orðin á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína, þá er það raunar öruggt að kirkjan byggist ekki á kennivaldi manns, heldur á þjónustunni við þá játningu sem Pétur gerði, er hann sagði að Jesús væri Kristur, sonur Guðs. Þess vegna ávarpar Jesús hann sem þjón þegar hann segir á þessum kletti …, þ.e. á þessari þjónustu.

26. Enn fremur er þjónustan í hinum nýja sáttmála ekki bundin við stað eða persónur eins og þjónusta Levítanna, heldur er hún dreifð um veröld alla og er þar að finna þar sem Guð gefur gjafir sínar; meðal postula, spámanna, hirða og kennara. Þessi þjónusta fær ekkert vægi vegna neins manns, heldur vegna orðsins sem Kristur hefur gefið.

27. Fæstir hinna helgu feðra, svo sem Órígenes,[23] Ambrósíus,[24] Cýpríanus[25] Hilaríus[26] og Beda,[27] túlka ekki setninguna á þessum kletti … þannig að átt sé við Pétur sjálfan eða forystuhlutverk[28] hans.

28. Svo segir Gullinmunni: Á þessum kletti … segir hann en ekki á Pétri. Hann byggði einmitt kirkju sína á trú Péturs, en ekki á manninum Pétri. Og hver var svo trúin? Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.[29]

29. Og Hilaríus segir: Faðirinn opinberaði Pétri að hann skyldi segja: Þú ert sonur hins lifanda Guðs. Einmitt á þessum kletti játningarinnar byggist kirkjan; þessi trú er grundvöllur kirkjunnar.

30. Eins er það með ritningargreinarnar Gættu sauða minna og elskar þú mig meira en þeir? af þessu leiðir ekki að Pétri hafi verið gefin nokkur einasta sérstaða. Hann bauð honum að gæta sauðanna, þ.e. að boða orðið eða að stýra kirkjunni með fagnaðarerindinu, en það hlutverk átti hann sameiginlegt með hinum postulunum.

31. Næsta atriði er miklu augljósara. Kristur gaf postulunum aðeins andlegt vald, þ.e. að boða fagnaðarerindið, að boða aflausn synda, að þjónusta að sakramentunum og að útskúfa óguðlegum án þess að beita þar líkamlegu afli, en hann gaf þeim ekki vald sverðsins eða réttinn til að ráðstafa veraldlegu valdi, vera handhafar þess eða véla þar um. Kristur sagði nefnilega: Farið, kennið þeim að halda allt sem ég hef boðið yður.[30] Og einnig: Eins og Faðirinn sendi mig, þannig sendi ég yður.[31] Það er óhagganlegt að Kristur var ekki sendur til þess að hann færi um með sverði eða hefði nokkurt veraldlegt vald, eins og hann sagði sjálfur: Ríki mitt er ekki af þessum heimi.[32] Og Páll segir: Ekki viljum vér drottna yfir trú yðar.[33] Og ennfremur: Vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk[34] og svo framvegis.

32. Það að Kristur var í píslum sínum krýndur þyrnikórónu og leiddur fram í konunglegum purpuraklæðum, honum til háðungar, á að tákna að þegar hið andlega ríki er fyrirlitið, þ.e. þegar fagnaðarerindinu er haldið niðri,[35] þá verði öðru veraldlegu ríki komið á fót, dulbúnu[36] sem kirkjulegu valdi.

33. Þess vegna er það lygi, og hreinlega óguðlegt, sem finna má í páfabullu Bónifasíusar VIII[37] í 22. grein kaflans omnes og fleiri slíkum, þar sem því er haldið fram að páfinn sé drottnari konungdæma heimsins.

34. Þessi sannfæring hefur leitt skelfilegt myrkur inn í kirkjuna og auk þess orðið mikill hvati fyrir uppreisn í evrópu. Því þjónustan við fagnaðarerindið hefur verið vanrækt. Horfin er hugmyndin um trúna og andlegaríkið. Menn telja hinar ytri pólitísku ákvarðanir páfans vera það sama og kristilegt réttlæti.

35. Þvínæst hófu páfarnir að hrifsa til sín völd, setja af kónga, íþyngja konungum svo til allra þjóða í Evrópu með óréttlátum bannfæringum og hernaði, sér í lagi þýsku keisurunum, stundum til þess að leggja undir sig land á Ítalíu sem þeir réðu, stundum til þess að draga í sína þjónustu biskupa Þýskalands, og þannig hefðu þeir af keisurunum réttinn til að útnefna biskupa. Það er jafnvel ritað svo í Klementíunni:[38] Ef sæti keisarans er autt, þá er páfinn lögmætur arftaki.

36. Þannig hefur páfinn ekki aðeins ruðst til valda í trássi við boð Krists, heldur gerir hann sig að yfirboðara allra kónga á gerræðislegan hátt. Í þessu máli ber ekki aðeins að andmæla framkvæmdinni sjálfri, heldur ekki síður að fordæma það að hann skuli bera fyrir sig kennivald frá Kristi þegið; að lyklavaldið gildi líka þegar kemur að veraldlegum ríkjum, að hann bindur hjálpræðið við skoðanir sem eru óguðlegar og hrein óhæfa, þegar hann segir að það sé nauðsynlegt til sáluhjálpar að menn trúi því að samkvæmt guðdómlegum rétti fylgi páfanum þetta vald.

37. Þetta eru þvílíkar villur og þar sem þær sveipa trúna og ríki Krists þoku, þá ættu þær á engan hátt að liggja í þagnargildi. Sagan sýnir að mörg pestin hefur sleppt sér innan kirkjunnar.

38. Í þriðja lagi má bæta því við, að þó svo að páfinn hefði samkvæmt guðdómlegum rétti forræði og yfirráð, þá ber manni samt ekki að hlýða páfum sem verja óguðlega siðu, skurðgoðadýrkun og kenningar sem ganga í berhögg við fagnaðarerindið. Nei, slíka páfa og slíkt vald ber manni að líta á sem bannfært. Það kenndi Páll skýrt og skorinort: Ef engill af himnum kæmi og kenndi yður annað fagnaðarerindi en það sem ég kenndi yður, þá sé hann bölvaður.[39] Og í Postulasögunni segir: Framar ber að hlýða Guði en mönnum.[40] Og í kanónskum rétti er það einnig tvímælalaust kennt að villutrúarpáfa eigi ekki að hlýða. Æðsti presturinn að hætti Levítanna var æðstur presta að guðdómlegum rétti, en samt átti ekki að hlýða óguðlegum æðstu prestum; Jeremía og aðrir spámenn deildu við æðstu prestana. Postularnir voru ekki á sama máli og Kaífas og ekki bar þeim að hlýða honum!

39. En ljóst er að rómversku páfarnir og sveinar þeirra verja villukenningu og óguðlega helgisiði. Og merki andskotans koma greinilega fram í ríki páfans og undirsáta hans. Páll lýsir andskotanum í bréfi til Þessalóníkumanna og kallar hann: Andstæðing Krists sem setur sig ofar öllu, sem kallast Guð eða dýrkast sem Guð, og situr í musteri Guðs eins og hann væri Guð.[41] Hann talar um einhvern sem stjórnar í kirkjunni, ekki um konunga þjóðanna, og hann kallar hann andstæðing Krists vegna þess að hann hugsar upp kenningu sem stríðir gegn fagnaðarerindinu og hrokast upp í því að telja sig hafa guðdómlegt vald.

[Kennimerki andkrists]

40. Í fyrsta lagi er það áreiðanlegt að páfinn ríkir í kirkjunni og að hann hefir komið þessu ríki á fót, í sjálfs sín þágu, undir yfirskini kirkjulegs kennivalds og embættis. Hann felur sig bak við orðin: Þér gef ég lyklana. Því næst fer kenning páfans á margan hátt í bága við fagnaðarerindið og páfinn tekur sér guðdómlegt kennivald á þrennan hátt: Í fyrsta lagi: Að hann tekur sér rétt til að breyta kenningu Krists og helgihaldi sem Guð sjálfur stofnaði til og vill að hans eigin kenningar og helgisiðir séu haldnir sem guðdómlegir væru. Í öðru lagi: Að hann tekur sér ekki aðeins rétt til að leysa og binda í þessu lífi, heldur tekur hann sér vald yfir sálunum eftir þetta líf. Í þriðja lagi: að páfinn vill ekki þola dóm kirkjunnar eða nokkurs annars aðila og telur hann að kennivald hans megi sín meira en samþykktir kirkjuþinganna og kirkjunnar allrar. Þetta jafngildir því að gera sjálfan sig að Guði, að vilja ekki beygja sig undir dómsvald kirkjunnar eða nokkurs annars. Og ofan á allt þetta ver hann þessa villu, sem er svo hryllileg, þessa foröktun guðrækninnar með mestu grimmd og tekur af lífi þá sem ekki eru sammála.

41. Og fyrst að málum er svo komið, þá verða kristnir menn að gæta sín á því að verða ekki þátttakendur í óguðlegum kenningum páfans, guðlasti hans og ranglátum grimmdarverkum. Þess vegna verða menn að sneiða hjá páfanum og liði hans, og sverja það af sér svo sem það væri ríki andskotans. Eða eins og Kristur sagði: Varið yður á falsspámönnum.[42] Páll skipar að óguðlega kennara eigi að sniðganga og sverja af sér og telja þá bölvaða. Í 2Kor 6 segir hann: Verið ekki í félagi við vantrúaða því hvaða samfélag hefur ljós eiginlega við myrkur?[43]

42. Það er alvarlegt að vera í andstöðu við vilja svo margra þjóða[44] og vera kallaðir klofningsmenn. En guðlegt kennivald skipar öllum að vera ekki félagsmenn og samherjar óguðleikans og ranglátrar grimmdar. Þess vegna er samviska vor nægjanleg afsökun. Villur páfadæmisins eru greinilegar. Og ritningin hrópar fullum hálsi að þessar villur séu kenningar djöfla og andskotans.

43. Augljós er skurðgoðadýrkunin í vanhelgun messunnar, þar sem hún er notuð, til viðbótar við aðra ágalla hennar, á ósæmilegan hátt til að út vega spilltan ábata.

44. Páfinn og lið hans afbaka algerlega kenninguna um iðrunina. Því að þeir kenna að fyrirgefning syndanna komi til vegna verðleika okkar eigin verka. Og síðan kenna þeir að maður eigi að efast um hvort fyrirgefningin gefist. Aldrei kenna þeir að fyrirgefning syndanna fáist fyrir Krist og að vegna þeirrar trúar öðlumst vér fyrirgefningu syndanna. Þannig gera þeir dýrð Krists ógreinanlega og hrifsa trausta huggun frá samviskunni og eyða sannri Guðs dýrkun, þ.e.a.s. stælingu trúarinnar sem berst við örvæntinguna.

45. Þeir hafa gert kenninguna um syndina óljósa og innleitt hefð um upptalningu afbrotanna,[45] en þessi hefð framkallar margháttaða villu og örvæntingu. Þeir hafa auk þess komið á yfirbótarverkum og með þeim gera þeir hjálpræði Krists ógreinilegt.

46. Af þessu sprettur aflátið, sem er hrein lygi, upphugsuð í ábataskyni.

47. Og þá að ákalli dýrlinganna: Hvílíka misnotkun og hversu hryllilega skurðgoðadýrkun hefur það ekki leitt af sér.

48. Hvílíkur ósómi hefur ekki sprottið af einlífiskvöðinni? Hvílíkur skuggi hefur ekki breiðst yfir fagnaðarerindið vegna kenningarinnar um klausturheitin? Hér hafa þeir komið því svo við, að klausturheit veiti réttlæti hjá Guði, og með því öðlist heitgjafinn fyrirgefningu syndanna. Þannig hafa þeir tekið hjálpræðisverk Krists frá honum og bundið mannlegum hefðum og gert algerlega að engu kenninguna um trúna. Þeir hafa ákveðið að smásmyglisleg erfikenning þeirra sé rétt guðsþjónusta og fullkomin og taka þeir þessar erfikenningar fram yfir þau verk sem eru ávöxtur köllunarinnar sem Guð krefst og hefur til stofnað. Þessar villur ber ekki heldur að meta sem léttvægar. Þær skaða dýrð Krists og stefna sálunum í voða. Það er ekki hægt að láta eins og þær séu ekki til.

49. Þessum villum fylgja þvínæst tvær gríðarlegar syndir. Sú fyrri, að páfinn ver þessar villur af ranglætisgrimmd og með refsingum. Og sú síðari, að hann sviptir kirkjuna dómsvaldi og leyfir ekki að dæmt sé í kirkjulegum deilumálum á eðlilegan hátt. Þvert á móti heldur hann því til streitu að hann sé hafinn yfir kirkjuþingin og hann geti afturkallað samþykktir þeirra eins og kemur fram, purkunarlaust, sums staðar í kirkjuréttinum. En dæmi eru um að páfar hafi verið mjög forskammaðir í þessum efnum.

50. Í 9. Questione, 3ja kanón, segir: Enginn dæmi hið hæsta sæti.[46] Því að dómarinn sé ekki dæmdur af keisaranum, né nokkrum vígðum manni, né konungum, né lýðnum.

51. Þannig stundar páfinn tvöfalt tyranní: Hann ver villukenningar sínar með ofbeldi og manndrápum og kemur í veg fyrir réttarfarslega rannsókn. Þetta síðara skaðar meira en nokkur refsing. Sökum þess að úrskurðar valdið hefur sannarlega verið tekið frá kirkjunni getur hún ekki upprætt óguðlegar kenningar eða óguðlegt helgihald og fyrir vikið hefur ótölulegur fjöldi sálna tapast um margra alda skeið.

52. Því skyldu guðhræddir menn íhuga hvílíkar villur og harðstjórn er að finna í páfadæminu og huga fyrst og fremst að því að hafna villunum en taka fagnandi hinni réttu kenningu, fyrir Guðs dýrðar skuld og sálar heillar.

53. Því næst skyldu þeir einnig hugsa um það hvílíkur glæpur það er að styðja við óréttlætanlega grimmd, þegar hinir heilögu eru teknir af lífi; en Guð mun án efa hefna fyrir blóð þeirra.

54. En fyrst og fremst verða nú hinir fremstu innan kirkjunnar, kóngar og furstar, að gæta hagsmuna kirkjunnar og sjá til þess að villukenningarnar verði upprættar og samviskan hreinsist; eða eins og Guð hvetur konungana sérdeilis: Og nú, konungar, verið hyggnir; rannsakið, þið sem dæmið jörðina.[47] Fyrsta skylda konunga ætti einmitt að vera að standa vörð um dýrð Guðs. Þess vegna væri það sannkölluð hneisa ef þeir notuðu áhrif sín og völd til að tryggja skurðgoðadýrkun í sessi og aðra óendanlega óhæfu, svo og til að drepa helga menn.

55. Og þó svo að páfinn héldi nú kirkjuþing; hvernig getur kirkjan læknast, ef páfinn getur ekki þolað að eitthvað sé ákveðið sem er gagnstætt vilja hans sjálfs, ef hann leyfir engum að segja skoðun sína nema sínum eigin sveinum, sem hann hefur bundið hryllilegum eiðum og formælingum til varnar harðstjórn hans og spillingu án þess að taka nokkurt tillit til orðs Guðs?

56. En þar sem ákvarðanir kirkjuþings væru ákvarðanir kirkjunnar en ekki páfans, þá myndi það fyrst og fremst koma í hlut konunganna að halda aftur af geðþóttavaldi páfans og sjá til þess að kirkjan sé ekki svipt tækifærinu að dæma og ákveða út frá orði Guðs.

57. Þannig að enda þótt Rómarbiskupinn hefði, samkvæmt guðdómlegum rétti, forræði, þá þarf samt ekki að hlýða honum þegar hann hefur varið óguðlegt guðsþjónustuhald og kenningu sem brýtur í bága við fagnaðarerindið. Þvert á móti er nauðsynlegt að mæta honum sem hann væri Andkristur. Villur páfans eru augljósar og ekki léttvægar.

58. Augljós er einnig grimmdin sem hann sýnir trúuðum. Boð Guðs um það, að við skyldum forðast skurðgoðadýrkun, óguðlega kenningu og rangláta grimmd, stendur óhaggað. Þess vegna hafa allir guðhræddir menn miklar, nauðsynlegar og augljósar ástæður til þess að hlýða ekki páfanum. Þessar nauðsynlegu ástæður eru guðhræddum huggun gegn öllum ásökunum, þegar þeir eru alvanalega sakaðir um hneykslanlegt athæfi, að kljúfa kirkjuna, og ala á sundrungu.

59. En þeir sem eru sammála páfanum og verja kenningu hans og helgisiði og hafa spillst af skurðgoðadýrkun og skoðunum sem eru hreint guðlast; þeir bera ábyrgð á dauða hinna guðhræddu sem páfi ofsækir, skaða dýrð Guðs og koma í veg fyrir heill kirkjunnar, af því að þeir staðfesta villurnar og aðra óhæfu, um alla eilífð.

ATH. Málsgreinar 60–82 vantar í þessa þýðingu. Þessar greinar fara yfir mátt og forræði biskupa.


Neðanmálsgreinar

  • [1] Episcopus universalis
  • [2] Vers 24–27
  • [3] Dominatio.
  • [4] Vers 21.
  • [5] Vers 2 og 6.
  • [6] Gal 2.6
  • [7] Ibid.
  • [8] Autoritas ministerii.
  • [9] Vers 3–4
  • [10] 1 Kor 3.21–22
  • [11] vers 3. Í latneska Nýja testamentinu stendur cleris en Melankton hefur orðið í eintölu (clero). Clerus merkir eiginlega kennilýður, prestar.
  • [12] Það er suburbanas.
  • [13] þ.e. samkvæmt réttri aðferð eða ritúali.
  • [14] þ.e.: ekki er lagagrundvöllur fyrir því valdi páfa sem hann tók sér.
  • [15] Bréf 146. til evangelusar.
  • [16] Epist. Lib. VIII ep. 30 ad Eulogium, episcopum Alexandrinum (MSL LXXVII 933; Decr. Grat. P.i.D. 99).
  • [17] Universalis.
  • [18] Res gestae. Sbr. epist. Lib v ep. 43 ad eulogium, episcopum Alexandrinum et Anastasium, episcopum Antiochenum (MSL LXXXvII 771).
  • [19] Melankton notar hér gamalt rómverskt heiti: Pontifex (maximus = brúarsmiður hinn mesti), sem hefur tengingu aftur til lýðveldistímans í Róm.
  • [20] Um ritningargrein í Matt sbr.: WA II 19n, 187–194, 248, 272, 277n, 299, 301, 320, 628n, vI 309–311, 314, vII 128n, 409–415, 708–714. Um Jóhannes, sbr. WA II 194–197, 301n, vI 316–321, vII 130, 415–417.
  • [21] Petrus sustinet personam communem. Melankton sækir hér líkingu til leikritanna. Hann á við að Pétur haldi á sameiginlegri grímu („persónu“) fyrir allan postulahópinn.
  • [22] Ius vocationis. Þ.e. kirkjan fer ein með boðunarhlutverkið og þjónustuna.
  • [23] Athugasemd við Matt tom. XII, 11.
  • [24] Athugasemd In Epist ad Ephesios 2, 20.
  • [25] De Catholicae Ecclesiae Unitate, cap. 4.
  • [26] De trinitate VI 36n. Sbr. grein 29 hjá Melankton.
  • [27] Matth. evang. exposito lib. III cap. 16.
  • [28] Superioritas.
  • [29] Þessi orð virðast ekki hafa varðveist annars staðar en hér.
  • [30] Matt 28.19–20.
  • [31] Jóh 20.21.
  • [32] Jóh 18.36.
  • [33] 2Kor 1.24.
  • [34] 2Kor 10.4.
  • [35] Kannski betra að segja „kúgað, undirokað“.
  • [36] Praetextu: „íklætt“, þ.e. undir yfirskini kirkjuvalds.
  • [37] Unam sanctam frá 1301.
  • [38] Þ.e. klementíska kirkjuréttinum (corpus juris Canonici Clementiae II 11 c.2).
  • [39] Gal 1.8.
  • [40] Post 5.29.
  • [41] 2Þess 2.3–4.
  • [42] Matt 7.15.
  • [43] 2Kor 6.14.
  • [44] Lit. þjóða.
  • [45] Þ.e. við skriftir.
  • [46] Primam sedem, þ.e. páfann. Decr. Grat. P. ii C. 9 q. 3 c. 13.
  • [47] Slm 2.10.